Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 15:15:27 (2597)

1998-12-18 15:15:27# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[15:15]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það voru ekki orð mín hér að 7. gr. hefði verið felld úr gildi. Ég fór hins vegar með rök þeirra sem telja að leiða megi að því gildar líkur að svo gæti farið ef einhver sækti um veiðiheimild að dómur félli á sama veg og sá dómur sem féll gagnvart 5. gr. Þess vegna, herra forseti, hef ég verið í hópi þeirra sem telja að Alþingi eigi að endurskoða alla löggjöfina um stjórn fiskveiða.

Ég talaði heldur ekki um jafnan veiðirétt. En ég hef vísað í að stjórnarskráin gerir ráð fyrir ákveðinni jafræðisreglu og ég las upp úr dómi Hæstaréttar. Það er best að vitna beint í dóminn þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Með þessu lagaákvæði er lögð fyrirfarandi tálmun við því að drjúgur hluti landsmanna geti, að öðrum skilyrðum uppfylltum, notið sama atvinnuréttar í sjávarútvegi eða sambærilegrar hlutdeildar í þeirri sameign, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru.``

Herra forseti. Af því að hæstv. ráðherra vill heyra skoðanir mínar á því þá tel ég að við þá endurskoðun, sem ég tel að eigi að fara í á löggjöfinni um stjórn fiskveiða, eigi að skoða allar þær leiðir sem hæstv. ráðherra lagði áðan til og menn eigi að velta þeim fyrir sér, menn eigi að skoða þær og spyrja: Eru þetta leiðir sem gætu leitt til þess að við gætum mætt þeim kröfum sem Hæstiréttur gerir til löggjafans með þeim dómi sem hann hefur nú fellt gagnvart 5. gr. laganna um stjórn fiskveiða?