Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 21:38:26 (2653)

1998-12-18 21:38:26# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[21:38]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Almenn fiskveiðistjórn við strendur Íslands á sér ekki langa sögu og þeir sem stundað hafa útgerð og sjósókn síðustu 30 árin eiga auðvelt með að tala af eigin reynslu um það hvernig þær aðferðir við stjórn veiðanna hafa reynst.

Viðurkennt er, herra forseti, að stjórn veiðanna sé nauðsynleg, en strax og það er viðurkennt verður að takmarka atvinnufrelsi landsmanna, en í 75. gr. stjórnarskrár Íslands stendur, með leyfi forseta:

,,Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.``

Ekki er að sjá í þeim dómi Hæstaréttar, sem varð til þess að þau frumvörp sem eru til umræðu voru lögð fram, að dómendur vefengi það að atvinnufrelsinu verði settar skorður með rökum. Dómurinn byggir því væntanlega frekar á því ákvæði í 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.``

Herra forseti. Ég vil í upphafi rifja lítillega upp hvers vegna 5. gr. fiskveiðistjórnarlaganna er eins og hún er í dag og einnig 7. gr. Þegar staðbundin sóknarstýring hófst á öldum áður var stjórnunin í því fólgin að þeir sem byggju næst miðunum hefðu ekkert forskot á þá sem væru lengst frá þeim en sæktu afla á sömu mið. Þess vegna fóru þeir í Garðinum seinna af stað í Garðssjóinn á vertíðinni en þeir sem reru frá ströndinni. Þá máttu aftur á móti allir róa sem gátu keypt sér bát og áttu lendingu eða gátu leigt sér lendingaraðstöðu eða notað með öðrum.

Stjórnarskráin var ekki til þegar þessar sértæku aðgerðir við sjósókn voru við lýði en þær umræður sem eiga sér stað núna leiða hugann að því hvernig fiskurinn hefur verið sóttur frá því að land byggðist og hverjir sóttu hann og deildu honum út. Þeir sem áttu skipin þá áttu aflann og deildu hlut hans til áhafnar sinnar á hverjum báti miðað við stöðu og ábyrgð um borð. Aflahlutdeildin var við lýði í öndverðu og þeim sem stunduðu veiðarnar því mismunað eftir stöðu sinni um borð með misháum aflahlut. Útgerðarmaðurinn og eigandi bátsins átti síðasta orðið um þá verðmætasköpun sem fylgdi á eftir veiðunum enda var það hann sem lagði út í fjárfestinguna.

Í kerfinu áður var ekkert til sem hét að höndla með óveiddan fisk í sjónum milli útgerða enda veiðar frjálsar, eins og fyrr segir, innan þeirra marka að eiga lendingu og bát. Þetta hefur í sjálfu sér ekkert breyst frá því sem áður var nema að nú þarf útgerðin ekki að eiga lendingu. Allir geta komist að í höfnum landsins gegn ákveðnu gjaldi.

Að veiða fiskinn og deila honum út til áhafnarinnar og koma síðan í verðmæti er á hendi útgerðarinnar, eiganda bátsins, eins og áður var. Þess vegna, herra forseti, er aflastýringarkerfið sem við lifum við í dag bundið við útgerðarmennina og eigendur skipanna en ekki aðra, eins og fiskvinnsluna, sveitarfélögin, verkalýðsfélögin eða að aflahlutdeildinni sé deilt út á hvern íbúa landsins, eins og sumir vilja.

Núverandi fiskveiðistjórnarkerfi er því að flestu leyti byggt á ellefu hundruð ára langri hefð þar sem eignarréttur útgerðarmannsins yfir aflanum hefur verið ótvíræður og sá eignarréttur hefur verið byggður á því að eiga skip. Því varð 5. og 7. gr. laga um stjórn fiskveiða til í því formi sem hún er í dag.

Þar sem viðurkennt er að takmarka þurfi veiðarnar í fiskstofnana við landið er augljóst að það verður að takmarka þær þannig að sóknarþunginn verði takmarkaður svo arðsemi veiðanna geti orðið einhver. Í því felst almannahagur því reynsla okkar af öðrum aðferðum við almenna stjórn veiðanna, eins og með sóknarstýringu, sem reynd var á árunum 1976--1983, gerði ekkert annað en að rýra kjör almennings og setti atvinnulíf á annan endann með óðaverðbólgu og stjórnleysi.

Með blandaðri stjórnunaraðferð aflamarks og sóknarstýringu er einnig slæm reynsla sem efldi ekki þjóðarhag eins og reynslan sýndi frá árunum 1984--1989. Óheft sóknargeta krókakarla til ársins 1995 hefur einnig sýnt okkur að sóknartakmarkanir með dögum eru ónothæfar, ég verð að segja því miður, því að rómantíkin frá því að afi gamli reri á sinni litlu trillu með barnabörnin hefur endurspeglast í útgerð þessara litlu báta. Að vera með lítinn bát er einnig mjög afstætt sé litið til afa gamla. Einn maður með færi er löngu liðin tíð. Nú er einn maður með minnst fjórar rafdrifnar rúllur um borð og fiskar á við átta menn.

Dómur Hæstaréttar hefur að mati færustu lögfræðinga því leitt til þess að síðustu leifar af trillurómantíkinni er liðin undir lok. Hér eftir verða engar veiðar mögulegar nema samkvæmt úthlutun á aflamarki í nánast allar tegundir fisks sem háðar eru aflatakmörkunum. Þau frumvörp sem hér eru til umræðu eru staðfesting á þeirri staðreynd.

Herra forseti. Að mínu áliti er mikil þjóðhagsleg nauðsyn að í framhaldi af þessum dómi verði allt gert til að tryggja að ekkert geti leitt til þess að stjórnkerfinu sem nú er notað við fiskveiðarnar, sbr. 7. gr. laga um stjórn fiskveiða, verði kollvarpað með öðrum dómi. Það er hlutverk löggjafans og tel ég að fyrstu aðgerðir til þess séu mjög ásættanlegar með þeim tveimur frumvörpum sem lögð eru fram af hæstv. sjútvrh.

Á þeim þarf þó að mínu mati að gera lítils háttar breytingar, m.a. þær að taka tillit til þess afla sem krókabátar á sóknarmarki öfluðu á þeim dögum sem þeim var úthlutað en ekki miða einungis við þann afla sem úthlutað var samkvæmt aflahlutdeildarpottinum. Í þessum útgerðaflokki tel ég einnig eðlilegt að miða aflaúthlutunina við aflareynslu hvers báts í stað þess að deila henni jafnt á alla bátana.

Ég tel einnig að aflamarksbátar undir tíu tonnum eigi að njóta þeirra fimm þúsund tonna sem úthlutað var sérstaklega til þess að rétta hlut þeirra árið 1995 en ekki til allra skipa eins og gert er ráð fyrir í bráðabirgðaákvæði III í frv.

[21:45]

Í framhaldi af þessum aðgerðum tel ég, herra forseti, að nauðsyn beri til, eins og ég sagði fyrr, að leita leiða til þess að tryggja aflahlutdeildarkerfið í sessi og mæta þeim kröfum sem koma fram um atvinnufrelsi og jafnræði eins og kostur er þegar sókn er takmörkuð vegna almannahagsmuna. Þar tel ég tvennt koma til greina. Í fyrsta lagi með aðgöngugjaldi að fiskimiðunum og í öðru lagi að allur fiskur verði settur á markað. Með aðgöngugjaldi tel ég fullnægt þeirri kröfu að almenningur fái greitt fyrir hlut sinn í auðlindinni sem er skilgreindur í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sem sameign íslensku þjóðarinnar. Það felst einnig í því sú viðurkenning að þegar slíkt gjald hefur verið innt af hendi megi útgerðarmaðurinn nýta hana í frjálsum viðskiptum og hámarka hagnaðinn. Í því fælist einnig sú viðurkenning að greitt er fyrir þá takmörkun af þeim sem einnig nýtir þjóðareignina og er með sérstökum hætti leyft í 75. gr. stjórnarskrárinnar með takmörkuðum atvinnurétti.

Að setja allan afla á markað tel ég vera brýna varnaraðgerð fyrir útgerðina vegna sérréttinda sinna að veiðunum. Það verði að gefa þeim hinum, sem njóta ekki sérréttindanna en hafa vilja og getu til að vinna fisk, kost á því. Með slíkri aðgerð tel ég mætt gagnrýni á 65. gr. stjórnarskrárinnar um að allir séu jafnir fyrir lögum.

Útgerðin hefur á síðustu árum gengið í gegnum miklar þrengingar vegna aflasamdráttar sem sér nú fram úr. Það opna kerfi sem notað hefur verið við að stýra veiðum við strendur landsins hefur skapað útgerðinni möguleika sem hún hefur nýtt sér, t.d. með úthafsveiðum. Þeir möguleikar hefðu ekki verið nýttir að öðrum kosti, herra forseti. Samfara þessum miklu breytingum hefur útgerðin fjárfest mikið og því mikið í húfi fyrir þennan helsta atvinnuveg þjóðarinnar að sátt náist um hann og hægt sé að sjá langt fram í tímann. Fyrir þjóð eins og okkur Íslendinga sem byggjum afkomu okkar á þessum atvinnuvegi varðar það almannaheill í landinu að þessi atvinnuvegur fái að þróast eðlilega.

Einar Benediktsson skáld sagði í Íslandsljóðum sínum:

  • Vissirðu, hvað Frakkinn fékk til hlutar?
  • Fleytan er of smá, sá guli er utar.
  • Hve skal lengi
  • dorga, drengir,
  • dáðlaus upp' við sand?
  • Þessi áfrýjunarorð Einars Benediktssonar frá því um síðustu aldamót eru okkur stöðug áminning um hve nauðsynlegt er þjóð okkar að fylgjast með og dragast ekki aftur úr. Stórsókn sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi síðustu ára hefur sýnt okkur og sannað að þar eru ótal sóknartækifæri ef greinin fær frjálsræði. Þau sóknarfæri má ekki drepa með miðstýringum, eða miðstýringarapparötum eins og Kvótaþingi, sem sett var á í fyrra, eða tilraunastarfsemi með því að kollavarpa íslenskum sjávarútvegi með úthlutun aflaheimilda á hvert mannsbarn eða með uppboði aflaheimilda á markaði.

    Alþingi Íslendinga verður að færa þau rök fyrir því fiskveiðistjórnarkerfi sem nú er notað sem því besta og því eina sem þekkt er sem það besta. Þannig getum við komið í veg fyrir annan dóm frá Hæstarétti sem gæti haft miklu alvarlegri afleiðingar en þær sem við stöndum frammi fyrir núna.

    Stjórnarandstaðan hefur haft tilhneigingu til þess, herra forseti, að gera þetta mál tortryggilegt í augum almennings og að núverandi ríkisstjórn hafi brugðist að þessu leyti. Ekkert er meira fjarri lagi að mínum dómi enda lögin um stjórn fiskveiða að stofni til frá því árið 1990 þegar Sjálfstfl. var í stjórnarandstöðu. Sjálfstfl. hefur þó stutt þessa aðferð við stjórn fiskveiðanna alla tíð þó að við höfum ekki staðið að þeirri ríkisstjórn sem lagði þetta fram á sínum tíma. Úrbætur á kerfinu þurfa þó alltaf að vera mögulegar því ekkert skapar þjóðinni meiri arðsemi af þjóðareigninni en frjálsræði, frjálsræði sem getur lyft þróun íslensks atvinnulífs í aðrar hæðir.