Útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 16:42:33 (2613)

1998-12-18 16:42:33# 123. lþ. 45.92 fundur 180#B útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[16:42]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir að þetta mál skuli vera tekið hér upp. Málið er mjög sérstakt. Það snýst ekki um það hvort um sé að ræða óánægju eða ánægju með einkarekin heimili eða ríkisrekin heldur um það hvernig við viljum standa að þjónustu við aldraða í framtíðinni. Það kom fram hjá hæstv. heilbrrh. að eftirlit með rekstri þessa heimilis sem hugsanlega yrði boðið út yrði í samræmi við lög og reglur sem um þessa þjónustu gilda. Ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Telur hún að eftirlitið með rekstri heimila sé í góðu lagi í dag? Er tryggt að um sé að ræða sambærilega þjónustu á heimilum, hvort sem um er að ræða ríkisrekin heimili eða einkarekin og í samræmi við þær greiðslur sem inntar eru af hendi?

Hæstv. ráðherra var einnig spurð um skoðun Landssambands aldraðra á þessu máli. Hjá hæstv. ráðherra kom fram að það væri ekki venjan að bera ákvarðanir sem þessar undir félagasamtök. Ef hæstv. ráðherra má vera að því að hlusta ætla ég að vitna í samþykkt sem gerð var á 25. flokksþingi Framsfl. 20.--22. nóvember sl. þar sem segir að Framsfl. leggi áherslu á:

,,Að virkja og auka sjálfræði aldraðra, gera sýnilegt að þeir hafi frumkvæði og móti stefnu í eigin málefnum og félagasamtökum og hafi þar með frelsi til þess að velja sjálfir lífsmynstur sitt.``

Hér er um að ræða heimili fyrir 60 manns og það er ekki úr vegi, virðulegi forseti, að rifja upp annað áhersluatriði úr stefnu Framsfl.:

,,Að aldraðir hafi tök á því að búa á hjúkrunarheimilum, sem byggð eru í þeirra eigin sveitafélagi, þegar heilsufarsástand og hjúkrunarþörf þeirra krefst þess. Þar verði lögð áhersla á heimilislegt umhverfi í litlum einingum sem fellur vel að hugmyndum um sem eðlilegast fjölskyldulíf.``

Eðlilegt fjölskyldulíf er nú varla 60 manna heimili. Samrýmist þetta stefnumiðum Framsfl.? Var einhver hér áðan að tala um aumkunarverðan málflutning stjórnarandstöðunnar?