Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 12:18:56 (2576)

1998-12-18 12:18:56# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[12:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ef ég hef tekið rétt eftir er hér á dagskrá stjórnarfrv. á þskj. 443, flutt af hæstv. sjútvrh. Ég hef hugsað mér að ræða í aðalatriðum um þetta stjórnarfrv., þ.e. um dagskrármálið. Ég verð að segja alveg eins og er að ég gef heldur lítið fyrir málflutning bæði síðasta hv. ræðumanns og þann hlutann af ræðu hæstv. sjútvrh. sem laut að skömmum um tillögur eða ekki tillögur annarra.

Ég hefði haldið að hæstv. sjútvrh. hefði farið betur að nota ræðutíma sinn --- og ekki veitt af --- til að reyna að rökstyðja það að það frv. standist sem hér er lagt fram af hæstv. ríkisstjórn, að það gangi upp og að það nái þeim tilgangi að samræma löggjöfina dómi Hæstaréttar. Ekki hefði veitt af, herra forseti, að mínu mati, nokkuð öflugum rökstuðningi og vel fluttum til að byggja upp þær málsástæður stjórnvalda að sú lausn héldi sem hér væri verið að boða. Ég held að a.m.k. sá hluti ræðu hæstv. ráðherra sem fór í hefðbundið skítkast og karp --- án þess að það sé hlutverk mitt sérstaklega að verja þá sem urðu aðallega fyrir því. Þeir eiga að geta gert það sjálfir eða eru vonandi færir um það --- þá vil ég segja þetta almennt um málflutninginn hér, herra forseti, vegna þess að hér er á ferðinni alvörumál, að það er ekki sæmandi mönnum sem ætla að láta taka mark á sér í umræðunni að leggjast ofan í strákslegt karp. Mér fannst satt best að segja, herra forseti, og ég vil segja það í fullri hreinskilni, framganga formanns sjútvn. ekki rismikil að stórum hluta til í ræðu hans áðan.

Herra forseti. Ekki fer hjá því að dómur Hæstaréttar frá 3. des. sl. sætti miklum tíðindum. Ég vil segja að tvennt er mjög dapurlegt við það að til þess dóms skyldi þurfa að koma. Í fyrra lagi er það auðvitað áfall, það er niðurlæging fyrir löggjafann og fyrir stjórnvöld að Hæstiréttur skuli dæma ákveðin ákvæði laga brjóta í bága við stjórnarskrána. Það er áfall. Það er mikil niðurlæging fyrir alla sem þar bera ábyrgð. Sjútvrn., þeir sem hafa verið lögfræðilegir ráðgjafar á þeim bæ, ráðherrar sem hafa farið með framkvæmd þessara mála og þingmenn sem hafa tekið þátt í því að afgreiða þessa hluti eins og þeir eru, verða allir að líta í eiginn barm og axla sinn hluta ábyrgðarinnar. Það er þannig.

Herra forseti. Hitt finnst mér ekki síður dapurlegt að það skyldi þurfa þennan dóm Hæstaréttar til að fá aftur á dagskrá umræður um lagfæringar á þessu kerfi. Það er líka dapurlegt. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að mér finnst þeir sem hafa barist fyrir óbreyttu kvótakerfi, þverskallast við öllum hugmyndum um lagfæringar á því á undanförnum árum, geta sjálfum sér um kennt. Þeir geta það. Og maður verður að segja það alveg eins og er að þeim var nær að ljá ekki máls á neinum lagfæringum á þessu kerfi sem mikil óánægja hefur verið um. Ýmislegt er því samfara sem ekki er gott og það er í raun og veru til skammar að menn skuli hafa látið það viðgangast árum saman án þess að bregðast við.

Sumir hafa kvartað yfir því, herra forseti, að dómur Hæstaréttar sé ekki skýr. Ég er ekki endilega sammála því. En ég get tekið undir hitt að ég hefði gjarnan viljað sjá dóminn ítarlegar reifaðan. Þó maður marglesi þennan dóm --- og það er út af fyrir sig ekki lengi gert því að af slíku stórmáli að vera er athyglisvert að reifun dómsins er ekki lengri en svo að hún kemst fyrir á einni síðu í Morgunblaðinu, og er þó þar inni í stór mynd af Hæstarétti, eins og þetta var birt í Morgunblaðinu 4. des. Ég hefði gjarnan sem leikmaður í þessum málum, og hafandi þó komið talsvert nálægt þeim á undanförnum árum, viljað sjá ítarlegri reifun Hæstaréttar þannig að glöggar væri hægt að átta sig á því hvert Hæstiréttur er að fara, ekki bara í dómsorðinu sjálfu hvað varðar þá niðurstöðu að fella synjun ráðuneytisins úr gildi heldur í reifun sinni varðandi hið almenna samhengi málsins. Þar verður maður að reyna að geta í eyðurnar. Þó að niðurstaða dómsins sé skýr og hann sé skýr í þeim skilningi hefði verið æskilegt að mínu mati að sú reifun hefði verið skýrari úr því að Hæstiréttur fór út í umfjöllun um þessi grundvallaratriði fiskveiðistjórnarlöggjafarinnar.

Mér finnst, herra forseti, viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar fljótfærnisleg. Ég hefði talið að betra hefði verið að taka þess vegna jafnvel einhverjar vikur í viðbót til að fara rækilega yfir málið og koma með betur búið frv. til þings. Menn geta að sjálfsögðu sagt að Alþingi taki þá við og vinni vinnuna. En ég held að strax í byrjun hefði verið æskilegra að rækilegar hefði verið farið yfir málið.

Herra forseti. Ég efast um að þessi tillaga að frumvarpi, að breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða, haldi. Ég efast um það. Ég hef miklar efasemdir um, út frá hinni almennu reifun Hæstaréttar, að þetta verði talin fullnægjandi lausn. Það er nokkuð borðleggjandi að það verða áframhaldandi málaferli. En það er ekki afsökun fyrir því að vera á tæpu vaði með þá breytingu sem hér er lögð til því menn hljóta að ætla sér að ganga þannig frá málunum að þau málaferli tapist ekki, eða hvað? Jú, það hlýtur að vera æskilegt að fá botn í málið sem heldur þegar út í málaferlin er komið sem sjálfsagt verða.

Þar hefði ég talið a.m.k. eitt atriði til viðbótar því sem hér er lagt til í frv. algjört úrslitaatriði og það er að lögin yrðu gerð tímabundin, að sett yrði afdráttarlaust sólarlagsákvæði í lögin og þar með yrði Hæstiréttur í raun og veru tekinn á orðinu ef svo má að orði komast vegna þess að Hæstiréttur segir á einum stað í umfjöllun sinni, með leyfi forseta:

,,Þótt tímabundnar aðgerðir af þessu tagi`` --- og er þá verið að vísa til takmarkananna --- ,,til varnar hruni fiskstofna kunni að hafa verið réttlætanlegar, en um það er ekki dæmt í málinu, verður ekki séð, að rökbundin nauðsyn hnígi til þess að lögbinda um ókomna tíð`` --- um ókomna tíð --- ,,þá mismunun, sem leiðir af reglu 5. gr. laga ...`` o.s.frv.

Mér finnst með öðrum orðum Hæstiréttur segja, a.m.k. gefa í skyn væntingar um þá túlkun sína að sem tímabundin löggjöf hefði þetta staðist og þá bæði veiðileyfin og aflahlutdeildarkerfið. Væri þá ekki hyggilegt, herra forseti, ef menn vilja hafa vaðið fyrir neðan sig, vera öruggir á meðan, þó ekki væri nema til að fá tíma til að skoða málin betur, að setja þarna inn sólarlagsákvæði, að láta lögin gilda til 2002 eða 2003 eða hvað sem valið væri í þeim efnum?

Menn kunna að segja að það sé ekki æskilegt, það skapi óvissu og þá værum við komin í sama farið og var fyrir 1990. En ég segi: Það er miklu betra en að taka bullandi áhættu af því að allt saman verði dæmt ofan í hausinn á mönnum.

Herra forseti. Ég varð því satt best að segja mjög undrandi þegar ég sá þetta frv. og sá að menn höfðu ekki valið þá leið að setja þarna inn afdráttarlaust sólarlagsákvæði. Menn kunna að vísa í endurskoðunarákvæði eða umfjöllun um það að lögin skuli endurskoða en það er að sjálfsögðu ekki það sama og ef um ótvírætt sólarlagsákvæði væri að ræða. Ég vísa þar til ákvæðis til bráðabirgða IV sem fylgir hér með frv.

Herra forseti. Annað veldur mér nokkru hugarangri þegar ég skoða þetta frv. hæstv. ríkisstjórnar og velti því fyrir mér hvort það sé fullnægjandi lausn frá lagalegu sjónarmiði séð. Ég er þá ekki að ræða um efni málsins, hvort þetta sé efnislega sú niðurstaða í málinu sem ég sé sáttur við. Það er ekki svo. Ég er fyrst og fremst að skoða og velta fyrir mér hinni lögformlegu eða lagalegu hlið. Og það er, herra forseti, að þegar búið er að fella út í rauninni öll núgildandi ákvæði 5. gr. og síðan hina margrómuðu og löngu 6. gr. sem er einhver lengsta lagagrein í safninu --- hún tekur eina og hálfa bls., þ.e. hin samansúrraða grein um veiðiheimildir smábáta sem er einhver hroðalegasta smíð sem lengi hefur sést í lagatexta og ég held að ekki margir botni í henni til fulls --- þá stendur það eftir, herra forseti, sem ramminn um þessa takmörkun sem áfram á þá að vera samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar, þ.e. aflahlutdeildarkerfið, að í 4. gr. stendur að enginn megi stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hafa fengið til þess leyfi. Þau ákvæði halda sér óbreytt í 4. gr.

Fimmta greinin sem hér er lögð til samkvæmt frv. fjallar aftur um veitingu veiðileyfa í atvinnuskyni. Ljóst er að samkvæmt þessu geta nú öll skip sem fullnægja skráningarreglum og eru með íslensku eignarhaldi þannig að þau brjóti ekki í bága við fjárfestingar útlendinga fengið slík veiðileyfi. Takmörkunin á að vera aflamarkskerfið eitt. Hvar er það þá, herra forseti, í lögunum? Jú, það er í 7. gr. Þar segir --- og ekki eru lagðar hér til breytingar á því --- í 2. mgr., með leyfi forseta:

[12:30]

,,Veiðiheimildum á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af, skal úthlutað til einstakra skipa. Skal hverju skipi úthlutað tiltekinni hlutdeild af leyfðum heildarafla tegundarinnar. Nefnist það aflahlutdeild skips og helst hún óbreytt milli ára, sbr. þó 4. málsl. þessarar málsgreinar.``

,,Skal hverju skipi úthlutað tiltekinni hlutdeild ...`` --- það er grunnurinn. Ég velti því fyrir mér: Hangir ekki þessi 7. gr. laganna um stjórn fiskveiða í lausu lofti? Til hvers vísar hún eins og nú er í pottinn búið? Er alveg á hreinu að ekki þurfi að koma inn einhver viðmiðun, einhver skýring? Eða er þetta einhver sjálfsagður hlutur, einhver ,,selvfølgelighed``, sem þarf ekki að standa í lögum, að sú útdreifing aflahlutdeildanna skuli vera sem er í dag sem myndi grunninn? Ég spyr. Ég hef ekki svörin. Ég er ekki sannfærður um að þetta gangi ekki upp en ég hef efasemdir um að það geri það og ég hef miklar efasemdir um að frv. eins og það liggur fyrir nái þannig utan um þetta mál að ekki séu líkur á því að mál tapist sem höfðað verður í kjölfarið. Hvar eru menn þá staddir? Þá eru menn með hlutina í algjörri og endanlegri upplausn.

Herra forseti. Það sem mér finnst vanta inn í alla umræðuna er að burt séð frá þessu frv. hæstv. ríkisstjórnar --- og þó að það verði lögfest --- þá stendur það verkefni upp á stjórnmálamenn, upp á Alþingi og stjórnvöld að reyna að finna efnislega lausn og niðurstöðu í þessu máli sem einhver friður er um og sem við getum búið ásættanlega við til frambúðar. Ég tel það ekki vera í boði. Ég tel algjörlega óviðunandi niðurstöðu að ætla, þrátt fyrir þennan dóm og þá miklu og megnu óánægju sem er með vissa vankanta á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, að keyra það áfram óbreytt. En það er það sem lagt er til, að keyra það áfram óbreytt að öðru leyti en því að úreldingartakmörkuninni er hent, því það er það sem felst í frv.

Herra forseti. Þeir hlutir sem eru að gerast og eru í gangi í þessu kerfi eru ískyggileg þróun og ég held að menn verði að taka á. Ég á þar t.d. við hluti eins og samþjöppun veiðiheimildanna, ég á við það hvernig gengur á bátaflotann. Ég á við það, herra forseti, hvernig staða fiskvinnslunnar í landi er að hrynja þannig að eftir standa aðeins fáein fyrirtæki með einhverja umtalsverða verkun, frystingu á hefðbundnum forsendum, síðan saltfiskverkun og tvö, þrjú stór fyrirtæki sem eru að reyna að koma undir sig fótunum í frekari fullvinnslu eða úrvinnslu afurðanna og allt gott um það. En að öðru leyti er fiskvinnslan, hefðbundin bolfiskvinnsla í landinu meira og minna hrunin. Hún er m.a. hrunin vegna þess að samkeppnisskilyrði hennar við vinnslu á sjó eru ósanngjörn og hún er m.a. hrunin vegna þess að sífellt berst minna og minna hráefni að landi, ferskt hráefni til slíkrar vinnslu. Ég held það sé ekki bara alvörumál og vont hvað varðar vinnuþáttinn og stöðu byggðanna heldur er þetta líka stórhættuleg þróun til framtíðar litið fyrir íslenskan sjávarútveg.

Ég hefði þess vegna, herra forseti, viljað sjá breytingar um leið og menn væru að bregðast við þessum dómi sem tækju t.d. á því hvernig gengið hefur á bátaútgerðina, og þá er ég einkum og sér í lagi að tala um hefðbundna dagróðrabátaútgerð í millistærðarflokkum, sem er nánast að hverfa, og með því að styrkja þann útgerðarþátt á nýjan leik, t.d. með því að láta hann vera sjálfstætt og aðskilið lag í fiskveiðistjórnarkerfinu. Stundum er talað um girðingar í þessum efnum og hér á að setja girðingu ofan við 6 tonna hópinn þannig að hann geti ekki selt veiðiheimildir upp fyrir sig, og það er gott. En því ekki aðra girðingu við kannski 75 eða 100 tonn þannig að menn reyndu a.m.k. að bjarga því sem eftir er af bátaflota í millistærð? Ég hefði gjarnan, herra forseti, talið að þar hefði mátt vera um að ræða einstefnuloka eins og er í færeyska kerfinu, sem þýða að minni bátar geta keypt til sín veiðiheimildir af stærri skipum en ekki öfugt --- ef menn vildu með beinum, pósitífum hætti styrkja þennan útgerðarþátt á nýjan leik, og á því er mikil þörf. Um leið, herra forseti, kæmu menn til móts við byggðarlögin sem hafa byggt allt sitt á slíkri útgerð þó að einhver útgerð stærri skipa hafi þar verið í bland.

Ég tel, herra forseti, algjörlega óþolandi annað en að menn taki með einhverjum hætti á þeim ofsagróða sem tilteknir aðilar hafa verið að hirða með sér út úr sjávarútveginum þegar þeir selja öðrum sem eftir standa þar réttindi sín. Enginn friður er um það ástand og það á ekki að vera það. Vegna þess að það sem við eigum að vera að fjalla um er fiskveiðistjórnarkerfið og lög til að takmarka ásókn í fiskstofna en ekki einhver gróðamyndunarmaskína fyrir einstaka útgerðarmenn. Einn ljótasti gallinn á þessu kerfi eins og það hefur verið, fyrir utan leigubraskið, er að menn skuli geta hirt þessi verðmæti með sér þegar þeir fara út úr greininni eins og þetta hefur verið. Á þessu þarf að taka og það er hægt að taka á því, jafnvel þó menn vilji áfram hafa framsal veiðiheimilda. Það er hægt að gera með skattalegum aðferðum, það vantar bara viljann, herra forseti.

Margt fleira af þessu tagi, herra forseti, vildi ég gjarnan nefna en tími leyfir ekki að fara ítarlegar út í það hér. Ég vil aðeins segja aftur að mér þykir langlíklegast og í fljótu bragði sé ekki annað til ráða en að það sem gert verði nú verði tímabundin ráðstöfun. Þess vegna ítreka ég að ég held að sólarlagsákvæði séu nauðsynleg inn í þessi lög í öllu tilliti, hversu vel sem menn vanda sig við að breyta þeim og bregðast við dómnum og líka til að undirstrika að menn ætla sér að skoða málið rækilega og reyna að finna þarna betri lausnir.

Það er ekki einfalt. Ég viðurkenni að í kjölfar dóms Hæstaréttar sem dæmir veiðleyfatakmörkunina ógilda, ég tala ekki um ósköpin ef aflareynslan sem viðmiðun fyrir aflahlutdeildarkerfið yrði líka dæmt ógild, er ekki einfalt mál að finna þær lausnir sem séð verður að gangi upp í þessum efnum ef menn vilja, eins og ég vil, taka tillit til réttarstöðu fólksins sem starfar í sjávarútvegi og býr í sjávarútvegsbyggðunum. Ég held, herra forseti, að nauðsynlegt sé að fá þá hlið mála inn í umræðuna. Ég held að Hæstiréttur þurfi líka að skoða málið frá þeirri hlið: Hvað með atvinnuréttindi og stöðu þess fólks sem í verkaskiptu þjóðfélagi hefur haft þetta að ævistarfi sínu? Á það þá engan rétt? Er jafnræðisreglan æðri þeim rétti sem þetta fólk hefur, sjómenn, fiskverkafólk, íbúar sjávarútvegsbyggðarlaganna hringinn í kringum landið? Eru þá komnar upp þversagnir eða þverstæður og hver á þá að glíma við þær? Verður Hæstiréttur ekki a.m.k. að fara yfir það mál eins og önnur í þessu samhengi?

Að lokum, herra forseti. Skoðun mín er sú að það sé algjörlega óhjákvæmilegt að Alþingi taki sér nokkuð rúman tíma í að vinna þetta mál. Það er ekki boðlegt að ætla að drífa það af til afgreiðslu á fáeinum vikum, ef það stendur til. Mér er ljós vandi sjútvrn. með öll bréf sín sem þarf að svara og allt það. En það má ekki gera vont verra með því að kasta til höndunum við þetta mál og kosti það það sem kosta vill, einhverjar vikur eða mánuði eiga menn að taka sér þann tíma.