Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 13:22:21 (2591)

1998-12-18 13:22:21# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[13:22]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Já, ég sagði að dómurinn væri ekki dómur yfir kvótakerfinu sem slíku vegna þess að vel er hægt að hugsa sér kvótakerfi sem ekki stangast á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eða regluna um atvinnufrelsi. Það er það sem er meginvandinn samkvæmt dómnum og þá er spurningin hvernig við getum úthlutað kvótum þannig að þær reglur séu ekki sniðgengnar. Ég vil benda á t.d. þær hugmyndir sem nefndar eru í þessari bandarísku nefnd. Ég held að þær gætu vel staðist þar sem um er að ræða einhvers konar úthlutun til takmarkaðs tíma gegn gjaldi sem fari þá annaðhvort til ríkis eða sveitarfélags eftir því hver er handhafi heimildanna. Það er mjög mismunandi í Bandaríkjunum hvernig það er og það gæti einnig verið svo hér, það gætu verið byggðakvótar og að hluta til væri úthlutað frá ráðuneyti. Til dæmis mætti úthluta þeim til skamms tíma, segjum kannski fimm ár í senn eins og gert er m.a. í Nýja-Sjálandi þar sem menn verða að kaupa vissan hluta þessara heimilda árlega í viðbót því þær úreldast. Menn gætu þá keypt þær í viðbót. Þetta væri möguleiki vegna þess að miklu meira réttlæti er í því að allir geti komið inn og standi þá jafnir að vígi.

Að öðru leyti væri hægt að hafa mjög blandað kerfi sem gæti þá tryggt að þeir sem eiga bara litla báta og eru með allt annars konar aðstæður eða hafa ekki efni á að kaupa sér heimildir eða eitthvað í þeim dúr gætu notað aðra útfærslu. Ég held því að einhvers konar blandað kerfi geti vel samræmst stjórnarskránni, þessum gildandi góðu reglum, og hægt sé að finna aðferðir við að hafa kvótakerfi sem samræmist þessum reglum.