Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 21:50:01 (2654)

1998-12-18 21:50:01# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[21:50]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem er nú verið að ræða varðar fjöregg þjóðarinnar. Það frv. sem við erum að ræða er afleiðing hæstaréttardóms í máli Valdimars Jóhannessonar gegn íslenska ríkinu. Dómur aldarinnar, segja sumir.

Það má líka velta fyrir sér: Hvað með dóm þann sem felldur var í dag um að það sé í rauninni stjórnarskrárvarinn réttur ríkisstofnana til að fá að vera í friði í Reykjavík? Það má líka velta því fyrir sér hvað er að gerast þegar Hæstiréttur fellir hvern dóminn á fætur öðrum sem hefur svo alvarlegar afleiðingar sem ég sé fyrir mér að þessir dómar hafi og þá sérstaklega sá dómur sem við erum að ræða í dag í tengslum við það frv. sem er tillaga ríkisstjórnar og viðbrögð við niðurstöðu Hæstaréttar.

Kannski er fróðlegt að nálgast málið á svolítið annan máta en gert hefur verið og velta því fyrir sér hvað við erum að gera. Við erum að verja kerfi sem hefur skilað eftirfarandi árangri: Þorskstofn á Íslandsmiðum var mældur 1.214 þús. tonn árið 1977 og þá voru veidd 340 þús. tonn úr þeim stofni. 1983 var þorskstofninn mældur 795 þús. tonn og þá voru tekin úr honum 300 þús. tonn. 1990 var stofnstærðin mæld 835 þús. tonn, þá voru tekin 335 þús. tonn úr stofninum. 1996 var stofninn mældur 675 þús. tonn og þá voru tekin úr honum 182 þús. tonn. Þetta á við þorsk.

Merkilegt er að velta því fyrir sér hvað hefur áunnist á verndarárunum. Það er vont og erfitt að gera sér grein fyrir árangri af verndun fiskveiðistjórnarkerfisins. Það er líka hægt að miða við ýsu. Ef við miðum við 1977 þá var ýsustofninn mældur 170 þús. tonn. Þá voru tekin 40 þús. tonn. 1983 var stofninn mældur 195 þús. tonn. Þá voru tekin 66 þús. tonn. 1990 var stofninn mældur 212 þús. tonn. Þá voru tekin 67 þús. tonn. 1996 mælist stofninn einungis 155 þús. tonn og þá voru tekin 57 þús. tonn. Það er gaman að velta því fyrir sér: Hvar er verndunin fólgin í þessum aðgerðum?

Sama má segja um ufsa og taka t.d. árið 1977. Þá var stofninn mældur 273 þús. tonn. Þá voru tekin af stofninum 62 þús. tonn. Ætli það hafi verið ráðlegt? 1996 var stofninn 260 þús. tonn. Þá voru tekin 40 þús. tonn. Það er merkilegt að átta sig á því að stofnminnkun milli áranna 1990 og 1996 er úr 421 þús. tonni 1990 niður í 260 þús. tonn stofninn 1996. Hvar ætli fisverndunin hafi verið þar?

Það er hægt að ræða svona um stofnana. Það er fróðlegt að velta fyrir sér hver er árangur okkar af verndun varðandi síld. Það er kannski helst mælanlegt þar og hægt að sjá árangur af fiskverndun. Samt er það svo að síldin, sem átti að vera fyrir austan í miklu magni, er horfin, finnst varla. Það er ekki hægt að veiða síld, herra forseti, að neinu gagni lengur í nót, það verður að vera troll og það flottroll til þess að ná síldinni. Menn greinir á um hvort það er skaðlegt fyrir stofninn. Það er líklegt að svo sé.

Það má líka benda á hvernig komið er fyrir grálúðustofninum, sem við berum að sjálfsögðu ábyrgð á ásamt öðrum þjóðum. Það má líka velta því fyrir sér hvernig er komið fyrir löngustofninum, sem veiddur var á Franshól. Hann er ekki til lengur. Hvernig er með karfann á Reykjaneshrygg, en togarasjómenn, skipstjórar segja að sé alvarlega gengið á þann stofn og karfinn sé orðinn miklu smærri en var? Hvað er að frétta af smálúðunni í Faxaflóa sem fæst þar ekki lengur? Hvernig stendur á því? Hvar eru rannsóknirnar sem eiga að styðja við það kerfi sem við búum við?

Það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við hefur í för með sér marga galla. Margoft hefur verið rætt um þá galla. Kerfinu fylgir brottkast, kerfinu fylgir undanskot á afla á ýmsan hátt. Þetta hefur fylgt kerfinu, sérstaklega hefur það orðið ljóst á síðustu árum. Nauðsyn hefur verið að gera breytingu á kerfinu eða a.m.k. á framkvæmd stjórnunarinnar. Þó hefur ekki verið hlustað á eina einustu tillögu um lagfæringar, sem sést best á því að hæstv. sjútvrh. þarf ekkert að hlusta á það sem menn hafa að segja um framkvæmd fiskveiðistjórnarinnar, hvað þá að honum detti í hug að tala eitthvað um þau lög sem á að fara að setja.

(Forseti (ÓE): Ráðherrann er í húsinu og hefur nú verið hér í salnum mestan hluta dagsins.)

Herra forseti. Ég sé hann nú ekki.

(Forseti (ÓE): Ég sagði að hann væri í húsinu. Það er alveg óþarfi að snúa út úr þessu.)

Herra forseti. Ég er ekkert að snúa út úr hvorki einu né neinu. Ég hélt að hann væri kannski þarna á bak við.

En ég ætla ekki að leggja til, herra forseti, að kerfinu verði umsvifalaust kastað til hliðar. Ég vil a.m.k. reyna það í upphafi að bæta kerfið og ganga út frá ákveðinni viðmiðun varðandi þá sem keypt hafa kvóta, einnig varðandi þá sem stundað hafa atvinnurekstur sem byggist á kerfinu og hafa ekki stundað brask með aflaheimildir. Ég held nefnilega að hægt sé að miða aflaheimildir, sem miðast við afkomugrunn báta og skipa, og fyrst og fremst verði miðað við aflaverðmæti. Ef miðað væri við aflaverðmæti er ljóst að allur fiskur sem dreginn væri um borð í skipin kæmi á land.

En kerfið, eins og það er rekið með lögum og reglum, hefur a.m.k. að mínu mati komið í veg fyrir eðlilega endurnýjun flotans. Ég vil nefna að það er óeðlilegt að loðnuflotinn okkar skuli að meginstofni til vera orðinn yfir 30 ára gamall. Þeir eiga ekki möguleika á að koma með úrvalshráefni að landi vegna takmarkana sem hafa fylgt því að endurnýja þessi skip. (Sjútvrh.: Ég hélt þeir græddu svo mikið.) Þetta er eitt af því sem þarf að breyta í kerfinu, herra forseti. Hæstv. sjútvrh. skaut því inn að hann héldi að þeir græddu mikið. Það má vel vera. Það eru sumir sem græða mikið og aðrir sem græða lítið. Það eru sumir sem tapa. Þannig er það og hefur alltaf verið í fiskveiðum að sumum gengur vel og öðrum gengur miður.

En ástæðulaust er að hafa kerfið þannig að ekki sé hægt að endurnýja skip á eðlilegan máta og gefa mönnum frelsi til þess að ná í þann afla sem þeim er úthlutaður á þann hátt sem þeir vilja sjálfir helst gera, með þeim skipum sem þeir velja sér.

Ég efa ekki að dómur Hæstaréttar mun leiða til málaferla einmitt vegna reglna um rúmmetrauppkaupin þegar menn vilja endurnýja skip, ég er viss um það. Ég ítreka að ég tel eðlilegt að hver útgerðarmaður hafi sjálfstæði til að ákveða hvers konar skip hentar honum best til veiða. En það verður e.t.v. þannig að allir verði kvótasettir sem byggja afkomu sína á útgerð. Allt frelsi til að fiska á sem skemmstum tíma með hámarksafkomu, það er e.t.v. fyrir bí.

[22:00]

Ég vil meina það, herra forseti, og vildi gjarnan að hæstv. sjútvrh. velti því fyrir sér með mér að við verðum að skoða þessi mál mjög vel áður en við göngum til þess að ljúka þessari umfjöllun um þau frv. sem fyrir liggja.

Mín skoðun er sú að 4--6 vikur þurfi að lágmarki til að málið geti fengið eðlilega umfjöllun. Ég segi þetta, herra forseti, vegna þess að það er nauðsyn fyrir hv. sjútvn. að kalla til fjölmarga skipstjóra úr öllum greinum sjávarútvegs til viðræðna. Það er nauðsynlegt að kalla til útgerðarmenn eða hagsmunaaðila frá útgerð og það er líka nauðsynlegt að kalla til hagsmunaaðila fiskvinnslu án útgerðar. Ég tel að við verðum að gefa okkur tíma til að afgreiða þetta mál. Það gengur ekki að mínu mati að afgreiða málið eins og það er lagt fyrir í þeim frv. sem hér liggja fyrir til afgreiðslu. Ef þinginu er ætlað að klára þetta mál á einni viku, frá 5.--12. janúar, þá óttast ég að niðurstaðan geti orðið slæm. Það er þess vegna sem ég tel að gefa þurfi þessu máli góðan tíma.

Ég get vel viðurkennt að þetta mál er ekki auðvelt. Það má minna á að örskammt er síðan, nokkrar vikur eða mánuðir síðan þeir sem voru í dagakerfum voru að endurvelja sér. Nokkrir völdu aflahámark sem voru með tiltölulega litla reynslu í þorski. Hvaða bátar voru það? Jú, það voru bátar sem byggðu sína afkomu á meðafla sem var með úthlutunarheimild, þ.e. steinbítsveiðum og öðrum meðafla sem kom með þorskinum. Ég er hræddur um að illa fari fyrir öllum þeim aðilum sem völdu það kerfi sem m.a. þingmenn ráðlögðu mönnum að fara í og vera undir. Ástæðan fyrir því að þessir menn eru ekki með mikla reynslu er sú að viðmiðunarárin eru 1992, 1993 og 1994. Þetta vita allir.

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera hér í langan tíma, ég er búinn að koma því á framfæri sem ég tel vera mikilverðast, þ.e. að menn gefi sér góðan tíma. En vegna þess að ég er með í höndunum svar hæstv. sjútvrh. við fyrirspurn frá mér um smábátaútgerð, sem ég fékk fyrir nokkrum dögum, þá vil ég, með leyfi herra forseta, vitna í spurningu og svör og velta því fyrir mér hvernig þetta svar liti út ef það miðaðist við tímabilið frá 1. sept. 1999 til 1. sept. árið 2000.

Spurningin var svona:

,,Hyggst ráðuneytið kanna hvaða áhrif það mun hafa á afkomu þeirra fjölmörgu byggðarlaga sem hafa beinlínis þrifist á útgerð dagabáta ef ekkert verður að gert, í ljósi þess t.d. að þriðji hver þorskur sem landað var á Vestfjörðum síðasta sumar var úr smábátum?``

Og þegar sagt er ,,úr smábátum`` þá er átt við miklu meiri fjölda en bara dagabáta eða sóknarmarksbáta, eins og við höfum verið að ræða um. Þess vegna velti ég því fyrir mér að áhrif þessarar lagasetningar hlýtur að hafa verið skoðuð. Hvaða áhrif hefði sú lagasetning, sem við nú fjöllum um, á Vestfjörðum miðað við árið 1999 frá september eða fiskveiðiárið fram til 1. sept. 2000?

Hér er svarað í lokin:

,,Ljóst er því að ekki er ástæða til að ætla að landaður þorskafli úr krókabátum verði minni á Vestfjörðum á þessu fiskveiðiári en því síðasta ...`` --- þ.e. árið frá 1. sept. 1998 til 1. sept. 1999.

Það má vel vera rétt. En ég hygg að þegar þau frv. sem við erum að fjalla um yrðu að lögum og eins og þau eru sett fram, þá blasi ekkert annað við en hrun, hrun byggðanna á Vestfjörðum, hrun þorpanna, flótti, fólksflótti og eignatap þeirra aðila sem þar búa. Ég óttast þetta. Þess vegna er ég að fjalla um málið.

Mér finnst líka, herra forseti, að ég geti óskað eftir því við hv. sjútvn. að frv., sem ég lagði fram á Alþingi og hef ekki getað fengið að mæla fyrir, sem varðar meðafla, þ.e. grásleppu sem meðafla hjá netabátum, verði tekið fyrir og rætt um leið og frv. sem er fylgifrv. með frv. um breyting á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, að þetta litla frv. sem ég nefndi verði tekið með til skoðunar. Það er fyllsta ástæða til að gæta að hag þeirra aðila sem hafa lifað á allt að 75% afkomu sem byggist á grásleppuveiðum. Það horfir ekki vel fyrir þeim mönnum sem þannig hafa orðið að brauðfæða sig.