Fjáraukalög 1998

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 10:44:37 (2710)

1998-12-19 10:44:37# 123. lþ. 46.14 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv. 162/1998, Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[10:44]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frhnál. meiri hluta fjárln. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1998.

Í ræðu minni við 2. umr. um frv. kom fram að fjallað hafði verið um nokkur mál í nefndinni sem frestað var til 3. umr. að taka ákvörðun um. Umfjöllun um þau mál er nú lokið og leggur meiri hluti nefndarinnar til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum við 3. gr. frv. sem gerðar eru tillögur um á þskj. 548, en þær nema alls 770,1 millj. kr. Auk þess er lögð til ein breyting við 7. gr. fjárlaga þessa árs. Einstakar brtt. eru skýrðar í athugasemdum með álitinu og mun ég fara yfir þær hér á eftir.

[10:45]

Æðsta stjórn ríkisins. Farið er fram á að framlag til Vestnorræna ráðsins verði hækkað um 2,3 millj. kr. til að ljúka uppgjöri fyrir vestnorrænu æskulýðsráðstefnuna sem haldin var á Íslandi sl. sumar.

Menntamálaráðuneyti. Lögð er til tímabundin fjárveiting til Skíðaskólans í Kerlingarfjöllum til að greiða fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu skólans.

Landbúnaðarráðuneyti. Við 2. umr. fjárlaga var samþykkt að hækka framlag á lið 1.10 Bændasamtök Íslands, uppbætur á lífeyri um 9,6 millj. kr. vegna greiðslna í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í fjárlagafrv. var búið að gera ráð fyrir þessum kostnaði á viðfangsefni 1.01 Bændasamtök Íslands og því er lagt til að liðurinn verði lækkaður um sömu fjárhæð.

Þá er lagt til að framlag að fjárhæð 4,6 millj. kr. vegna aukinna greiðslna í lífeyrissjóð af launum starfsmanna sem fært var af misgáningi á viðfangsefni 1.95 Héraðsbúnaðarsambönd, uppbætur á lífeyri við 2. umr. frv. verði flutt á viðfangsefnið 1.92 Héraðsbúnaðarsambönd. Engin breyting verður á útgjöldum ríkissjóðs við þá millifærslu.

Sjávarútvegsráðuneyti. Lagt er til að veittur verði 4 millj. kr. styrkur á þessu ári til gerðar sjónvarpsþáttanna Aldahvörf. Heildarkostnaður er áætlaður 10 millj. kr. og dreifist hann á þrjú ár. Sótt er um 3 millj. kr. í frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 og gert er ráð fyrir að lokagreiðsla verði á árinu 2000. Þáttaröðin á að fjalla um sjávarútveg og verður hún sýnd í ríkissjónvarpinu aldamótaárið 2000 sem framlag stofnunarinnar til höfuðatvinnuvegar þjóðarinnar á liðinni öld.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Lagt er til að launagjöld héraðsdómstóla verði hækkuð um 5,7 millj. kr. vegna úrskurðar Kjaradóms um laun dómstjóra og héraðsdómara sem gildir frá 1. júlí 1998. Sambærileg tillaga er gerð við 3. umr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1999.

Gerð er tillaga um að framlag til viðfangsefnisins 1.10 Ýmis löggæslukostnaður hækki um 2,2 millj. kr. vegna kostnaðar við samkomulag Reykjavíkurborgar og dómsmálaráðuneytisins um uppsetningu öryggismyndavéla í miðborginni.

Félagsmálaráðuneyti. Lagt er til að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins verði veittar 7 millj. kr. greiðslu á uppsöfnuðum rekstrarhalla vegna aukinna umsvifa.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Lagt er til að framlag til Ríkisspítala hækki um 250 millj. kr. til að greiða rekstrarhalla á árinu 1998. Framlaginu er ætlað að létta greiðsluvanda spítalans þannig að hann eigi auðveldara með að halda rekstrinum í jafnvægi á árinu 1999.

Lagt er til að framlag verði hækkað til Sjúkrahúss Reykjavíkur um 250 millj. kr. til að greiða halla á rekstri árið 1998. Er framlagið ætlað til að létta greiðsluvanda spítalans þannig að auðveldara verði að halda rekstrinum innan ramma fjárlaga á árinu 1999.

Lögð er til 22 millj. kr. hækkun á framlagi til kaupa á búnaði fyrir Heilsugæslustöðina í Kópavogi. Húsið er nú tilbúið til notkunar en heimildir skortir til kaupa á búnaði til að taka það í fulla notkun.

Lagt er til að fjárheimild liðarins Framkvæmdasjóður aldraðra hækki um 25 millj. kr. þar sem endurskoðuð áætlun um ríkistekjur sem eiga að renna til sjóðsins bendir til þess að þær verði nokkru hærri en ætlað var við setningu fjárlaga fyrir árið 1998.

Farið fram á 299,3 millj. kr. hækkun á liðnum Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Þar er lagt til að fjárveiting til viðfangsefnisins Ýmis framlög verði alls hækkuð um 295,3 millj. kr. Þar er í fyrsta lagi um að ræða 251,9 millj. kr. framlag til að mæta áhrifum af nýlegum aðlögunarsamningum sem gerðir hafa verið við ýmis félög háskólamenntaðra starfsmanna á heilbrigðisstofnunum, svo sem meinatækna, röntgentækna, líffræðinga, sjúkraþjálfara o.fl., umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárlagafrv. Sundurliðun framlagsins á einstakar stofnanir er sýnd í sérstöku yfirliti I með breytingartillögum. Sambærileg tillaga er gerð við 3. umr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1999.

Í annan stað er gerð tillaga um 34,3 millj. kr. hækkun í kjölfar endurmats á launakostnaði heilbrigðisstofnana vegna úrskurðar kjaranefndar um laun heilsugæslulækna. Við gerð mats sem lagt var til grundvallar í fjáraukalagafrv. 1998 lágu ekki nægilega skýrt fyrir forsendur um aukna þörf fyrir afleysingar sem leiðir af auknum rétti heilsugæslulækna til vaktafría. Þær forsendur hafa nú verið endurskoðaðar. Þá hefur kjaranefnd breytt viðmiðunum í fyrri úrskurði um einingagreiðslur með tilliti til fjölda íbúa á hvern lækni. Sundurliðun fjárveitingarinnar á einstakar stofnanir er sýnd í sérstöku yfirliti III. Sambærileg tillaga er gerð við 3. umr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1999.

Þá er í þriðja lagi gerð tillaga um 9,1 millj. kr. fjárveitingu sem skipt verði á milli hjúkrunarheimila og daggjaldastofnana í samræmi við sundurliðun í sérstöku fylgiskjali. Hækkunin er ætluð til að mæta endurmati á áhrifum af kjarasamningum lækna umfram það sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í fjárlagafrv. Aukningin samkvæmt endurmatinu er almennt minni háttar þar sem vægi launagreiðslna til lækna er fremur lágt í heildarlaunagjöldum þessara stofnana. Sambærileg tillaga er gerð við 3. umr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1999. Sundurliðun fjárveitingarinnar á einstakar stofnanir er sýnd í sérstöku yfirliti II.

Loks er gerð tillaga um 4 millj. kr. fjárveitingu í verkefni til að fækka slysum á börnum og unglingum. Óskað er eftir 7 millj. kr. fjárveitingu í frv. til fjárlaga fyrir árið 1999. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki árið 2000. Slys á börnum og unglingum eru hlutfallslega fleiri hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Ætlunin er að bregðast við þessari þróun með átaki sem leiði til fækkunar slysa með því að samræma krafta þeirra er koma að verki, skipuleggja skráningu slysa á börnum og unglingum, samhæfa fræðslu og forvarnir og veita ráðgjöf um slysavarnir barna. Fræðslu- og kynningarstarf vegur þungt í útgjöldum verkefnisins. Gert er ráð fyrir ýmsum almennum kostnaði við rekstur öryggismiðstöðvar, svo sem húsaleigu og kostnaði af skrifstofuhúsnæði. Ráðinn verður starfsmaður í fullt starf til að hrinda átakinu í framkvæmd.

Fjármálaráðuneyti. Í liðnum Launa- og verðlagsmál er lagt til að falli niður 120 millj. kr. fjárheimild sem við framlagningu frv. var ætluð til að mæta áætluðum útgjöldum vegna endurmats á launakostnaði hjá framhaldsskólum. Þau útgjöld reyndust vera metin á 113,6 millj. kr. og voru afgreidd með tillögu undir liðnum 02-319-1.40 Framhaldsskólar, óskipt við 2. umr. frv.

Samgönguráðuneyti. Lagt er til að framlag til nýframkvæmda í vegagerð verði lækkað um 45 millj. kr. en á móti hækkar framlag til yfirstjórnar um 15 millj. kr. og til ferja og flóabáta um 30 millj. kr. Millifærslan er ráðstöfun á 119 millj. kr. hækkun markaðra tekna til vegamála sem áætlað er að falli til á þessu ári. Þær 74 millj. kr. sem eftir standa eru vegna tveggja þátta. Annars vegar er lagt til að 40 millj. kr. framlag verði veitt til ferðamannaleiða og skiptist jafnt á kjördæmi eins og fyrirhugað er með framlag ársins 1999. Hins vegar er gert ráð fyrir að rekstrargrunnur og greiðslugrunnur á þessu ári verði ekki sá sami og er lagt til að 34 millj. kr. fari til jöfnunar á þeim mismun. Þar með eru gjöld löguð að áætluðum tekjum á rekstrargrunni en gert er ráð fyrir þeim fjármunum í vegáætlun.

Hækkun framlags til yfirstjórnar Vegagerðarinnar um 15 millj. kr. fer til þriggja verkefna á sviði ferðamála. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að 5 millj. kr. renni til upplýsingamiðstöðvar Ferðamálaráðs innan lands. Í öðru lagi er lagt til að veittar verði 5 millj. kr. til skrifstofu Ferðamálaráðs í New York vegna ársins 2000. Að lokum er lagt til að veittar verði 5 millj. kr. til samstarfs við landafundanefnd vegna ársins 2000. Framlagið er hluti af ráðstöfun á 119 millj. kr. hækkun markaðra tekna til vegamála sem áætlað er að falli til á þessu ári.

Gert er ráð fyrir að framlagi til ferja og flóabáta sem hækkar um 30 millj. kr. verði varið til smíði nýrrar Hríseyjarferju. Heildaráhrif breytinga á þessum lið eru engin.

Lagt er til að framlag til rekstrar Flugmálastjórnar hækki um 6,9 millj. kr. í kjölfar endurmats á hækkun lífeyrisiðgjaldagreiðslna vegna skekkju í reikniforsendum fyrir hækkun framlags við afgreiðslu fjárlaga ársins 1998. Samsvarandi tillaga er gerð við 3. umr. fjárlaga fyrir árið 1999.

Þá er lagt til að framlag Íslands til ICAO hækki um 0,3 millj. kr. í kjölfar endurmats á hækkun lífeyrisiðgjaldagreiðslna af sömu ástæðum og ég hafði greint fyrr frá.

Lagt er til að framlag til reksturs flugvalla hækki um 11 millj. kr. í kjölfar endurmats á hækkun lífeyrisiðgjaldagreiðslna vegna skekkju í reikniforsendum.

Iðnaðarráðuneyti. Farið er fram á 1,5 millj. kr. hækkun á liðnum Iðja og iðnaður. Vegna stækkunar álvers hefur fjármálaráðherra gert samning við Hafnarfjarðarbæ um helmingshækkun á leigugjaldi vegna vatnsréttinda sem Ísal hefur í landi Straums við Hafnarfjörð. Hækkunin gildir frá 1. janúar 1997 og því þarf að greiða frá þeim tíma.

Umhverfisráðuneyti. Undir liðnum Ýmis verkefni er lagt til að til rannsókna á botndýrum á Íslandsmiðum verði veitt 4 millj. kr. aukafjárveiting til að koma verkefninu á réttan kjöl og er um uppsafnaðan vanda að ræða. Jafnframt er lagt er til að gerður verði samningur milli Sandgerðisbæjar og ríkissjóðs um kostnaðarskiptingu vegna þessa verkefnis.

Lagt er til að Náttúruvernd ríkisins verði veittar 4 millj. kr. vegna uppgjörsmála sem tengjast yfirtöku á verkefnum Náttúruverndarráðs.

Þá hef ég lokið við að gera grein fyrir þeim tillögum sem meiri hluti fjárln. gerir við frv. til fjáraukalaga en auk þess vil ég nota tækifærið og mæla fyrir brtt. sem ég flyt á þskj. 574 ásamt hv. þm. Sturlu Böðvarssyni. Það eru breytingar á sundurliðun 2 við daggjaldastofnanir til Reykjalundar í Mosfellsbæ og í henni felst hækkun upp á 15 millj. kr. Forsendur þessarar hækkunar bárust okkur ekki fyrr en við höfðum lokið störfum við nál. Þær upplýsingar sem við fengum um stöðu Reykjalundar voru þess eðlis að óhjákvæmilegt var að leggja til þessa fjárhæð svo tryggja mætti rekstur stofnunarinnar.

Undir nál. skrifa Jón Kristjánsson, Sturla Böðvarsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Árni Johnsen, Árni M. Mathiesen, Hjálmar Jónsson, Ísólfur Gylfi Pálmason og Kristinn H. Gunnarsson.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns nema þessar brtt. um 770,1 millj. kr. en eftir 2. umr. fjárlaga er tekjujöfnuður í -4.840,9 millj. kr. Þessi upphæð bætist við þennan neikvæða tekjujöfnuð en umræða um fjáraukalögin í heild fór fram við 1. og 2. umr. Ástæður þessa neikvæða tekjujöfnuðar eru bókfærðar lífeyrisskuldbindingar og ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu í framsögu minni nú.