Útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 16:13:52 (2603)

1998-12-18 16:13:52# 123. lþ. 45.92 fundur 180#B útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða# (umræður utan dagskrár), Flm. SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[16:13]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að óska eftir þessari umræðu og bera fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. heilbrrh. um útboð á þjónustu við aldraða, hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Reykjavík. Eins og hæstv. forseti heyrir á mæli mínu er það ekki sérstaklega vel fallið þess að standa í löngum umræðum. Ég mun engu að síður gera tilraun til þess að koma spurningum frá mér.

Í Morgunblaðinu 6. des. sl. birtist auglýsing, ekki á mjög áberandi stað, sem segir:

,,Útboð. Hjúkrunarheimili í Reykjavík --- einkaframkvæmd. Bygging, rekstur og fjármögnun ...``

Í textanum segir:

,,Leitað er að aðila til að selja heilbr.- og trmrn. þjónustu, sem felst í því að leggja til og reka í 25 ár hjúkrunarheimili fyrir 60 aldraða með öllu því sem til þarf.``

[16:15]

Fyrir 60 aldraða með öllu. Það er með öðrum orðum alútboð á öldruðum sem á hér að efna til, alútboð á þjónustu við aldraða, bæði á húsum sem á að byggja í þessu skyni og síðan á rekstri í smáatriðum, bæði borðbúnaði, lyfjum, brekánum og öðrum nauðsynjum sem þurfa að vera á elliheimilum. Ég tel, herra forseti, að þó að við höfum ágæta reynslu af ýmsum aðilum í þessum rekstri eins og t.d. sjómannadagsráði og þeim aðilum sem hafa rekið Grund, þá sé þessi nálgun sem hér er efnt til miklu verri og háskalegri. Ég tel að hún sé varasöm og það þurfi að fara mjög varlega með hluti af þessu tagi vegna þess að þjónusta sem byggist á hagnaðargrundvelli eingöngu getur snúist upp í andhverfu sína áður en langur tími líður og við heyrðum snemma á þessu ári fréttir frá Svíþjóð og Noregi þar sem gengið var í það að loka elliheimilum sem bjuggu einmitt við hliðstætt rekstrarform og hér á að efna til, vegna þess að fjárhagsvandi eigendanna var farinn að bitna á þjónustunni við gamla fólkið.

Af þessu tilefni og af því ég hef áhyggjur af málinu hef ég leyft mér að bera fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra sem ég sendi henni í gær. Þær eru á þessa leið:

1. Hvernig hyggst ráðherra tryggja skilyrðislaust vandaða þjónustu við þá aldraða einstaklinga sem lenda á þessu einkarekna heimili fyrir aldraða?

2. Hver er sá fjárhagslegi ávinningur sem ríkisstjórnin hyggst hafa af útboði á þjónustu við 60 aldraða einstaklinga?

3. Hvernig verður háttað eftirliti með þessari þjónustu?

4. Hefur landlæknisembættið, sem er faglegur ráðunautur ráðuneytisins eins og kunnugt er, sent frá sér faglega greinargerð um þetta efni?

5. Hver er skoðun Landssambands aldraðra á þessu útboði?

6. Telur ráðherra að svona útboð á þjónustu við gamalt fólk standist örugglega ákvæði mannréttindasáttmála?