Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 23:03:47 (2675)

1998-12-18 23:03:47# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[23:03]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held það væri skynsamlegast að gera núna hlé á umræðum til að reyna að ná samkomulagi. Það er hægur vandi fyrir þá sem vilja og eiga eftir að tjá sig í því dagskrármáli sem nú er til umræðu að gera svo, ef menn endilega vilja það. En það er náttúrlega ekki leiðin til þess að stuðla eins fljótt og verða má að samkomulagi hér í þinginu.

Ég ítreka þær tvær spurningar sem ég bar fyrir hæstv. forseta áðan. Ég spurðist fyrir um það sem þingmaður, hvað hefði orsakað það að samkomulagi sem var í burðarliðnum um miðjan dag í gær hefði verið hrundið og hver hefði gert það. Ég óskaði eftir að fá að vita það sem almennur þingmaður en ekki að fá einhverjar upplýsingar um það á fundi sem ég á enga möguleika á að sitja. Ég ítreka því spurninguna við hæstv. forseta. Getur forseti ekki svarað því hvers vegna samkomulag, sem stjórnarandstaðan var reiðubúin að standa að í gær og er skynsamlegt og ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum hagkvæmt, var ekki staðfest. Ef ég get ekki fengið svar við þeirri spurningu öðruvísi en einhvers staðar í lokuðu herbergi þar sem ég og fleiri þingmenn eiga enga möguleika á að hlýða á umræður, þá vildi ég gjarnan að forseti skýrði það fyrir mér.