1998-12-19 00:28:08# 123. lþ. 45.16 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv. 160/1998, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[24:28]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. félmn. fyrir greiða og góða afgreiðslu á þessum málum sem hér hefur verið mælt fyrir, einum fimm eða sex, nú í röð. Það eru engin djúpstæð ágreiningsmál en það má svo sem búa til ágreining út af öllu ef menn það vilja.

Ég get að mörgu leyti deilt skoðunum hv. þm. Péturs Blöndals um frv. um lögheimili. Ég tel að þau lög séu allt of þröng. En það var verið að bregðast við af sérstöku tilefni því að búið er að hækka sjálfræðisaldurinn og verður þess vegna til samræmis að breyta öðrum lögum.

Hins vegar tel ég að vel komi til greina að fara í vandaðri og þá betur undirbúna endurskoðun á lögheimilislögunum. Þetta vil ég að komi fram og reyndar taka það fram að landið er orðið að einu vinnusvæði og það er algerlega óheimilt að krefjast lögheimilisflutninga vegna atvinnu. (Gripið fram í.) En það er óheimilt að gera það.

Það er líka rétt að ég hef alveg sama smekk og hv. þm. á hvað er barn og hvað er ungmenni en neyðist til þess að viðurkenna að skynsamlegt er að hafa samræmi í lagamáli þannig að þetta ungmennanafn og þessi ungmennakenning er nú orðin bannvara og það er ekkert að gera nema beygja sig undir það. Jafnframt vil ég geta þess barnaverndarlögin eru í endurskoðun. Þeirri endurskoðun hefur miðað hægar en ég óskaði. Ég hefði gjarnan viljað leggja fram frv. fyrir þinglok í vor þannig að ný barnaverndarlög kæmust til umræðu í þjóðfélaginu. Því miður get ég ekki gefið fyrirheit um það. Ég vonast eftir því en ég er ekki viss því þetta er ákaflega vandasöm og viðkvæm lagasetning eins og annað sem viðkemur börnum. Hins vegar get ég ekki fallist á að barnaverndarnefnd sé óvinur barnsins. Ég er nærri viss um að barnaverndarnefndir starfa yfirleitt með hagsmuni barnanna í huga. Ég tel hins vegar að í sumum tilfellum geti skapast óþægilega mikil nálægð. Það þarf að styrkja barnaverndarnefndinar og þær þurfa að hafa í sumum tilfellum a.m.k. faglegri vinnubrögð og rýmri heimildir til að grípa inn í þar sem ástæða er til.

Ég tel að það þurfi að hugleiða þessar vangaveltur hv. þm. í endurskoðun á barnaverndarlögunum eða taka afstöðu til þeirra í sambandi við hana. Mér líst ekki á að umboðsmaður barna fari að tilnefna réttargæslumann fyrir börnin. Ég tel að frekar eigi að taka afstöðu til þess atriðis í barnaverndarlögunum þegar það frv. kemur til meðferðar á Alþingi.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, vil ég þakka hv. félmn. fyrir gott samstarf og þá sérstaklega formanni hennar, hv. 14. þm. Reykv.