1998-12-19 00:22:27# 123. lþ. 45.16 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv. 160/1998, Frsm. meiri hluta KÁ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[24:22]

Frsm. meiri hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá meiri hluta félmn. en þann meiri hluta skipa auk mín Kristján Pálsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Magnús Stefánsson, Siv Friðleifsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir með fyrirvara.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vernd barna og ungmenna vegna nýrra lögræðislaga, nr. 71/1997, þar sem sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Núgildandi lög gera nokkurn greinarmun á ákvæðum sem gilda um börn annars vegar og ungmenni hins vegar, m.a. með tilliti til þess að foreldrar fóru í tíð eldri lögræðislaga einungis með forsjá barna til 16 ára aldurs. Þykir nauðsynlegt að breyta því á þann veg að með hugtakinu börn í lögunum verði átt við einstaklinga að 18 ára aldri. Er þessi málnotkun í samræmi við ákvæði barnalaga og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir nýju ákvæði um réttindi barna við málsmeðferð þar sem réttur þeirra til að tjá sig er aukinn í samræmi við aldur og þroska. Loks er lagt til að ákvæði núgildandi laga um skipun talsmanns verði rýmkuð.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að orðið ,,vaxandi`` í b-lið 1. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins verði fellt brott.

Í öðru lagi er lagt til að í c-lið 27. gr. komi fram hvaða málslið 4. mgr. breytingin nái til. Þar er einungis verið að samræma texta.

Í þriðja lagi er lagt til að 29. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að lögð verði til sams konar breyting á fyrirsögn 54. gr. laganna og öðrum fyrirsögnum þeirra.

Í fjórða lagi er loks lagt til að á eftir orðunum ,,eða ungmenna`` í 34. gr. komi: hvarvetna.

Eins og ég nefndi áður, hæstv. forseti, rita allir nefndarmenn undir þetta að einum undanteknum.