Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 13:24:30 (2592)

1998-12-18 13:24:30# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[13:24]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Nú fyrst fer málið að verða flókið. Ef við gerum þá einu breytingu að með úthlutun til sömu aðila áfram en bara gegn gjaldi, bætum því við, eru þá þeir sem fá aflaheimildirnar ekki lengur sérhagsmunahópar? Hv. þm. sagði skýrt og greinilega að ríkisstjórnin ætlaði sér að hafa hlutina þannig að veiðiheimildirnar eigi að vera bundnar við sérhagsmunahópana. Þingmaðurinn segir: Við skulum hafa þetta óbreytt og bæta því við að rukka þá dálítið meira en rukkað er í dag. Hætta þeir þá að vera sérhagsmunahópar?

Það er ekki heil brú í þessari röksemdafærslu. Þetta er algjörlega út í hött, herra forseti. Og þeir sem á síðasta kjörtímabili börðust fyrir því að koma á þróunarsjóðsgjaldinu, sem leiðir það af sér að hver útgerðarmaður er rukkaður fyrir þá veiðiheimild sem hann fær því það er ekkert ókeypis í dag, það er bara þannig, standa nú uppi með þá spurningu hvernig þeir eigi að rökstyðja þessar pólitísku áherslur sínar í ljósi dómsins þar sem úreldingin hefur verið gjörsamlega felld úr gildi.