Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 12:39:31 (2577)

1998-12-18 12:39:31# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[12:39]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja að gefnu því tilefni sem kom fram í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. að þetta frv. er ekki heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni, því er ekki ætlað að vera það. Það er fyrst og fremst viðbrögð við tiltekinni niðurstöðu Hæstaréttar og nauðsynleg breyting á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni vegna dóms Hæstaréttar.

Auðvitað heldur umræða um sjávarútvegsmál áfram. Í sérstakri nefnd, sem allir flokkar þingsins komu sér saman um að setja á fót sl. sumar, er í gangi umfjöllun um hvort sættir geti skapast á þeim grundvelli sem ákveðinn var með þeirri nefnd. Ég held því að mjög mikilvægt sé í þessari umræðu að menn geri sér grein fyrir því að við verðum að bregðast strax við dómi Hæstaréttar, en önnur umfjöllun hlýtur að halda áfram. Ég hef bundið vonir við þann sátta\-farveg sem sú umræða var komin í eftir að allir flokkar á þingi bundust samtökum um það hér sl. vor að gera það með tilteknum hætti.

Síðan vil ég undirstrika það sem kom fram, ef ég hef skilið hv. 4. þm. Norðurl. e. rétt, að hann kemur með allt aðrar áherslur í málflutningi sínum en talsmenn samfylkingarinnar. Ef ég hef skilið hann rétt telur hann réttilega að þeir sem hafa verið hefðbundið að vinna í sjávarútveginum eigi lögvarin atvinnuréttindi til að halda því áfram. En hinn stóri pólitíski ágreiningur snýst um það hvort verja eigi þetta réttlætissjónarmið eða hvort fara eigi í öfgarnar og segja: Það verður að taka allan þennan veiðirétt og koma honum með einhverjum öðrum hætti út til fólks eða fyrirtækja sem hafa ekki tengst sjávarútvegi eða skapað sér þar hefðbundin atvinnuréttindi.

Ég vona að ég hafi skilið hv. þm. rétt og ef svo er þá fagna ég þeirri hugsun sem fram kemur í máli hans vegna þess að hún gengur alveg þvert á það sem samfylkingin hefur verið að boða sem ég ítreka að mundi að mínu mati leiða mjög alvarlega kreppu yfir sjávarplássin í landinu.