Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 17:19:53 (2619)

1998-12-18 17:19:53# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[17:19]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Suðurl. bar sig illa undan því að auglýst hefði verið eftir stefnu stjórnarandstöðunnar og sérstaklega jafnaðarmanna. En það er einu sinni svo að ekki er auglýst eftir öðru en því sem týnt er og finnst ekki. Hér hefur fyrst og fremst verið nokkur viðleitni til að auðvelda jafnaðarmönnum að koma og segja frá stefnu sinni og láta ekki þessa umræðu fara þannig fram að þjóðin öll horfi á hvern þingmann þeirra á fætur öðrum koma upp án þess að geta sagt hvað þeir ætla að gera.

Nú má segja það um hv. 6. þm. Suðurl. að hann sagði alveg klárt að hann liti svo á að Hæstiréttur hefði fellt 7. gr. fiskveiðistjórnarlaganna úr gildi. Það hefur margsinnis komið fram að ef menn líta svo á eru þrír kostir fyrir hendi: ólympískar veiðar, að setja öll veiðiréttindin á uppboð, taka veiðiheimildirnar af þeim sem hafa þær í dag og setja þær á uppboð, eða í þriðja lagi að taka þær af og senda hverjum og einum Íslendingi heim. Þetta eru þeir þrír kostir sem eru fyrir hendi ef menn líta svo á að 7. gr. hafi verið felld úr gildi.

Er nú til of mikils mælst, ef menn líta svo á að þetta felist í dómi Hæstaréttar og Alþingi verði að bregðast við í ljósi þess, að menn fari fram á það að þá sé sagt líka hvaða leið á að fara? Finnst hv. þm. að það sé til of mikils mælst? Eða gætum við fengið frá honum svör um það sem við höfum ekki fengið frá hinum talsmönnum jafnaðarmanna í dag?