Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 12:48:20 (2581)

1998-12-18 12:48:20# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[12:48]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér er komið til umræðu frv. ríkisstjórnarinnar um breyting á lögum um stjórn fiskveiða, sem er viðbragð ríkisstjórnarinnar við dómi Hæstaréttar, nr. 145 frá 1998, Valdimar Jóhannesson gegn íslenska ríkinu.

Þessi dómur Hæstaréttar hefur að sjálfsögðu vakið mjög mikla athygli, en þar segir skýrum stöfum að lögin um stjórn fiskveiða, a.m.k. 5. gr. þeirra, stríði gegn stjórnarskránni og verði því að breyta. Um er að ræða 65. gr. stjórnarskrárinnar, um jafnræði þegnanna, þ.e. að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum, og 75. gr. stjórnarskrárinnar, um atvinnufrelsi, þar sem fram kemur að allir megi stunda þá vinnu sem þeir kjósa, en þó megi skerða þau réttindi með lögum ef almannahagsmunir krefjast. Samkvæmt þessum tveimur greinum má ekki samkvæmt dómi Hæstaréttar lögbinda um ókomna tíð að veiðileyfi skuli takmörkuð við skip sem voru við veiðar samkvæmt ákveðnum reglum árið 1988.

Það var í fyrsta skipti árið 1990 sem þessi grein var gerð varanleg, eða nokkru áður en jafnræðisreglan var fest í stjórnarskrána, og finnst mér það vera nokkur málsbót fyrir löggjafann. En ég hef bent á það fyrr í umræðu um þetta mál að sú málsbót á ekki við um lögin um veiðar utan lögsögu. Í þeim lögum sem voru samþykkt árið 1996 var í raun verið að færa sérhagsmunakerfi fiskveiðistjórnarlaganna út yfir öll heimsins höf. Þrátt fyrir mjög mikil andmæli, m.a. frá þeirri sem hér stendur, þá var þetta sérhagsmunakerfi fiskveiðistjórnarlaganna fest í sessi einnig í 5. og 6. gr. úthafsveiðilaganna. Því vil ég nota tækifærið nú og spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann sé þeirrar skoðunar að dómur Hæstaréttar breyti einhverju fyrir úthafsveiðilögin, hvort 5. og 6. gr. þeirra laga séu í sama uppnámi og 5. og hugsanlega 6. gr. fiskveiðistjórnarlaganna.

Annað sem vekur athygli í dómi Hæstaréttar er að rétturinn áréttar mikilvægi 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, að nytjastofnarnir á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar og að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki óafturkallanlegt forræði yfir veiðiheimildum. Þessi árétting er mjög mikilvæg í ljósi þess áróðurs sem stöðugt er borinn fyrir landsmenn, bæði af LÍÚ og nú síðast frá nýafstaðinni ráðstefnu sem sjútvrh. og fleiri stóðu að. Og gott ef ég heyrði ekki ákveðna ráðherra einnig fjalla um það í útvarpi um daginn að það sé stórt álitamál hvort þurfi að greiða útvegsmönnum bætur ef til breytingar á kerfinu kemur. Sú umræða er búin að vera hangandi hér yfir, bæði þegar rætt var um veð á aflaheimildum, úthafsveiðilögin og fleira, og ég tel að dómur Hæstaréttar sé mjög skýr að þessu leyti og í samræmi við vilja löggjafans í gegnum tíðina, að veiðiheimildirnar eru sameign þjóðarinnar. Það var mjög athyglisvert að heyra Sigurð Líndal prófessor efast um þetta um daginn, en ég hef áður gert það að umtalsefni þegar ég hef rætt um það að lögfesta þetta ákvæði um sameign þjóðarinnar inn í stjórnarskrána, að þar hafa sumir lögfræðingar talað um að rétt væri að nefna það ,,ríkið`` en ekki ,,þjóðina``. Ég tel að þar sé veruleg áherslubreyting á, en ég mun taka þá umræðu nánar nú fljótlega þegar sú stjórnarskrártillaga kemst hér á dagskrá, en ég ætla ekki að eyða tíma mínum í það nú.

Að mínu mati er dómur Hæstaréttar tímamótadómur og undirstrikar eðlilegt sjálfstæði Hæstaréttar, sem margir hafa dregið í efa á undanförnum árum. Þessi dómur er að mínu mati sigur réttlætisins, sigur dómskerfisins og veruleg áminning til löggjafans. Það er ekki eðlilegt að þingið standi í hagsmunagæslu sem stríðir gegn grundvallarreglum stjórnarskrárinnar. Það hefur því miður verið reyndin allt frá því árið 1983 þegar fyrstu lögin um kvótakerfið voru samþykkt. Dómurinn er að mínu mati skýr og krafa um að tekið verði á þeirri gífurlegu ólgu og óánægju sem ríkir í þjóðfélaginu vegna laganna um stjórn fiskveiða. Sú krafa hefur verið uppi á borðinu í langan tíma en sjaldan eins og eftir 1990, þegar framsal á aflaheimildum var heimilað og veiðleyfi fest varanlega við skip sem voru við veiðar 1988 samkvæmt ákveðnum reglum.

Því hafa viðbrögð stjórnvalda við þessum hæstaréttardómi verið að mínu mati alveg með eindæmum og til háborinnar skammar, og þar vil ég nefna einkum þrennt. Í fyrsta lagi hefur Hæstiréttur verið gagnrýndur fyrir að ruglast á hugtökum. Ég held að það sé alveg skýrt hvernig dómurinn skilgreinir bæði aflahlutdeild og aflaheimildir. Í öðru lagi hefur verið reynt að gera lítið úr þessum dómi vegna þess að dómarar voru fimm en ekki sjö. Meira að segja hefur Hæstiréttur sjálfur séð sig knúinn til að andmæla þessu, sem er mjög sjaldgæft. Og í þriðja lagi, og síðast en ekki síst, hefur það sjónarmið heyrst að ef þessi dómur stangist á við stjórnarskrána þá sé nú bara rétt að breyta stjórnarskránni. Þvílíkur hroki! Þessi viðbrögð eru alveg með eindæmum. Um er að ræða æðsta dómstól þjóðarinnar og það er bara látið eins og nú verði valdhafarnir góðu, sem eru alltaf að passa sérhagsmunina, að ganga skrefi lengra og breyta stjórnarskránni.

Þau frumvörp sem hér eru til umræðu eru til þess eins fallin að breyta eins litlu og mögulegt er til að lögin standist stjórnarskrána, miðað við mjög þröngan skilning á umræddum dómi. Það þarf alveg greinilega að breyta 5. gr. En að mati stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar, eiga hin raunverulegu verðmæti, aflaheimildirnar, áfram að vera bundnar við sérhagsmunahópana sem fengu upphaflegu heimildirnar og fá þær nú, þ.e. þeir eiga áfram að fá þær á silfurfati og geta selt þær eða leigt að vild til hinna sem hugsanlega fá veiðileyfi samkvæmt 1. gr. og eiga haffær skip.

Þetta óréttlæti verður ekki þolað miklu lengur og því er það að mínu mati eingöngu spurning hvor verður á undan, löggjafinn að koma með réttláta löggjöf og að stjórnmálaflokkarnir t.d. bjóði upp á skýra valkosti fyrir næstu kosningar --- eða það komi aftur í hlut Hæstaréttar með nýjum dómi að úrskurða að úthlutun aflaheimilda til sérhagsmunaaðila, þ.e. að 6. og 7. gr. fiskveiðistjórnarlaganna standist ekki heldur umrædd stjórnarskrárákvæði.

Herra forseti. Hin raunverulegu átök um þetta kerfi munu vara áfram á meðan gjafakvótinn fer til sömu aðila og nú, vandinn verður áfram til staðar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir sem fá veiðileyfi samkvæmt 5. gr. nú, þ.e. allar þessar umsóknir sem núna hlaðast upp í sjútvrn., þeir sem væntanlega ætla að kaupa sér haffær skip, koma inn í þetta kerfi. Samkvæmt hugmyndum ríkisstjórnarinnar virðast þeir annaðhvort eiga að kaupa eða leigja sér kvóta frá greifunum, sem fá þá gefins, eða að þeir eiga að fara og veiða þær fisktegundir sem ekki eru kvótabundnar.

Með því að breyta veiðiframkvæmdinni þannig að allir krókabátar þurfi að fara á þorskaflahámark er enn verið að þrengja að þeim hópi undir yfirskyni verndar og ég held að það sé alveg ljóst að sú ráðstöfun er mjög umdeild. Um þá leið sem hér er lögð til er engin sátt, hvorki meðal smábátamanna --- eða bara innan Sjálfstfl. eins og þegar hefur komið fram --- né almennt hér í þinginu og því er alveg ljóst að þessa breytingu þarf að ígrunda mun betur en hér er lagt til. Ég tel að það hafi í raun og veru ekki verið nauðsynlegt. Samkvæmt frv. á ekki að breyta þessu kerfi fyrr en næsta haust og fram að þeim tíma er nægur tími og alþingiskosningar. Og það hefði verið nær að láta þetta vera óbreytt fram yfir þær.

[13:00]

Herra forseti. Ég tel að allir séu sammála um að dómur Hæstaréttar er ekki dómur yfir kvótakerfinu sem slíku, heldur um framkvæmd þess og yfir tilteknum lagagreinum, þ.e. um úthlutun á veiðiheimildum, a.m.k. veiðileyfum --- það er sem sagt ólögmætt --- og hugsanlega aflaheimildum. Það er ekki alveg eins skýrt með það hvort þær standast ákvæði stjórnarskrár, en ég tel að andi dómsins sé sá að það sé bara tímaspursmál hvenær næsta sprengja fellur, hvort sem það verður með nýrri löggjöf eða nýjum dómi.

Herra forseti. Ég get alveg skilið að ríkisstjórnin bregðist svona við nú. Það er eiginlega ekki hægt að búast við því að ríkisstjórnin stokki upp kerfið á einni nóttu og því er hægt að virða þeim til vorkunnar að þetta fyrsta skref skuli vera eins lítið og hægt er. En ég tel að þær breytingar sem lagðar eru til á kerfi smábátamanna séu alls ekki jafnknýjandi enda gert ráð fyrir óbreyttu ástandi fram á næsta haust. Það þarf að leita mun víðtækari sáttar um þær breytingar og ég tel að í raun eigi þær breytingar að vera hluti af breytingu kerfisins í heild. Það kemur t.d. að mínu mati vel til greina að hafa veiðar smábáta frjálsar innan við t.d. 30 mílur eða eitthvað slíkt. Þetta þarf að skoðast í heild við endurskoðun á kerfinu því að þetta kerfi stenst ekki.

En hvernig á þá að fara í þessa endurskoðun til langs tíma? Margir hafa í þessari umræðu nefnt svokallaða auðlindanefnd sem komið var á laggirnar sl. vor samkvæmt tillögu Alþb. og sem stjórnarflokkarnir samþykktu. Tilgangur þessarar auðlindanefndar er að reyna að ná sátt um breytingar, einkum í tengslum við auðlindagjald í víðri merkingu. Ég tel að þarna sé verið að reyna að finna einhverja sátt sem núverandi ríkisstjórn getur sætt sig við og sem LÍÚ getur sætt sig við.

Við kvennalistakonur höfnuðum þátttöku í þessari nefnd í vor. Hvers vegna? Jú, fyrst og fremst vegna þess að að henni er ekki nægilega faglega staðið. Þarna á bara enn einu sinni að fá nokkra hagsmunaaðila til þess að krukka í kerfið og reyna að fá út einhverja lausn sem bjargar stjórnarflokkunum í gegnum næstu kosningar án þess að nokkuð gerist sem máli skiptir. Að stjórnmálaflokkarnir með alla hagsmunaaðila á bakinu nái sátt gerist ekki nema til komi einhver útvötnuð málamiðlun í ætt við úthafsveiðilögin. Þar átti líka að reyna að ná sátt en á síðustu stundu sprakk auðvitað sú nefnd sem samdi frv. til úthafsveiðilaga og ofan á varð sams konar sérhagsmunakerfi. Núverandi lög um fiskveiðistjórn voru færð út yfir öll heimsins höf.

Allt önnur leið var t.d. farin þegar norsku og kanadísku úthafsveiðilögin voru búin til. Þar var áhersla fyrst og fremst lögð á virkt eftirlit og frelsi til að afla sér veiðireynslu. Hér er það stöðugt sama áherslan aftur og aftur, sami útgerðaraðilinn eignast fyrst fiskveiðilögsöguna og síðan úthöfin. Nei, herra forseti, hér er um stærra mál að ræða en svo að hægt sé að búast við pólitískri málamiðlun við núverandi stjórnarflokka sem verja sérhagsmuni og gjafakvótann út í rauðan dauðann.

Í Morgunblaðinu í dag er kynnt nýleg skýrsla sem unnin var að beiðni Bandaríkjaþings og að mínu mati sýnir sú skýrsla hvernig það þing tekur faglegar á málum og viðhefur annars konar vinnubrögð en hér tíðkast. Í Bandaríkjunum eru mjög sterk lög um að auðlindir sjávar séu almenningseign, Common Property, hafalmenningar, og því hafa þau kvótakerfi sem þar hafa þróast verið mjög umdeild. Bandaríska þingið ákvað því að setja stopp á öll lög um kvótakerfi í ákveðinn tíma og láta fara fram yfirvegaða úttekt á áhrifum þeirra, réttmæti þeirra og að hvers konar framkvæmd á þeim samræmist stjórnarskrá og sé sem réttlátust fyrir alla aðila. Jafnvel í þjóðfélagi einkafrelsisins eru til sterk lög og hefð um sameiginlega eign á auðlindum, á almenningum.

En ef við lítum svo aftur til landa eins og Grænlands þá hef ég rætt þar við fólk sem segir að það væri óhugsandi á Grænlandi að kvótasetja allar fiskveiðar. Það er svo innbyggt í réttlætiskennd fólksins þar að það sé réttur fólksins sem býr við fiskimiðin að fá að róa til fiskjar. Hið sama á við á Nýja-Sjálandi þar sem komið var á kvótakerfi. En þar var frumbyggjum reyndar dæmdur verulegur hluti af veiðiheimildum vegna sinna veiða til margra alda, margra ára a.m.k. eða áratuga. Það var reyndar mjög athyglisvert að þeim voru dæmdar þessar veiðiheimildir og um leið var það notað sem réttlæting fyrir því að setja ekki á veiðigjald. Það var ekki hægt að setja veiðigjald á aumingja frumbyggjana sem fengu veiðiheimildir.

Ég tel að á Íslandi sé þetta einmitt ein skýringin á því að kvótakerfi getur aldrei, þ.e. eignarréttarkerfi það sem sjútvrn. og sumir hagfræðingar við Háskóla Ísalnds mæla með, og mun aldrei verða viðtekið á Íslandi. Það mun aldrei nást sátt um það því að fólki, hvort sem er á Vestfjörðum, Austfjörðum eða í byggðum landsins, finnst það eðlilegur og sjálfsagður réttur að fá að sækja sjóinn, að fá að nota fiskimiðin úti fyrir byggðum landsins.

Því tel ég, herra forseti, að við verðum við endurskoðun á kerfinu að virða þennan grundvallarrétt fólks að fá að sækja sjóinn og því eigum við m.a. að taka þau vinnubrögð sem ég hér áður nefndi okkur til fyrirmyndar. (Forseti hringir.) Ég mun ljúka máli mínu í seinni ræðu minni.