Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 13:18:07 (2589)

1998-12-18 13:18:07# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[13:18]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög athyglisvert. Ég gat ekki skilið hæstv. forsrh. öðruvísi en að hann væri þar með að segja að líklega gæti Grænland ekki lifað af sinni auðlind nema að allt væri þar gert að einkaeign. (Forsrh.: Grænland lifir ekki af sinni auðlind, Grænland lifir af styrkjum frá Danmörku.) Já, er það? (Sjútvrh.: ... Grænlendingar ... í kvóta.) Að minnsta kosti finnst mér þetta alls ekki trúverðug hugmynd og alveg ljóst að það mun ekki ganga í Íslendinga að nokkrir einkaaðilar eigi þessa auðlind. Það þarf held ég nokkrar aldir til þess að þau viðhorf geti breyst, það er mat mitt.

Hitt atriðið sem hæstv. ráðherra kom inn á var það hverjir geti mótað stefnuna. Ef stjórnmálaflokkarnir geti ekki komið sér saman um þetta hverjir geti það þá. Ég held að það væri mjög hollt og ég hef reyndar hugleitt að leggja fram tillögu um að Rannsóknarráði Íslands verði falið að gera svipaða úttekt á fiskveiðistjórnarkerfinu hér og gerð var í Bandaríkjunum. Ég held það væri mjög hollt fyrir okkur að fá slíka úttekt, og jafnvel að banna stjórnmálaflokkunum að koma nálægt henni (Gripið fram í.) og banna einnig öllum hagsmunaaðilum --- það er alveg nóg eins og þar var gert í þeim vinnubrögðum, að rætt var við hópa, hagsmunahópa, svokallaða ,,hearings``. Ég held að það væri mjög fróðlegt, jafnvel samhliða auðlindanefndinni, að fá aðra nefnd, faglega nefnd á vegum t.d. Rannsóknarráðs Íslands til þess að fá sama verkefni og bera saman. (Forsrh.: Á lögreglan að stjórna því banni að stjórnmálaflokkarnir skoði málið?) Stjórnmálaflokkarnir geta bara verið í sinni auðlindanefnd og reynt að finna sína pólitísku málamiðlun þar, sem alltaf hyglar sömu aðilunum. (Forsrh.: Á að banna þeim afskipti?) Ég hlusta ekki á svona frammíköll. Ef hæstv. forsrh. vill frekar koma hér í ræðu þá skal ég svara honum á eftir.