Útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 16:25:03 (2606)

1998-12-18 16:25:03# 123. lþ. 45.92 fundur 180#B útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[16:25]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þetta mál er í sjálfu sér nokkuð athyglisvert. Hér er farin ný leið. Hér er ný stefna. Til upplýsingar þá tóku sjómannasamtökin þá ákvörðun 1938 að þeirra aðalmarkmið yrði að reka heimili fyrir aldraða sjómenn, þá komnir í land búnir á sál og líkama langt um fram aldur fram og það var mjög merkilegt skref sem þá var tekið. Oft gleymist hagkvæmni stærðarinnar í þessum rekstri. Ég get t.d. nefnt að sjómannasamtökin hafa óskað eftir að fá að byggja nýja hjúkrunarálmu, bæði við Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði, sem byggist m.a. á því að allur þjónustukjarni sem þarf til svona heimilisreksturs er þar til staðar. 90 rýma hjúkrunarheimili sem væri byggt eitt og sér án þeirrar þjónustustoðar sem fyrir er mundi kosta einn milljarð, en þar sem til staðar er allur þjónustukjarni þá er kostnaður um hálfur milljarður. Það er dæmið í hnotskurn.

Auðvitað vakna spurningar þegar svona útboð kemur fram þar sem aðili á að taka á sig alla þjónustuna, allt frá A til Ö, frá hönnun, byggingu og frágangi öllum og þar til fyrstu einstaklingar koma inn og halda svo áfram rekstri í næstu 25 ár. Hvaða kröfur eru gerðar til gæða byggingar? Hvaða kröfur eru gerðar til þjónustuaðila? Verður fylgst með því hvort sá sem býður upp á þessa þjónustu fyrir aldraða standi sig í rekstri? Er hætta á því að hann muni fækka hjúkrunarrýmum úr 60 niður í 40 eða 30 eða 20 ef hann stendur sig ekki í rekstri? Að því þarf auðvitað að gæta.

Ég tel að málið standi þannig varðandi þá RAI-mælingu sem hér er verið að tala um að eigi að vigta og greiða eftir, þ.e. hversu þungir í umönnun þeir sjúklingar eru sem þarna koma inn, að í þessu útboði er gert ráð fyrir því að ríkið ráði alfarið innlögnum fólks og því verði væntanlega þeir þyngstu teknir af sjúkrahúsunum og lagðir inn á hið nýja heimili. Það hefur verulega áhrif á umhverfi starfsfólksins. Það hefur líka veruleg áhrif ef t.d. aldraður krabbameinssjúklingur kemur inn sem getur jafnvel þurft meðalagjöf upp á 100 þús. kr. á mánuði. Það skiptir verulegu máli og með þessu þarf (Forseti hringir.) að fylgjast þannig að ráðuneytið þarf að gera meiri og fyllri kröfur til þeirra sem ætla að taka að sér þennan rekstur. Engu að síður er málið þess eðlis að það er allrar athygli vert, vel að merkja ef ráðuneytið kemur þá vel og kröftuglega inn í hvað varðar skilmála þeirra sem taka þetta verk að sér.