Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 13:11:57 (2584)

1998-12-18 13:11:57# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[13:11]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. hv. 19. þm. Reykv. hefur algerlega misskilið spurningu mína. Þingmaðurinn kemur hér upp og flytur mikla ræðu um sérhagsmunagæslu ríkisstjórnarinnar. Hún er ekki í þessu frv. í öðru fólgin en að slá skjaldborg um þessi veiðiréttindi, af því að 5. gr. kallar bara á tvennt, þ.e. að opna fyrir veiðileyfi og að meta hvort það á að gilda í kerfi smábátaveiðimanna óbreytt þannig að veiði þeirra minnkar eða hvort við eigum þar að reyna að einstaklingsbinda veiðiréttinn til þess að verja hann. Hv. þm. viðurkenndi að með því að hafa þetta opið þá mundi réttur hvers og eins minnka og enginn gæti haft af því lífsviðurværi.

En er það að mati hv. þm. gæsla sérhagsmuna að reyna að verja lífsafkomu þeirra sem hafa haft af þessu atvinnu um langan tíma með því að einstaklingsbinda veiðiréttindin? Er það gæsla sérhagsmuna? Eða telur hv. þm. að það eigi að virða svo rétt allra til að komast þarna inn að enginn af þeim sem haft hefur þetta að aðalstarfi og lífsviðurværi geti haft það lengur? Þarna verða menn bara að gera upp á milli hagsmuna, hvort allir, og þar á meðal prófessorarnir 105, eigi rétt á að fara inn í þessar veiðar og taka lífsviðurværið af smábátamönnunum, eða hvort það á að verja þá. Er það að mati hv. þm. gæsla sérhagsmuna? Um það stendur þessi deila og ekkert annað.

Ég óska ekki eftir endurtekinni útúrsnúningaræðu heldur skýrum svörum um þessa einföldu spurningu.