Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 12:44:09 (2579)

1998-12-18 12:44:09# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[12:44]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að þarna komist hv. þm. einmitt að kjarna málsins. Ekki er hægt að gera hvort tveggja í senn, að verja réttindi þeirra sem hafa unnið hefðbundið í sjávarútvegi og róið til fiskjar og hins vegar að segja: réttur allra fyrirtækja og allra landsmanna til fiskveiða er jafn. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu þá verður að taka veiðiréttinn af þeim sem hafa verið að stunda fiskveiðar með hefðbundnum hætti um langan tíma. Þarna er því um ósamrýmanleg sjónarmið að ræða og þess vegna afskaplega mikilvægt að það komi skýrt fram eftir hvaða meginlínum menn eru að hugsa og fjalla um þessi mál. Ég geri engar athugasemdir við þau sjónarmið sem hv. hefur sett hér fram. Mér finnst þau vera skýr en er einmitt að vekja athygli á því vegna þess að mér hefur fundist í umræðunni að þessi sjónarmið væru ekki nógu skýr og menn vilji kannski bæði koma fram segjandi að allir eigi sinn rétt en það eigi líka að verja rétt þeirra sem fyrir eru, þ.e. menn vilja bæði éta kökuna og eiga hana. En það er hlutur sem gengur ekki upp og ég held að það hafi komið mjög skýrt fram í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e.