Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 22:52:16 (2670)

1998-12-18 22:52:16# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[22:52]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Forseti hefur lagt til að þingfundi verði haldið áfram, að menn verði að vinna sér í haginn og halda áfram með þá löngu dagskrá sem er á borðum okkar. Ég vek athygli á því að við erum stödd við þriðja dagskrármál. Forseti segir við okkur að ganga þurfi til verka og á þessum árstíma viti þingmenn það. Það sem við þingmenn stjórnarandstöðu vitum og höfum þekkt er gott samstarf um þingstörfin þegar lokin nálgast fyrir jól eða á vorin.

Herra forseti. Við áttum góðan fund með þingflokksformönnum og forseta eftir hádegið í gær. Við lögðum drög að störfum þingsins eins og þau mundu verða í gær og í dag. Áður en dagurinn var að kveldi kominn var búið að gjörbreyta þeirri áætlun og samskiptin við stjórnarandstöðu komin í tilskipanastíl.

Herra forseti. Þannig gengur maður ekki til verka á hv. Alþingi. Það gengur ekki að okkur séu sendir miðar þar sem fram kemur að mæta eigi kl. 10 í fyrramálið, okkur sé sagt að hér eigi að vera fram eftir nóttu, á sama tíma eiga menn að mæta á fund í umhvn. eða allshn. Slíkt gengur aðeins þegar gott samstarf er um þinghaldið. Það gerist í sátt um að koma þurfi málum áfram, að nefndir koma saman til að liðka fyrir.

Herra forseti. Það er mikill misskilningur ef stjórnarliðar halda að þeir hafi svo sterka stöðu og mikil völd að hér verði einfaldlega valtað yfir stjórnarandstöðuna eins og hún hafi ekkert að segja. Lýðræði er ekki bara meirihlutavald þeirra sem setja lögin. Lýðræði er skikkanlegt samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu um vinnubrögð á Alþingi. Menn mega ekki rugla þessu tvennu saman. Lýðræði er ekki vald annars helmingsins yfir hinum, aldeilis ekki, herra forseti.

Ég mótmæli harðlega þessum grófu vinnubrögðum. Við óskum eftir að nú þegar verði fundað um störf þingsins, ekki eftir að næsti ræðumaður hefur talað. Forseti hefur sagt að aðeins einn ræðumaður sé á mælendaskrá. Það er nokkuð sem gæti breyst. Við óskum eftir því að fundurinn verði núna og við okkur rætt eins hjá skikkanlegu fólki á almennilegum þjóðþingum.