Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 11:30:20 (2569)

1998-12-18 11:30:20# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[11:30]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Ég spurði hæstv. sjútvrh. að því, hvar og hvenær ég hefði sagt austur á fjörðum að það ætti að taka öll atvinnuréttindi, allan kvóta af trillukörlum og bjóða hann upp. Hæstv. sjútvrh. svaraði því ekki. Hann hefur því komið upp í ræðustól og sett fram fullyrðingar og ásakanir sem hann getur ekki staðið við þegar hann er spurður. (Gripið fram í: Hver er þín stefna í því?)

Í öðru lagi: Er það ekki (Gripið fram í.) að verja forréttindi hinna fáu þegar gengið er út frá kerfi þar sem er ekki tekið tillit til þess að sjómennirnir á hafinu eigi nokkurn hlut eða nokkurn þátt í þeirri veiðireynslu sem lögð var til grundvallar úthlutun aflaheimildar? Fiskverkafólkið í landi átti engan þátt í þeirri reynslu samkvæmt þeim úthlutunarreglum sem giltu heldur aðeins eigendur þeirra skipa sem haldið var til sjós.

Þó voru þrjár undantekningar gerðar á þessu þar sem sjómenn fengu að njóta þeirra réttinda sem útgerðarmönnum einum voru sköpuð, þrjár undantekningar. (Gripið fram í: Ekki sjómenn.) Skipstjórakvótinn svokallaði --- jú, því að þeir voru sjómenn líka. Hvað hefur það haft í för með sér að einn sjómaður, einn sjósóknari, einn skipstjórnarmaður, fékk að njóta sömu réttinda og eigendur útgerða einir? Það hafði það í för með sér að á þeim rétti hefur honum tekist að byggja upp öflugasta útgerðarfyrirtæki á Íslandi.

Sjá menn þá ekki hversu mikið hefur verið gengið á hag sjómanna og fiskverkafólks sem fékk ekki að njóta þessara réttinda?