Útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 16:44:56 (2614)

1998-12-18 16:44:56# 123. lþ. 45.92 fundur 180#B útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[16:44]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér á hinu háa Alþingi höfum við margoft rætt um vanda heilbrigðiskerfisins. Deildum er lokað, biðlistar eru endalausir, hætt er við aðgerðir og við það er feiknakostnaður sem stöðugt vex.

[16:45]

Ég man ekki til þess að hv. þingmenn hafi rætt um lokanir hjá Flugleiðum eða biðlista hjá Flugleiðum eða sífellt vaxandi vanda hjá Flugleiðum. Hvernig stendur á því? Vegna þess að Flugleiðir er einkafyrirtæki og þeir geta ekki leyft sér lokanir, þeir geta ekki leyft sér biðlista og þeir geta ekki leyft sér þau vandamál sem heilbrigðiskerfið hefur leyft sér.

Þegar ég var í atvinnurekstri, áður en ég varð þingmaður, var það síðasta sem mér datt í hug að loka fyrirtækinu eða minnka þjónustuna þegar illa gekk. Það var það síðasta sem mér datt í hug. En þetta dettur opinberum fyrirtækjum í hug og komast upp með það.

Herra forseti. Gróðinn og arðurinn sem hér verður greiddur verður greiddur vegna betra skipulags, betri hönnunar á húsnæði og betri nýtingar fjármagns. Það er svo einfalt. Þannig myndast arðurinn og hagnaðurinn og þjónustan verður ódýrari. Ég fullyrði það. Að sjálfsögðu þarf að tryggja í útboðskynningu að gæðin verði fullkomin og góð og það verður að tryggja atriði eins og þagmælsku og annað slíkt. Ef rétt er að málum staðið verður líka tryggt að þeir sjúklingar sem verða mjög erfiðir og þungir í hjúkrun verði velkomnir vegna þess að meira er greitt fyrir þá.

Kosturinn við þetta er að ríkið hefur eftirlit með og gerir kröfur til einstaklinga og það gerir miklu meiri kröfur til einstaklinga en það gerir til ríkisfyrirtækis. Ríkið gerir meiri kröfur til einstaklinganna en það gerir til sjálfs sín. Það er nefnilega það sem hefur komið í ljós. Ég er viss um það að hv. þingmenn muni gera sérstaklega miklar kröfur til stjórnar þessa fyrirtækis, meiri en til stjórna núverandi heilbrigðisstofnana sem enginn hefur talað um að hafi brugðist.

Það er dálítið merkilegt, herra forseti, að þegar kemur að nýjungum eru þeir hv. þingmenn sem kenna sig við stefnu sem einu sinni átti upptök í byltingu, fyrir 70 árum, á móti öllum breytingum.