Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 22:44:09 (2663)

1998-12-18 22:44:09# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[22:44]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að forseti geri réttast í því að átta sig á að það er allt upp í loft. Ekkert samkomulag er um tilhögun þinghaldsins og það liggur þegar í loftinu að hér verði fundað eftir helgi og jafnvel milli jóla og nýárs og strax í byrjun janúar og þá það. Þá er það bara þannig. Menn eiga þá ekkert að vera að væla yfir því, hátíðarnar fara í þetta og við höfum svo sem séð það svartara sum okkar, sem verið hafa hér lengi. Ég held við eigum ekkert að vorkenna okkur þess vegna úr því ríkisstjórnin vill hafa þetta svona, úr því hún vill keyra öll ágreiningsmál áfram með ofbeldi, hvert á fætur öðru og ekki leggja neitt af mörkum til að liðka fyrir samningum, þá hefur það sinn gang. Þess vegna held ég við eigum að funda hér með eðlilegum hætti, hafa þetta eðlilega vinnudaga, hóflega lengd á fundum og eðlilegan nætursvefn þar á milli og bara taka því sem að höndum ber í þessum efnum. Þess vegna held ég að forseti eigi að hafa vit á því, ég leyfi mér að segja það, orða það þannig, herra forseti, að taka vel skynsamlegum óskum af því tagi sem hér voru bornar fram og verða umsvifalaust við þeim. Það breytir engu í þessu ástandi hvort menn þumbast við einhverjum klukkutímum skemur eða lengur á hverju kvöldi og ræna sig einum, tveimur eða þremur tímum af nætursvefni. Það hefur ekkert sérstakt upp á sig. Ég held því, herra forseti, að langskynsamlegast sé að fara að kalla þetta gott í dag. Þetta er orðinn alveg sæmilegur dagur frá því í morgun og nú er að nálgast miðnætti og er þó ekki allt búið enn því að nú eru boðaðir nefndarfundir, er það ekki, herra forseti? Þetta er það verklag sem menn vilja hafa á hlutunum og svona vilja menn birta þjóðinni þingstörfin rétt fyrir hátíðarnar og þá það. Það er alveg ljóst hver ber ábyrgðina á þessu og hver ræður. Það er ríkisstjórnin með sínum ofsa í að knýja öll þessi mál í gegn.

Herra forseti. Ég fer eindregið fram á það að forseti geri a.m.k. fundarhlé til að menn geti aðeins talað saman og svo sé reynt að láta eitthvað liggja fyrir til dags eða tveggja í senn um það sem fram undan er á meðan þetta ástand varir.