Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 15:35:23 (2601)

1998-12-18 15:35:23# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[15:35]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla að engar deilur séu um að eftir hinn margumrædda dóm Hæstaréttar komst ríkisstjórnin ekki hjá því að grípa til ráðstafana og leggja fram frv. til breytinga á lögum um fiskveiðistjórn. Ég held að enginn deili um það. Og það deilir heldur enginn um að þegar menn höfðu lesið dóminn hafi verið ljóst að 5. gr., en á henni hafði veiðileyfi krókaveiðimanna grundvallast, dugði ekki lengur. Um þetta held ég að engar deilur séu.

Ég held að rétt sé að líta aðeins til upphafs þessa máls. Upphafið var þannig að við settum fyrst á aflakvótakerfi árið 1984. Það kerfi var byggt á veiðireynslu og þar með voru önnur skip útilokuð en Alþingi gekk þannig frá að skipum undir tíu tonnum var leyft að koma inn í kerfið og höfðu veiðileyfi. Þannig gekk fram til ársins 1990. Þá var reglunni breytt og einungis skip undir sex tonnum fengu að koma þar þar inn og fá veiðileyfi.

Það var svo ekki fyrr en vorið 1995 að búðinni var lokað, þannig gengið frá því að ekki var hægt að auka við fiskiskipaflotann. Ég ætla ekkert að fara ofan í það, herra forseti, hvort þetta er einhverjum að kenna og þá hverjum eða hvort þetta var gott eða vont. Staðreyndin er sú að á þessum árum fengu skipin veiðirétt og það var Alþingi, löggjafinn, sem gekk þannig frá því.

Ýmislegt fleira átti sér stað á fyrstu árum kvótakerfisins og varð til þess að þeir sem höfðu aflareynsluna fengu ekki að njóta hennar. Hv. þm. Árni Ragnar Árnason rakti það hér í ræðu sinni áðan og ekki ástæða til að fara yfir það aftur. Það er staðreyndin. Menn fengu ekki að fullu, og langt frá því, að njóta aflareynslu sinnar. Þetta koma náttúrlega fyrst og fremst niður á þeim sem höfðu stundað þorskveiðar og kom harðast niður á þeim sem áttu veiðirétt sinn í þorskveiðum.

Menn skulu átta sig á því, þegar talað er um að þessu sé ekki réttlátlega skipt sem er alveg rétt, að strandveiðiflotinn, þ.e. litlu bátarnir sem voru eingöngu með þorskveiðiheimildir urðu hlutfallslega fyrir meiri skerðingu en aðrar útgerðir sem höfðu veiðiheimildir sínar samsettar úr mörgum tegundum auk möguleikans til að fara lengra, fara á önnur mið og bjarga sér þannig. Það er því alveg rétt sem hér hefur komið fram í umræðunni, að strandveiðiflotinn sem er á aflamarki, minni bátar, standa langveikast að vígi og full ástæða til þess, um leið og við tölum um smábáta almennt, að athuga þeirra hlut. Ég tel, herra forseti, að svigrúm hljóti að vera til þess að bæta hlut þeirra svo þeir hafi rekstrargrundvöll.

Hér er deilt um og olli því að ég t.d., herra forseti, brást ókvæða við frv., að þegar dómurinn lá fyrir, þegar fyrir lá að finna yrði aðrar forsendur fyrir atvinnuréttindum smábátaútgerðarmannanna, yrði það einungis gert gert með því að setja þá inn í aflamarkskerfið. Menn hafa, m.a. hv. síðasti ræðumaður, fullyrt að þetta væri niðurstaða dómsins og engin önnur leið til að gera þetta.

Ég er mjög ósammála þessu. Ég tel að þeir sem hafa haft atvinnuréttindi á Íslandsmiðum, þ.e. allir eigendur skipa, jafnt stórra sem smárra, eigi rétt sem beri að verja. Ég tel það ekki breyta neinu um þetta atvinnuleyfi hvort andlag leyfisins var þyngdareining, var kíló eða tonn, tímaeining eða róðradagar. Ég tel að stjórnvöldum beri skylda til þess að varðveita og standa vörð um atvinnuleyfi allra útvegsmanna.

Herra forseti. Hvert svo sem umræðan er að leiða okkur svona almennt í dag og undanfarna mánuði á Íslandi, þá er skoðun mín sú og hefur alltaf verið, að Íslandsmið og íslenski fiskiskipaflotinn verði ekki sundur skilin. Ég hef aldrei getað skilið þetta mál öðruvísi en svo að það yrði að líta á það sem heild. Ég tel að íslenska fiskiskipaflotanum beri að nýta Íslandsmið, alveg sama hvort það eru stór skip eða smá skip.

Ég segi, herra forseti, og hef reyndar alltaf haldið því fram: Núna þegar þessi dómur liggur fyrir þannig að 5. gr. laganna um stjórn fiskveiða dugar ekki til að vernda þessi atvinnuréttindi smábátasjómannanna, dagabátanna, þá ber okkur að setja í lögin nákvæmlega tilgreindar heimildir og segja til um ástæðurnar fyrir þeim. Það eru sérréttindi þeirra og okkur ber að verja þau að mínum dómi. Ég trúi því og er viss um, herra forseti, að okkur muni takast að verja þau. Ég vil ekki einu sinni láta að því liggja að hér liggi fyrir dómur sem segi að okkur sé bannað stjórna fiskveiðum við Ísland. Það er útilokað, það er aldeilis útilokað að við getum verið komin í þau vandræði.

Við verðum að stjórna fiskveiðum við Ísland. Við getum deilt um það hvernig eigi að stjórna þeim. Við getum endalaust deilt um það og eigum að deila um það. Það er rétt að við endurskoðum það og förum í gegnum það öðru hvoru. Þar eru sjónarmið sem við verðum að virða, líffræðileg sjónarmið, efnahagsleg sjónarmið og líka félagsleg sjónarmið. Ég held að það sé enginn misskilningur og þurfi ekki að eyða mikilli orku í það hvað 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna þýðir. Hún þýðir einfaldlega það að stjórnvöldum ber að hámarka arð og árangur af nýtingu Íslandsmiða. Ég held að allir séu sammála um þetta. Þess vegna eigum við að standa vörð um þau réttindi útgerðarinnar sem þarna er um að ræða.

Við gætum komist að þeirri niðurstöðu að þessar aðferðir kunni að vera rangar. Ég hef alltaf gert mér grein fyrir því að það eru ákaflega mikil vandkvæði á þessu aflamarkskerfi. Það hefur skapað mjög mikil vandræði og mjög mikið óréttlæti. Það er mjög ófullkomin og frumstæð aðferð til að stjórna þegar við flokkum þorskinn, sem er nú aðalatriðið í þessu eða vegur þyngst, aðeins í einn flokk --- þorskur. Við vitum þó að við getum veitt þorsk frá 1,5 kílóum upp í 15 kíló. Við vitum að verðmunurinn á honum er gríðarlegur. Með þessari aðferð erum við því að breyta sókninni frá því sem áður var.

Ég vil því segja, herra forseti, nú þegar þetta frv. liggur hér fyrir, að forsendan fyrir því að ég muni styðja það er veruleg breyting. Við verðum að breyta því þannig að þau réttindi sem voru séu tryggð. Við getum tryggt þau réttindi sem voru. Ekkert í þessum dómi kemur í veg fyrir það. Við eigum að setja þau réttindi sem voru til staðar inn í lögin, hafa þau þar. Ég tel að það hafi margsannað sig að sóknin og sóknareiningarnar sem við erum að fást við núna hafa náð tilætluðum árangri, menn töldu það vandamál en hafa náð tökum á því núna, þ.e. flotanum sem til varð á árunum 1984--1995. Það er búið að ná utan um það. Það hefur verið gert með pólitískum aðferðum. Það hefur verið gert með mikilli úreldingu, lagðir í það miklir fjármunir og mikill kostnaður. Það er sátt um það nokkurn veginn og ætti að nást sátt um að hefta sókn þeirra. Það er sátt um að ákveðna daga sé skynsamlegt að leyfa þeim að veiða. Þeim yrði ekki hleypt til að veiða allt árið. Um leið og við skilgreinum slíkar einingar þá er mjög nauðsynlegt að átta sig á því að ef sett er hámark á þær, er um leið búið að eyðileggja kerfið.

[15:45]

Að mínum dómi er það fráleit tillaga sem liggur hér fyrir að leyfa krókabátum að veiða 32 daga og hafa 30 tonna hámarksafla. 32 dagar geta í sjálfu sér kannski verið eitthvað sem menn geta alveg sætt sig við, ég ætla ekki að segja til um það hvort dagarnir eigi að vera 30, 40 eða 50, 60 eða 70, ég held að það skipti tiltölulega litlu máli, en að setja aflahámark á kerfið, það eyðileggur. Það er bara aðferð til að eyðileggja það. Það er líka algjörlega óþarfi.

Menn hafa verið að hnýta í það í umræðunni í dag, herra forseti, að fráleitt sé að segja að þessi afli komi úr sjónum. En hann kemur nú samt úr sjónum, herra forseti. Ég hef stundum undrað mig á þeirri umræðu og þeirri miklu vissu hinna rétttrúuðu, ef ég má orða það svo, hinna rétttrúuðu manna þegar þeir þykjast telja sig hafa í höndunum gögn sem sýni fram á að við getum stjórnað og við getum sagt til um fiskveiðarnar af einhverju viti upp á kíló, tonn eða 10 tonn eða 10 þúsund tonn. Það er fjarstæða. Við höfum enga slíka þekkingu, og er ég ekki með því að kasta rýrð á hina ágætu vísindamenn sem vinna að því hörðum höndum og leggja sig alla fram um að efla þekkingu okkar.

Á síðasta fiskveiðiári fórum við í þorski 5.200 tonnum fram yfir það sem við ætluðum, ef við tökum yfirkeyrslu krókabátanna og drögum frá það sem geymt var milli ára. Ég vil benda á það að með einni reglugerð í júnímánuði, þar sem ráðuneytið ákvað að breyta fiskveiðistuðli, urðu til 7 þúsund tonn. Hvaðan komu þau, herra forseti? Ætli þau hafi ekki frekar komið úr sjónum en af himnum ofan? Ég held að það sé nú sennilegra. Ég held að sennilegra sé að þau hafi komið úr sjónum. Það er því fásinna þegar við erum að tala um að við höfum einhverja slíka þekkingu á valdi okkar. Það er bara hrein fásinna.

Það gengur mismunandi vel að fiska en við höfum verið þeir gæfumenn að gengið hefur vel á handfæraveiðum og á strandveiðum á undanförnum árum. Það hefur gert það vegna þess að farið hefur saman óvenjulega góð kjör og mikill afli á grunnslóð. Þá veiðist vel. Útgerðarsagan er alveg skráð og menn geta bara flett upp á því og séð hvernig þetta sveiflast til og frá og við þekkjum mörg ár þegar lítið er um fisk og þegar lítið er um fisk á grunnslóðinni. Menn ættu að vita að hér er fyrst og fremst um handfærabáta að ræða og handfærabátar gera lítið ef einhver kvika verður, þeir gera ekki neitt. Þessi sveifla fram og til baka hefur því ekki áhrif á lífríki þorsksins, hún hefur engin áhrif á lífríki hafsins, hún hefur bara jákvæð áhrif á efnahagslíf Íslendinga ef vel tekst til, ef fiskurinn gengur á grunnslóðina og veðrið er gott, getur ekkert gert nema gott. Þessir bátar komu löglega inn í landið, þeim var veitt leyfi og það á að varðveita þau atvinnuleyfi.

Ég hef ekki hugsað mér og hef aldrei hugsað mér að fara að rifja upp þá hluti sem gerðust hér á níunda áratugnum, hvað gert var við þessar þorskveiðiheimildir. Ég held að það hafi engan tilgang, herra forseti, að rifja það upp. Það er búið og tilheyrir hinu liðna. En okkur ber --- og það er mjög mikið atriði vegna þess að einn stærsti gallinn á kerfinu er einmitt alls konar félagsleg röskun sem það hefur valdið. Það er einn stærsti gallinn. Og meira að segja þeir útlendingar sem mest hafa verið að hæla þessu kerfi hafa allir bætt því við að reikna beri dæmið til enda. Það er ekki bara brúttóárangurinn, það nettóið sem á að hugsa um.

Það hefur sýnt sig og sannað að smábátarnir hafa víða bjargað ýmsu og það er mjög þakkarvert fyrir samfélagið og fyrir fólkið að ekki hefur farið verr í ýmsum sjávarplássum. Það er misskilningur margra að halda að þessir krókabátar séu endilega allir á Vestfjörðum. Þeir eru það alls ekki. Þeir eru mjög víða á útgerðarstöðunum, mjög víða um landið. Vestfirðingarnir eru kannski hvað mest í þorskaflahámarkinu eins og eðlilegt má teljast. Þeir sækjast eftir steinbítnum sem gengur á veturna og vorin upp í landgrunnið og upp í firðina. Það er bara eins og Vestfirðingar hafa gert frá örófi alda.

Það er mjög nauðsynlegt, herra forseti, að við séum meðvituð um að landsbyggðin, sjávarútvegsbyggðirnar víða um Ísland standa mjög höllum fæti. Við erum að ræða það hér undir öðrum málum hvernig megi koma þeim til aðstoðar, hvaða möguleika við eigum til að treysta þær byggðir, og þess vegna er það voðalegt, bara hreint voðalegt, ef við á sama tíma ætlum að grípa til aðgerða sem hreinlega eyðileggja forsendur byggðanna. Því að rétt undirstaða er náttúrlega það sem skiptir öllu máli ef við viljum viðhalda þeirri byggð sem er þjóðhagslega mjög hagstætt. Hinir smáu, sjálfstæðu útgerðarmenn eiga nákvæmlega sama rétt.

Það er rangt sem kom fram hjá einum ræðumanni að þetta hefði ekki áhrif á afkomu stórfyrirtækjanna. Ég er ekki viss um nema það gæti verið, vegna þess að ef Alþingi stendur ekki vörð um atvinnuréttindi smáútgerðarmannanna hver á þá að ætlast til eða búast við að Alþingi fari þá að standa vörð um hagsmuni stærri útgerða? Það á eitt að gilda. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að senda þau skilaboð út til þjóðfélagsins að Alþingi sé reiðubúið til þess að standa vörð um alla útgerðina og valdi ekki óróa á markaðnum að einu né neinu leyti, heldur reyni að sýna fram á eins og það best getur að það er meiningin og viljinn að standa vörð um útgerðirnar.

Ég held að þó ég hafi oft á tíðum deilt mjög harkalega um stjórn fiskveiða við hæstv. sjútvrh. og hæstv. fyrrv. sjútvrh. sem nú er hæstv. utanrrh., þá held ég að við höfum í reynd alltaf snúið bökum saman þegar kemur að því að íslensk útgerð, smá og stór, landgrunnið og íslensku fiskimiðin verður að fara saman og á að fara saman og má ekki sundur skilja. Þess vegna er betra að við stöndum nú saman og við eigum að standa saman. Ég trúi því, herra forseti, að þótt ég sé mjög óánægður með þær tillögur sem hér eru lagðar fram þá sé hægt að ná samstöðu í sjútvn. um að gjörbreyta þeim, breyta þeim á þann veg að þau réttindi sem menn höfðu verði áfram.