Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 15:20:40 (2600)

1998-12-18 15:20:40# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., GMS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Við Íslendingar höfum um árabil búið við fiskveiðistjórnarkerfi sem tekið hefur mið af því markmiði að auka hagsæld þjóðarinnar sem heildar. Afli á hverja sóknareiningu hefur stóraukist, kostnaður við veiðar hefur minnkað í kjölfar þess að aflamarkskerfið var innleitt í stað óheftrar sóknar í fiskstofnana sem ríkt hafði um aldir.

Þó vissulega megi finna dæmi um hluti sem betur mega fara verður því með engu móti andmælt að aflamarkskerfið hefur aukið hagsæld þjóðarinnar sem heildar. En nú stöndum við frammi fyrir hæstaréttardómi, sem mér liggur við að segja að byggi að nokkru leyti á tískusveiflu meðal þjóðarinnar. A.m.k. horfir þetta þannig við mér að með þessum hæstaréttardómi séu hagsmunir einstaklingsins teknir fram yfir hagsmuni þjóðarinnar, heildarhagsmuni þjóðarinnar. Þó að dómstólum beri að dæma á grundvelli laga þá getur túlkun lagatexta breyst með straumum í þjóðfélaginu. Ég hygg að ljóst sé að sú illa ígrundaða umræða sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu um kvótakerfið hafi haft áhrif á túlkun Hæstaréttar á lögum um stjórn fiskveiða.

Þeir stjórnmálamenn sem hafa haft sig mest í frammi í gagnrýni á aflamarkskerfið á undanförnum árum hafa að mínu mati ekki látið stjórnast af hagsmunum heildarinnar nema síður væri. Þeir hafa notað þetta mál, þetta fjöregg þjóðarinnar til þess að ala á óeiningu í þeirri von að slíkt skili þeim einhverjum atkvæðum í kosningum. Nú eru þeir að uppskera, ekki í atkvæðum heldur í aukinni óeiningu meðal þjóðarinnar. Slíkur leikur að fjöregginu er óábyrgur og gengur þvert á heildarhagsmuni Íslands og Íslendinga.

Ef við lítum á afleiðingar af þessum dómi Hæstaréttar sem við stöndum frammi fyrir er þar fyrst til að taka að samkvæmt öðru þeirra frv. sem við erum að ræða um eru veiðileyfi gefin algjörlega frjáls. Það sem ég sé sem stóra hættu við þessa leið, þó að hjá því verði ekki komist, er stóraukin fjölgun skipa inn í íslenska fiskiskipaflotann.

Hvaðan munu þessi viðbótarskip koma? Auðveldast, nærtækast og ódýrast er að kaupa gömul skip frá Rússlandi eða Eystrasaltsríkjunum, skip sem uppfylla á engan hátt þau skilyrði sem íslenskir útgerðarmenn hafa sett sér um tæknivæddan flota, flota sem býr vel að þeim sjómönnum sem starfa á þessum skipum. Þetta eru skip sem langt í frá uppfylla þau markmið sem við höfum sett okkur um það að draga úr losun óæskilegra efna út í andrúmsloftið. Ég sé ekki annað, ef þetta verður að lögum óbreytt, en að Ísland verði eina ríkið við Norður-Atlantshaf sem hefur ekki uppi aðgerðir til þess að minnka fiskiskipaflotann, draga úr vexti fiskiskipaflotans.

Það er kannski það eina jákvæða við það að ég sé ekki fram á það, ef þetta verður að lögum, að nokkur leið verði að ná saman við Evrópusambandið um fiskveiðistefnu því fiskveiðistefna Evrópusambandsins gengur fyrst og fremst út á að draga úr flotastærð. En með því sem við erum neydd til að gera eftir þennan dóm Hæstaréttar sýnist mér að algjörlega sé lokað fyrir það að við getum nokkurn tíma náð saman við Evrópusambandið og einhvern tíma hefði ég haldið að Alþfl. vildi annað en það.

Við stöndum líka frammi fyrir því að mengun mun stóraukast með stækkun fiskiskipaflotans. Við höfum átt erfitt með að uppfylla Kyoto-samninginn vegna þess hversu stór fiskiskipaflotinn er í dag. Hvernig eigum við að uppfylla hann á eftir? Ég spyr sjálfan mig: Eru einhverjar líkur á því að Kyoto-samningurinn, eins og hann liggur fyrir núna, muni standast Hæstarétt? Það þarf vissulega að kvótabinda hvað menn mega losa af óæskilegum efnum út í andrúmsloftið. Mun Hæstiréttur láta slíkar takmarkanir í friði?

Þá koma einnig upp í hugann atvinnuréttindi smábátasjómanna. Sá atvinnuréttur er settur núna í uppnám því að við vitum það að aðkoman er þar auðveldust fyrir nýja aðila í greininni.

Mér sýnist einnig að eftir þennan dóm Hæstaréttar sé hætta á stórfelldum skaðabótamálum. Úreldingarreglur hafa verið við lýði þar sem þeir sem hafa ætlað að stækka skip sín eða komið með ný skip inn í flotann hafa orðið að kaupa rúmmetra til úreldingar. Nú virðist sem reglur um úreldingu hafi byggst á stjórnvaldsaðgerðum sem Hæstiréttur túlkar sem svo að standist ekki stjórnarskrá. Afleiðingin er þá sú að veruleg verðrýrnun verður á flotanum sem fyrir er í landinu og grundvellinum þar með kippt undan smábátaútgerð í dagakerfinu þar sem það er alveg ljóst að það verður að öllu óbreyttu veruleg aukning í þeim flota því þar er ódýrt að komast inn í kerfið.

Ég beini því til sjútvn. að skoða hvort ekki sé rétt, til þess að reyna að stemma stigu við þessum óæskilegu áhrifum, að taka upp rúmmetragjald á ný veiðileyfi. Taka upp rúmmetragjald sem væri eitthvað í líkingu við það sem menn hafa verið að kaupa þegar þeir hafa verið að úrelda skip til að smíða ný, 50--80 þúsund kr. á rúmmetra í stærri skipum. Með þessu móti kæmum við í veg fyrir þessa stórfelldu og óþarfaaukningu skipastólsins sem mér skilst að stefni nú í eftir þennan dóm Hæstaréttar. Við komum líka í veg fyrir stórfellda eignaupptöku sem felst í lækkun á verðmæti þess fiskiskipaflota sem fyrir er í landinu og við komum með þessum hætti hugsanlega í veg fyrir málshöfðun á hendur ríkissjóði vegna fyrri kaupa útgerðarmanna á rúmmetrum til úreldingar.

Síðast en ekki síst yrði komið í veg fyrir stórfellda aukningu í losun útblásturs óæskilegra efna út í andrúmsloftið með því að stemma stigu við stækkun fiskiskipaflotans með þessum hætti.

En það eru fleiri atriði sem koma til umhugsunar sem afleiðing af dómi Hæstaréttar en aukningin í fiskiskipaflotanum. Atvinnuréttindi hvers konar sem byggst hafa á takmörkuðum aðgangi hljóta að koma til endurskoðunar eftir þennan dóm. Ótrúlegustu atvinnugreinar geta þar átt undir högg að sækja. Ég vil t.d. nefna leigubílaakstur. Það byggist á að takmarka fjölda þeirra sem þá atvinnugrein stunda og ég held að allir séu því sammála að ekki sé rétt að það sé óhindrað. En eftir þennan dóm sé ég ekki annað en að sú stétt verði í uppnámi.

Mér er hins vegar meira í hug atvinnuréttur þeirra sem sótt hafa sjó til þessa. Ef unnt er að túlka stjórnarskrána þannig að Hæstiréttur hafi með dómi sínum verið að standa vörð um frelsi manna til að velja sér atvinnu leyfi ég mér að spyrja á móti: Hafa þeir sem byggt hafa lífsviðurværi sitt á því að sækja sjó ekki einnig rétt á því að atvinnuréttindi þeirra séu vernduð? Verði ekki brugðist við þessum dómi er atvinnuréttur þeirra sem nú stunda sjósókn settur í algjört uppnám. Það eru smábátasjómenn sem fyrstir munu standa frammi fyrir þeirri ógn sem óheft sókn og takmarkalaus stækkun flota leiðir af sér.

Þá vil ég, herra forseti, leyfa mér að víkja máli mínu að hagsmunum smábátasjómanna. Mér er ljóst að ekki er hægt að gera neinum það að stunda atvinnurekstur á grundvelli þeirrar óvissu sem ríkt hefur hjá smábátasjómönnum undanfarin ár. Smábátaútgerð er mikilvægur hlekkur í atvinnulífi strandbyggða. Til að mynda lönduðu smábátar alls tæpum 7.500 tonnum af slægðum þorski á Vestfjörðum á síðasta fiskveiðiári. Þar af lönduðu þorskaflahámarksbátar um 4.500 tonnum en sóknardagabátar lönduðu 3.000 tonnum. Þetta er býsna mikið þegar horft er til þess að aflamarksskipin lönduðu um 14.000 tonnum á Vestfjörðum.

Einkum þrjú atriði í fyrirliggjandi frv. hleypa illu blóði í smábátasjómenn. Í fyrsta lagi eru margir smábátasjómenn þeirrar skoðunar að veiðar með handfærum eigi að vera frjálsar. Í ljósi þess hæstaréttardóms sem menn standa nú frammi fyrir virðist hins vegar næsta ljóst að ekki er unnt að leyfa mismunun sem felst í frjálsri sjósókn sumra á meðan flotinn að öðru leyti er settur á aflamark. Það er því ljóst í mínum huga að það er dómur Hæstaréttar sem er nú að afnema hið svokallaða sóknardagakerfi. Það sem er í frv. í þá veru er hrein afleiðing af þessum dómi Hæstaréttar og þeir sem telja sig eiga eitthvað vantalað við menn út af þessu ættu að ræða það við Hæstarétt frekar en stjórnmálamenn.

[15:30]

Eitt þeirra atriða sem smábátasjómenn eru ósáttir er þau 9 tonn sem frv. gerir ráð fyrir að bátarnir taki með sér yfir í þorskaflahámarkskerfið. Öllum má ljóst vera að enginn getur lifað á útgerð sem byggir á 9 tonna aflamarki. Mér er vel ljóst að umræddur tonnafjöldi byggist á að deilt er út jafnt hinum sameiginlega potti sem ætlaður er þessum bátum. Þrátt fyrir þessa staðreynd hljótum við að horfa til þess að munur er á því, þegar menn taka ákvörðun að kaupa bát, hvort menn telja sig geta náð meiru af hinum sameiginlega potti en næsti maður eða hvort menn standa frammi fyrir þeirri staðreynd að einungis sé leyfilegt að veiða 9 tonn. Þessi pottur hefur stundum verið kallaður hinn sósíalíski pottur og það er nú bara eðli þeirra sem búa við það kerfi að reyna að hrifsa til sín frá hinum. Ég hygg að menn hafi margir hverjir tekið ákvörðun um að fara út í þetta þar sem þeir héldu að þeir gætu náð til sín meira en maðurinn við hliðina á þeim. Ég bið því sjútvn. og hæstv. sjútvrh. að skoða málið í því ljósi að menn tóku þessa ákvörðun á þeim grundvelli að þeir byggju við þennan sósíalíska pott.

Við hljótum því að skoða alla möguleika sem til staðar eru til að lyfta því þaki sem þessum hópi útgerðarmanna er ætlað að búa við. Ein leið sem ég vil nefna í því sambandi er að taka vegið meðaltal. Með því móti fá þeir bátar sem á eru sjómenn sem stundað hafa sjósókn sem fulla atvinnu, meiri vigt en hinir sem hafa haft báta sína sem hobbí-tæki.

Í Bolungarvík komu á síðasta fiskveiðiári 11 nýir dagabátar inn í dagakerfið. Meðaltalsverð hygg ég að hafi verið um 10 millj. kr. á hvern bát og lánshlutfall frá sparisjóðnum var um 60%. Gróft reiknað má áætla að í dag fáist, eftir þessa breytingu, um 2 millj. kr. fyrir hvern bát og 9 tonna kvótinn gefi hugsanlega 3 millj. kr. Þeir sem keyptu þessa 11 báta á síðasta ári standa því hver um sig frammi fyrir tapi upp á um 5 millj. kr. Nú er 50--60 millj. kr. tap mikil blóðtaka fyrir lítið byggðarlag þó að vissulega sé vandi þeirra sem fyrir verða mun meiri.

Í þriðja lagi, varðandi þau atriði sem mestar áhyggjur eru af í sjávarbyggðum, eru fisktegundir sem áður voru utan kvóta nú settar undir aflamark. Tilvist margra aflahámarksbáta hefur byggst á sókn í tegundir utan kvóta. Þessar veiðar hafa verið umtalsverð búbót hjá þeirri tegund útgerðar. Það er því ekki nema von að útgerðarmönnum smábáta á aflahámarksbátum bregði við þegar grundvellinum fyrir útgerðinni er kippt svona undan þeim. Ég ítreka enn og aftur að dómur Hæstaréttar knýr stjórnvöld til þessara aðgerða. Ella væri ekki samræmi milli reglna sem þeir sem reka smábáta, sem gerðir eru út samkvæmt þessu kerfi, lúta og hinna sem eru á aflamarksskipunum.

Þrátt fyrir að mér sé þetta ljóst vil ég beina því til sjútvn. að hún taki til skoðunar hvernig og á hvaða tímabili sú veiðireynsla sem notuð er til að úthluta aflamarki á ýsu, ufsa og steinbít hjá þorskaflahámarksbátum skuli reiknuð.

Að lokum vil ég segja, herra forseti, að þeirri óvissu sem útgerðarmenn búa við nú verður að eyða sem fyrst. Útgerðarmenn, hvort heldur það eru smábátasjómenn eða útgerðarmenn stærri skipa, eiga rétt á því að fá að vita til lengri tíma hvaða reglur eigi að gilda um atvinnugreinina á komandi árum. Ef við eyðum ekki þeirri óvissu sem menn búa við í dag mun allt þjóðfélagið líða fyrir það. Það mun gerast strax upp úr áramótum ef óvissan í fiskveiðistjórnarmálum sem leiðir af þessum dómi Hæstaréttar heldur áfram.