Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 22:36:07 (2659)

1998-12-18 22:36:07# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[22:36]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er mikill misskilningur að menn séu að vinna sér í haginn með þessum vinnubrögðum. Eins og kom fram hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur sér fyrir endann á umræðunni um sjávarútvegsmál og að mínum dómi er eðlilegt að þingfundi ljúki þegar þeirri umræðu lýkur. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta þingsins á því að nú er verið að boða til funda í þingnefndum, allshn. og umhvn., og það kemur ekki til greina af okkar hálfu sem heyrum stjórnarandstöðunni til að sækja slíka fundi meðan þingfundur stendur. Það er krafa okkar, ef slíkir fundir verða haldnir, að gert verði hlé á þingfundi. En sú krafa sem við sameinumst um er þessi: Að þingfundi ljúki eftir að sjávarútvegsumræðunni linnir og í annan stað að boðað verði til fundar með forseta þingsins og formönnum stjórnarþingflokkanna til að ræða þinghaldið. Við höfum fengið í hendur blaðsnifsi þar sem er að finna hugmyndir forseta um framhald þingsins, ekki einvörðungu á morgun eins og um hafði verið rætt heldur í næstu viku einnig. Á þessu blaði, á þessari skrá sem okkur er afhent er að finna ýmis deiluefni og við viljum fá um þetta umræðu og það þegar í stað.