Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 18:45:56 (2639)

1998-12-18 18:45:56# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[18:45]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ummæli hv. 11. þm. Reykn. eru athygli verð. Annar vængur samfylkingarinnar flutti tillögu um það hér á liðnum vetri að setja á fót auðlindanefnd í þeim tilgangi að ná sáttum og ríkisstjórnarflokkarnir gengu inn á þessa hugmynd. Svo kemur hinn vængur samfylkingarinnar hér í dag og segir að það hafi aldrei verið hugmyndin með þessari nefnd að leita sátta um þessi mikilvægu mál. Þetta eru býsna merkileg skilaboð sem hv. þm. sendir og býsna athyglisvert í því ljósi að þessir tveir vængir samfylkingarinnar tala þarna hvor í sína áttina.

Varðandi hitt atriðið sem ég spurði um þá var ég ekki að leita ráða hjá hv. þm. Ég var aðeins að taka undir að það væri rétt og eðlilegt að greina í umræðu eins og þessari hvaða kostir væru fyrir hendi, þ.e. hvernig var efni dómsins og við hverju þarf að bregðast. Þegar menn hafa komist að þeirri niðurstöðu, sem getur verið mismunandi, er rétt að velta upp þeim kostum um viðbrögð sem eru fyrir hendi. Þetta taldi ég vera mjög mikilvægt til þess að málefnaleg umræða gæti farið fram.

Þess vegna var ég að inna hv. þm. eftir því hvort hann gæti sagt frá því hvaða kost hann hefði valið og hvaða leið hann vildi velja þannig að málefnaleg umræða gæti farið fram um mismunandi kosti. En hann kaus að lýsa því yfir að engin slík stefna eða enginn slíkur vilji væri til af hálfu samfylkingarinnar, það yrði að bíða, ég held, mörg ár eftir því að þeir hefðu tíma til að skoða það. Samfylkingin hefur flutt svona tillögur um skoðun á hverju þingi í fjögur ár og þeir hafa aldrei komist að niðurstöðu. Nú á enn að vísa þessu mörg ár fram í tímann. Það skapar ekki neina festu og neinn stöðugleika í þjóðfélaginu að vísa í slíkar framtíðarhugsanir. Það er ætlast til þess að menn gefi svör.