Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 19:08:51 (2642)

1998-12-18 19:08:51# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[19:08]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er í hópi þeirra sem hafa talið að skynsamlegt væri, út frá þeim rökum sem fram hafa komið og ýmsu því sem reifað hefur verið í umfjöllun um dóm Hæstaréttar, að hv. sjútvn. skoðaði lögin um stjórn fiskveiða í ljósi dómsins. Ég er í hópi þeirra. Mér hefur satt að segja fundist býsna margir stjórnarþingmenn hafa áhuga á því að taka eitt og annað upp af því tilefni að nú á að fara að breyta lögunum um stjórn fiskveiða. Ég ætla ekki að rekja það hér en mun gera það í ræðu minni síðar.

Mig langaði til að fá mat hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar á því sem dómur Hæstaréttar segir hér, með leyfi forseta:

,,Með þessu lagaákvæði er lögð fyrirfarandi tálmun við því að drjúgur hluti landsmanna geti, að öðrum skilyrðum uppfylltum,`` --- nú kemur það sem ég vil fá álit þingmannsins á --- ,,notið sama atvinnuréttar í sjávarútvegi eða sambærilegrar hlutdeildar í þeirri sameign sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru.``

Hæstiréttur leggur þetta sem sagt hvort á móti öðru að því er virðist að menn geti notið sama atvinnuréttar í sjávarútvegi eða sambærilegrar hlutdeildar í þeirri sameign sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru. Hvert er mat hv. þm. á þessari niðurstöðu Hæstaréttar? Hvernig telur hann að Alþingi Íslendinga geti mætt henni?