Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 19:12:54 (2644)

1998-12-18 19:12:54# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[19:12]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Aðeins fyrst um málfræði. Seinni liður orðsins sjávarútvegur er útvegur. Við vitum alveg hverjir það eru sem telja sig vera útvegsmenn. Hins vegar tala menn um fiskiðnað.

Þingmaðurinn svaraði ekki spurningu minni. Hann talaði um sama atvinnurétt og leyfði sér þar það sem í Svarfaðardal er kallað Guðnavinkur. (GHall: Er kallað hvað?) Guðnavinkur. Það er þegar menn fara lengstu mögulega leið að áfangastað og komast e.t.v. aldrei alla leið.

Ég bað hins vegar hv. þm. um að skoða líka seinni hluta þessarar setningar. Það er ekki bara ,,... notið sama atvinnuréttar í sjávarútvegi ...`` heldur kemur ,,... eða sambærilegrar hlutdeildar í þeirri sameign sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru.`` --- ,,eða``.

Þetta virðist vera lagt að jöfnu. Það sem mig langaði til að heyra var ekki þessi spurning um Reykvíkinga sem vildu ekki fara út á land að vinna í fiski, heldur miklu frekar hvernig hv. þm. skilur seinni hlutann, þ.e. þetta með sambærilega hlutdeild í þeirri sameign sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru.