Útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 16:17:24 (2604)

1998-12-18 16:17:24# 123. lþ. 45.92 fundur 180#B útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[16:17]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson leggur fram nokkrar spurningar vegna auglýsingar um forval. Við hinni fyrstu spurningu er það svar að þessi þjónusta er bundin í lögum, reglugerðum og stöðlum sem ráðuneytið hefur gefið út. Eftirlit með gæðum er í höndum landlæknis og faghópa í öldrunarþjónustu og í þjónustusamningi sem verður gerður verða ítarleg ákvæði um faglegar kröfur, eftirlit með faglegri þjónustu og vel skilgreind viðbrögð ef út af verður brugðið.

Það hefur sýnt sig á undanförnum árum að ýmsir aðilar sem hafa áhuga, þekkingu, reynslu og traust hafa lagt metnað sinn í að byggja upp þjónustu fyrir aldraða í þessu þjóðfélagi. Það er nærtækast að nefna, eins og hv. þm. reyndar gerði hér á undan, sjómannasamtökin, Rauða kross Íslands, ýmis stéttarfélög, Grund og mörg sveitarfélög. Þannig hafa fjölmargir aðilar byggt upp og sinnt öldrunarþjónustu í áratugi og í raun verið fyrirmynd ríkisins í því hvernig á að sinna þessum málaflokki. Ég fullvissa hv. þingmenn um að á öllum stigum þessa máls mun besta fagfólk tryggja hag hinna öldruðu. Það er það sem máli skiptir.

Um aðra spurningu hv. þm. vil ég segja að engar áætlanir eru um hvaða fjárhagslegur ávinningur er af þessu útboði. Þetta verkefni snýst um að veita sjúkum, öldruðum góða þjónustu. Stjórnvöld ber hins vegar skylda til að veita bestu mögulega þjónustu og ná góðri nýtingu á peningum skattborgaranna og með því gefa einkaaðilum og félagasamtökum möguleika á að nýta hluta af þeim eignum sem þeir nú eiga, t.d. endurhæfingaraðstöðu, eldhús, starfsmannaaðstöðu og þvottahús svo eitthvað sé nefnt, til að nýta fjárfestingar betur. Á síðustu árum hefur hjúkrunarrúmum fjölgað mikið. Nú liggur fyrir að þeim verður fjölgað um 130 á næsta ári. Og samkvæmt þeim áætlunum sem fyrir liggja er ljóst að þörfin heldur áfram að aukast.

Virðulegi forseti. Þriðju spurningu þingmannsins svaraði ég áðan, en ég ítreka að eftirlit með þjónustunni er samkvæmt lögum og reglum eins og um alla þjónustu á sama sviði.

Um fjórðu spurninguna get ég sagt að verið er að vinna að gerð útboðslýsingar og við þá vinnu höfum við leitað aðstoðar okkar besta fagfólks í öldrunarmálum. Áður en gengið verður frá útboðslýsingu verður hins vegar leitað álits landlæknis.

Hvað varðar fimmtu spurningu vil ég benda hv. þm. á að ekki er venja að bera það nákvæmlega undir Landssamband aldraðra á hvern hátt þjónustan er aukin. Við höfum fjölgað hjúkrunarrýmum á mjög mörgum stofnunum. Við höfum byggt og bætt við, m.a. vegna ábendinga Landssambands aldraðra. Ég hef átt fjölda funda með fulltrúum aldraðra og ég hef rætt þessi mál við þá. Sem eðlilegt er leggja þeir áhersluna á fjölgun hjúkrunarrýma og að tryggja góða þjónustu. Um það er enginn ágreiningur.

Um síðustu spurningu þingmannsins vil ég taka fram að um þessa þjónustu munu gilda nákvæmlega sömu reglur og um aðra þjónustu á þessu sviði. Þau hjúkrunarheimili sem hafa verið opnuð á þessu kjörtímabili eru öll til fyrirmyndar eins og flest þau hjúkrunarheimili sem hafa verið opnuð sl. 20 ár.

Á síðustu árum hafa fjölmargir aðilar komið að máli við mig og lýst vilja til að stækka hjúkrunarheimili, byggja við eða byggja ný. Þar á meðal má nefna Hrafnistu, Rauða krossinn, Reykjavíkurborg og fleiri. Þarna er í öllum tilvikum um að ræða aðila sem hafa langa reynslu og mikla þekkingu á þeirri þjónustu sem veita þarf. Og það sem meira er, þeir hafa manngæsku og virðingu fyrir þeirri þjónustu sem ber að veita.

Ég vona að ég hafi svarað hv. þm. þeim spurningum sem hann hefur lagt hér fram.