Útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 16:49:56 (2616)

1998-12-18 16:49:56# 123. lþ. 45.92 fundur 180#B útboð á rekstri hjúkrunarheimilis fyrir aldraða# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[16:49]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Auðvitað hlusta ég á alla hér. Að sjálfsögðu. Ég held að menn verði að fara aðeins betur yfir málið vegna þess að hér er um forval að ræða. Hér er um forval að ræða og síðan verður útboð. Það verður lokað útboð. Það er alveg ljóst að ekki verður tekinn til greina neinn aðili nema okkur sýnist hann vera traustsins verður.

Af því að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom áðan inn á það að þetta væri nýjung sem væri vert að skoða er líka gott að benda á það að hann sagði að mjög margir aðilar hefðu sýnt þessu áhuga. Þess vegna erum við með útboð. Það eru aðilar eins Grund sem hefur áhuga, það eru aðilar eins og Hrafnista sem hefur áhuga. Þetta eru aðilar sem við treystum. Við gerum strangar kröfur til hjúkrunarheimila okkar. Ég fullyrði að hjúkrunarheimili okkar eru fyrsta flokks í landinu.

Við höfum reynt ýmsar nýjungar í þessari ríkisþjónustu eins og fram hefur komið. Við höfum t.d. gert þjónustusamninga við mjög mörg hjúkrunarheimili í landinu, t.d. Skógarbæ sem er myndarlegt heimili. Ég tel að við séum að fara réttar leiðir, við erum að fjölga hjúkrunarrýmum, eins og ég sagði áðan fjölgar þeim um 130 á næsta ári, og ekki veitir af eins og kom fram hjá þingmönnum áðan. En árið 2000 ætlum við að vera búin að fullnægja þeirri þörf sem er brýnust á þessu svæði.