Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 17:24:24 (2623)

1998-12-18 17:24:24# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[17:24]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér hefur staðið meira og minna í dag umræða um stjórn fiskveiða. Segja má að umræðan hafi farið meira og minna út og suður, eins og kannski við var að búast en mjög gjarnan er skírskotað til 65. gr. stjórnarskrárinnar um svokallaða jafnræðisreglu, að allir séu jafnir til að stunda atvinnu. En segja má að það sé nokkuð þröng túlkun eða í umræðunni a.m.k. því að þetta snýst auðvitað um meira. Menn hafa á stundum vitnað til 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi, öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa.

En það er athyglisvert m.a. að þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður jafnaðarmanna, vitnar til 75. gr. stjórnarskrárinnar þá lætur hann sér duga, eins og reyndar fleiri hv. þingmenn, að lesa einungis fyrstu setningu þeirrar greinar en láta ekki fylgja næstu setningu sem fylgir, nefnilega þá setningu, með leyfi herra forseta:

,,Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.``

Þetta snýst með öðrum orðum annars vegar um jafnræði og stjórnarskrárbundin atvinnuréttindi og hins vegar um fullveldisrétt þeirra sem með umboð þjóðarinnar fara til að takmarka ýmis ákvæði á grundvelli þjóðarhagsmuna. Það hljóta ávallt að vera þjóðarhagsmunir sem eru útgangspunktur í þessu máli eins og reyndar flestum málum. Þetta snýst um réttinn til að mega stunda vinnu, um varin atvinnuréttindi og takmörkun þeirra vegna þjóðarhagsmuna.

En því miður er í umræðunni oft á stundum öllu þessu blandað saman, á stundum vegna vanþekkingar á tiltölulega flóknu máli en einnig líka vísvitandi gert í ómerkilegum, pólitískum áróðri. Ég leyfi mér að vísa til ummæla Sigurðar Líndals lagaprófessors í DV nýlega þar sem hann fordæmir slíkan málflutning, lýðskrum, og telur það til eins fallið, að blekkja og þar fram eftir götunum.

Það er líka í rauninni sorglegt frá því að segja að slíkar upphrópanir eiga e.t.v. sinn stærsta þátt í því að umræða um sjávarútvegsmál hefur verið ansi erfið hérlendis og óþarflega erfið vegna þess að of margir mæla í eða kalla fram í upphrópunum og einföldunum. Það getur aldrei leitt til þeirrar sáttar sem menn hafa kallað eftir heldur kann þvert á móti að vera einmitt ein skýringin á því ósætti sem sagt er að ríki um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Þetta eru tvö mál. Það má líta á þetta út frá tveimur meginþáttum, eins og hér hefur verið sagt, um jafnræðisreglu stjórnarskrár og dómurinn fjallar um hana enda málið sótt á þeirri forsendu, þ.e. með tilvísun í 65. gr. stjórnarskrár þá er málssækjandi að fjalla um 5. gr. laga um stjórn fiskveiða. Niðurstaða þar er afskaplega skýr, eins og hér hefur ítrekað komið fram og kemur fram í dómnum, að 5. gr. heldur ekki með skírskotun til 65. gr. Gott og vel, þá ber Alþingi að sjálfsögðu að bregðast við og breyta þeirri grein. En þá er líka, af því að menn hafa dregið 7. gr. mikið inn í og jafnvel gengið svo langt, þótt undarlega kunni að hljóma, að segja að 7. gr. sé fallin og vísa þar til dómsins og forsendna hans. Það er, herra forseti, í rauninni alveg með ólíkindum að menn geti dregið þær ályktanir af forsendum dómsins þar sem segir m.a., með leyfi forseta, --- og mér finnst einkum hv. þingmenn jafnaðarmanna hafa forðast þá setningu, sem segir á bls. 3 í dómnum:

,,Ákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar standa því ekki í vegi, að í lögum sé mælt fyrir um slíkar takmarkanir, enda sé almannahagsmunum fyrir að fara. Af forsögu núgildandi fiskveiðistjórnarlaga er ljóst að löggjafinn hefur talið að almannaheill ræki til takmörkunar veiðanna. Ekki eru efni til þess að því mati verði haggað af dómstólum.`` --- Ég er að lesa, herra forseti, upp úr forsendum dómsins og þar segir líka í niðurstöðu í lokakafla á forsendum dómsins, fyrir dómsorð:

,,Hins vegar er ekki í þessu dómsmáli tekin afstaða til þess, hvort ráðuneytinu hafi að svo búnu borið að verða við umsókn áfrýjanda, en málið er einungis höfðað til ógildingar á ákvörðun ráðuneytisins en ekki til viðurkenningar á rétti áfrýjanda til að fá tilteknar veiðiheimildir í sinn hlut.``

[17:30]

Þetta er, herra forseti, mjög afdráttarlaust í forsendum dómsins og því með ólíkindum að menn geti staðið í ræðustól á hv. Alþingi og notað það sem forsendu fyrir þeirri fullyrðingu að 7. gr. haldi ekki. Það er einfaldlega þvert á það sem segir í forsendum dómsins. Menn hamast sumir hverjir af fullkomnu ábyrgðarleysi við að rugla saman --- oft í pólitískum tilgangi --- ólíkum hlutum í raun og veru. Það er loddaraskapur og er einungis til þess að rugla almenning í ríminu.

En það sem er alvarlegt við það er að það skapar óvissu. Og ég leyfi mér að vitna til greinar sem virtur hagfræðiprófessor, prófessor Ragnar Árnason, skrifar í tímarit laganema, Úlfljót, þar sem hann fjallar m.a. um þjóðhagsleg áhrif óvissu á efnahagslíf, ekki síst efnahagslíf eins og okkar Íslendinga þar sem óvissan beinlínis vinnur gegn almannahagsmunum, hagsmunum þjóðarinnar. Þess vegna má segja að loddaraskapur og sýndarmennska með upphrópunum vinni gegn hagsmunum þjóðarinnar og það er sannarlega mikil ábyrgð af hálfu hrópenda.

Kjarni þessa máls, herra forseti, snýst auðvitað um takmörkun að aðgangi að auðlindinni. Þá ber okkur að hafa í huga hvers vegna er takmarkað, hvers vegna neyðast menn til að grípa til takmarkana? Við þurfum líka að muna hver staða sjávarútvegs var í upphafi árs eða í upphafi síðasta áratugar. Við skulum ekki gleyma því að þá stóð greinin á brauðfótum og stofnar voru að hruni komnir. Ástandið er til allrar hamingju í dag annað og betra þó enn skuldi greinin u.þ.b. 100 milljarða kr. frá þessum erfiðleikaárum.

Það er líka, herra forseti, rétt að minna á að það er ekki bara hérlendis sem menn hafa verið að fjalla um þessa þætti, um stöðu greinarinnar, um of stóran fiskveiðiflota og þar fram eftir götunum. Þetta er vandamál sem fjallað er um alls staðar í alþjóðasamfélaginu þar sem menn stunda á annað borð fiskveiðar. Í OECD, innan ESB og þannig má áfram telja. Þar telja menn það meginmarkmið að draga úr afkastagetu fiskiskipaflota vegna þess að almannahagsmunir, þjóðarhagsmunir beinlínis kalla á það.

Það er merkilegt að á sama tíma og ýmsir treysta sér til þess að finna okkar fiskveiðistjórnarkerfi allt til foráttu fáum við ábendingar frá virtum stofnunum eins og OECD og frá ESB. Ég leyfi mér að vitna til heimsóknar forseta Íslands til Kofi Annans, sem bendir til Íslands, og ég minni á sjónvarpsfréttir þann sama dag og niðurstöður Hæstaréttar í þessu máli voru kynntar þegar World Wildlife Foundation bendir sérstaklega til fiskveiðistjórnarkerfis Íslendinga af því að annars staðar telja menn sig ekki hafa fundið jafnárangursríkt fiskveiðistjórnarkerfi með almannahagsmuni í huga. Það hlýtur að segja okkur eitthvað.

Menn hafa rætt hér um 65. og 75. gr. stjórnarskrárinnar sem er auðvitað nauðsynlegt að gera við umfjöllun á þessu máli. En það er alveg ljóst að málið var höfðað vegna 5. gr. og dómurinn tekur til 5. gr. laga um stjórn fiskveiða. Rökstuðningur dómsins er skýr hvað varðar 7. gr., eins og ég hef rakið, vegna fullveldisréttar stjórnvalda um takmarkanir vegna þjóðarhagsmuna.

En ef menn vilja túlka þetta með öðrum hætti og fella 7. gr., eins og ítrekað hefur komið fram, þá ætla menn sér væntanlega að koma með aðra heildarlausn. Á það hefur verið bent ítrekað í umræðum hvaða möguleikar eru til staðar, ólympískar veiðar, uppboð og þar fram eftir götunum. Þá er líka rétt að hafa í huga, þar sem ólympískar veiðar gilda t.d. í Alaska og hefur verið um tíma í Kanada, t.d. með veiðar á lúðu, þar klára menn heimildir á mjög skömmum tíma, hvort menn vilja bjóða byggðarlögum okkar og sjómönnum okkar og útgerðum upp á það að ljúka þorskveiði í janúar, febrúar ár hvert og sitja síðan með bát og flota bundinn og atvinnuleysi um allt land. Ætla menn að bjóða upp á einhverja aðra heildstæða lausn eða að lagfæra það kerfi sem við búum við núna? Það er auðvitað grundvallaratriðið.

Ég ítreka líka orð Ragnars Árnasonar hagfræðiprófessors um það hversu óvissa er dýr fyrir þjóðarbúið. Hún er ekki bara dýr, hún skapar ringulreið, hún kann að eyða einyrkjum, ábyrgðarlausar leiðir kunna að útrýma einyrkjum í þessari grein, eyða heilum byggðarlögum o.s.frv., eins og margsinnis hefur komið fram í umræðum. Ég trúi því ekki að það sé vilji nokkurs manns að standa fyrir slíku og þess vegna er eðlilegt að spurt hafi verið í umræðunni hvort menn vilji kasta fyrir róða því sem ýmsir virtir erlendir aðilar mæla með og líta til án þess þó að í umræðunni hafi komið fram eitthvert heildstætt annað kerfi. Menn verða þá að benda á það.

Ef menn hins vegar vilja sýna ábyrgð verðum við að líta á rökstuðning dómsins um 5. gr. vegna jafnræðisreglu og réttarins til að stunda atvinnu. En þá er líka vert að leggja þunga áherslu á að með dómnum um að 5. gr. haldi ekki er verið að opna fyrir það að hver sem er geti fjárfest í skipi til veiða og fengið veiðileyfi. Það er rétt að vekja athygli á því og leggja á það áherslu: að fjárfesta í skipi og veiðarfærum til þess að hagnýta auðlindina. Það er rétt að leggja áherslu á það um leið og vísað er til eilífra upphrópana um gjafakvóta. Ég hygg að þessi dómur dragi m.a. það fram að til þess að fá veiðireynslu þurfi menn að fjárfesta í skipum og í veiðarfærum til þess að nýta auðlindina. Tali menn svo hátt og digurbarkalega um gjafakvóta og að geta ókeypis sótt í þessa auðlind.

Ef menn ætla að túlka þetta of vítt blasa við hinar ólympísku veiðar eins og við Alaska --- nema menn grípi til takmarkandi aðgerða á grundvelli fullveldisréttar stjórnvalda með þjóðhagslega hagsmuni í huga. Þá þurfum við að skoða eitt að ef við ætlum að halda okkur við núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sem við hljótum að gera á meðan ekkert annað heildstætt kerfi er í boði eða kynnt --- hvar er þá opið í núverandi kerfi? Og það er augljóst að það snertir dagabátana. Þess vegna er rétt og á það hefur réttilega verið bent að það frv. sem er til umræðu fjallar fyrst og fremst um krókabáta. Það er af þeirri einföldu ástæðu að þar er kerfið opið. Og ef ekki er við brugðist værum við að senda þeim einyrkjum sem þar eru, yfir 300 talsins, heldur kalda kveðju með því að bjóða þeim að þeir 2.500 aðilar, sem hafa sótt um veiðileyfi, geti komið þangað inn. Þá er ekki mikið til skiptanna fyrir þá einyrkja sem eru á dagakerfi í dag. Það væri köld kveðja til þeirra.

En því ber að fagna að í frv. er gert ráð fyrir aukningu á dögum til þeirra einyrkja sem eru í dagakerfinu í 32 eða 26, eftir því hvort lína er með eða ekki. En spurningin er og á það hefur verið bent og gagnrýnt mjög harðlega og sumpart réttilega, að hinn níu tonna jafnaðarkvóti sem á að koma eftir rúmt ár mun að sjálfsögðu ekki duga. Það er verkefni hv. sjútvn. að finna lausn á því máli og trúi ég að hv. nefnd muni finna slíka lausn.

Ég vil líka, herra forseti, aðeins víkja að hlutverki Þróunarsjóðs. Megintilgangur hans hefur verið að draga úr afkastagetu fiskiskipaflotans með úreldingu. En með dómi Hæstaréttar má segja að forsendur fyrir þessu meginhlutverki sjóðsins séu brostnar. Það hlýtur þá að verða tekið til rækilegrar skoðunar.

Ég vil einnig nefna það sem mér finnst ekki hafa fengið mikla umræðu hér, þ.e. síðasta grein frv. þar sem kveðið er á um að fyrir lok ársins 2000 skuli leggja skýrslu fyrir hv. Alþingi um áhrif laga um stjórn fiskveiða. Í þessu sambandi er líka rétt að minna á auðlindanefndina sem er að störfum. Ég tel þetta vera afskaplega mikilvægan þátt þar sem mælst er til þess að á málefnalegan og yfirvegaðan hátt verði farið yfir áhrif, kosti og galla þessa fiskveiðistjórnarkerfis, ekki með upphrópunum eða lýðskrumi heldur á málefnalegan hátt og það lagt fyrir hv. Alþingi fyrir lok ársins 2000. Þá og ekki fyrr en þá geta menn síðan gripið til róttækari aðgerða ef ástæða er til. En það mat þarf að fara fram og ráð er fyrir því gert í þessu frv.

Verði þetta frv. samþykkt þarf í þeirri vinnu, sem hefst væntanlega og verður skilað fyrir lok árs 2000, að skoða ýmsa þætti, svo sem nýliðun í greininni, sjávarútveginum. Það þarf að taka til skoðunar úrkastið, einn af þeim þáttum sem hefur verið gagnrýndur í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Þar hljóta að koma til skoðunar hugmyndir eins og Samtök iðnaðarins hafa kynnt um auðlindagjald, um flokkun fiskiskipa o.s.frv. Það eru ótal þættir sem hljóta að verða teknir þarna inn.

En umræðan um fiskveiðistjórn fjallar yfirleitt um hvernig er veitt og mesta orkan og umræða fer í það. En ég held að við þessa skoðun hljóti líka að verða horft á hinn endann á sjávarútvegsstefnunni, nefnilega markaðsþáttinn sem með sanni má segja að sé í raun hið raunverulega upphaf sjávarútvegsstefnu: Hverjir eru markaðirnir og hvar eru þeir markaðir sem best verð gefa fyrir sjávarfang okkar? Síðan koma hinir þættirnir á eftir: Hvernig ætlum við að vinna og veiða þann afla sem við ætlum að útvega þeim mörkuðum sem hæst verðið gefur?

Herra forseti. Tími minn er senn á þrotum. Það er trú mín og sannfæring að frv. sé í fullu samræmi við niðurstöðu dómsins. Það er verið að leysa vanda dagsins í dag. Vissulega eru ýmis atriði sem hv. sjútvn. mun þurfa að taka þar á og skoða. Jafnframt hljótum við að bíða stærri úttektar þar sem lagt er heildarmat á áhrif þessa fiskveiðistjórnarkerfis og við þurfum að sjálfsögðu að halda ró okkar og yfirvegun meðan sú hlutlausa úttekt fer fram.

Við þurfum að vinna málefnalega og láta af loddaraskap. Það er brýnast af öllu að skapa hér festu í sjávarútvegi, tryggja sjómönnum, útgerðarmönnum, svo ekki sé minnst á byggðarlögin, þá festu sem þau þurfa á að halda til að stunda vinnu sína, nefnilega þá vinnu að sækja og skapa verðmæti í sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Efnahagslegur stöðugleiki er það besta sem hægt er að tryggja þjóðinni. Allir tilburðir til að ógna slíkum stöðugleika eru nánast landráð. Þjóðin kærir sig ekki um kollsteypur, hún skynjar góðærið sem sjávarútvegurinn hefur verið að færa henni á síðustu árum og hún vill halda áfram á þeirri braut. Það er hlutverk okkar, hv. alþingismanna, að sjá til þess að hún haldist á þeirri braut.