Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 11:53:22 (2572)

1998-12-18 11:53:22# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[11:53]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað gerum við okkur ljóst að bregðast þurfi við hér og nú. Við lögðum fram tillögu um að skipuð yrði sérstök þingnefnd. Margar tillögur hafa, hæstv. sjútvrh., verið í gangi og í umræðu, bæði innan Alþb. og annarra flokka. Mér er líka fullkunnugt að þegar ríkisstjórnin lagði fram frv. sem er til umræðu voru í gangi viðræður við forsvarsmenn smábátaútgerðar í landinu, m.a. um hvernig taka ætti á framtíð þeirra og þær viðræður eru enn í gangi.

Á sama tíma er hent inn tillögum sem eru í fullkominni ósátt við þá sem standa í þessum viðræðum. Ég veit að það þarf að svara þessu, ég geri mér fulla grein fyrir því, eins og hver einasti ábyrgur stjórnmálamaður. Ég geri mér líka fulla grein fyrir því að það verður að vera í sátt við, ekki bara smábátaútgerðina heldur við byggðirnar og þá byggðastefnu sem rekin er.

Sú tillaga sem liggur frammi frá hæstv. ríkisstjórn er ekki í sátt við smábátaútgerðina, hún er ekki í sátt við stjórnmálaflokkana, hún er ekki í sátt við þá sem vilja þessum atvinnuvegi vel. Við höfum ekki neinar töfralausnir enda ekki við því að búast. Ríkisstjórnin hefur þær ekki, þær eru ekki í þessu plaggi. Við erum ekki með þær en bjóðumst til að taka þátt í að mynda þessa sátt. Því hefur verið hafnað.

Hæstv. sjútvrh. segir þetta frv. eiga að takmarka smábátaútgerð, miðað við tillöguna á að taka af 328 fyrirtæki. Hins vegar er merkilegt að hæstv. sjútvrh. nefndi ekki, eftir öll ummæli hans eða fulltrúa ríkisstjórnarinnar, að Hæstiréttur hefði ekki skilið hvað væri veiðiheimild og aflaheimild. Ég fór yfir hvernig þetta er skilgreint í grg. sem fylgdi með frv. til laga 1990 en hæstv. ráðherra nefndi það ekki.