Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 18:17:34 (2634)

1998-12-18 18:17:34# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[18:17]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að í ræðu sinni hafi hv. þm. kannski afhjúpað þá pólitík sem Sjálfstfl. hefur rekið einmitt í þessari umræðu. Þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað fyrir flokkinn gera sér fyllilega grein fyrir því að menn eru í vondum málum. Menn hafa því ákveðið að beita þeirri pólitík að í stað þess að fjalla um þá stefnu eða það frv. sem þeir eru sjálfir með að auglýsa eftir einhverju frá öðrum. Og jafnvel þó að það finnist, virðulegi forseti, þá neita þeir að sjá það.

Pólitíkin er því einfaldlega þessi, virðulegi forseti: Bendum á einhverja aðra. Eins og einn hv. þm. gerði í dag. Bendum bara á Hæstarétt. Bendum bara eitthvað út í loftið. Berum ekki ábyrgð á þessu. (Gripið fram í: Austur eða vestur.) Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega kjarni málsins.