Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 19:10:59 (2643)

1998-12-18 19:10:59# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[19:10]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel einfaldlega að hér sé talað um að opna nánast allar gáttir, eins og ég gat um hér áðan, draga allar fleytur á sjó og segja við þjóðina: Gjörið svo vel, ef þið hafið áhuga þá er auðlindin þarna. (SvanJ: Eða?) Þarna er auðlindin.

Það er hins vegar dálítið merkilegt þegar talað er um að njóta atvinnuréttar í sjávarútvegi. Hvað er sjávarútvegur? Er það ekki fiskvinnslan í landinu? Er það ekki líka sjávarútvegur? Það er merkilegt að þessi dómur skyldi ekki fjalla um það líka að æskilegt væri að Reykvíkingar flyttu út á land og færu í fiskvinnslu svo þeir gætu notið þess að hafa þarna aðgang. Hér er talað um ,,fyrirfarandi tálmun``. Er einhver fyrirfarandi tálmun lögð á Reykvíkinga til að fara í fiskvinnslu úti á land? Nei. Það bara fæst ekkert fólk þangað.

En nú, af því að það er fullt af fólki á landinu sem segir: Ja, kvótinn. Einhverjir hafa eignast kvótann. Menn sjá milljónir detta í vasa útgerðarmanna og telja að hér sé slíkur afrakstur, eins og hv. þm. Ágúst Einarsson kom inn á, að hér eigi bara að leggja á auðlindaskatt --- þá getum við nánast setið heima hjá okkur og fengið peningana senda heim. Þetta er svo einfalt.

Fyrirfarandi tálmun, henni á að aflétta til þess að allir geti á sjó farið. En við vitum hvað það þýðir. Við vitum hvað það þýðir fyrir þá sem stunda þessa atvinnugrein og við vitum hvað það þýðir fyrir þjóðina og þjóðarbúið.