Fjáraukalög 1998

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 11:32:24 (2716)

1998-12-19 11:32:24# 123. lþ. 46.14 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv. 162/1998, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[11:32]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykn. fyrir málefnalega ræðu en tvennt vildi ég gera að umtalsefni vegna orða hennar. Annars vegar var vakin athygli á neikvæðum tekjujöfnuði ríkissjóðs í fjárlögum ársins 1998 að gefinni afgreiðslu fjáraukalaga. Af því tilefni vil ég vekja athygli á því að á rekstrargrunni eru færðar lífeyrisskuldbindingar, eins og margsinnis hefur komið fram, upp á 9 milljarða kr. Ef við værum að fjalla um fjárlög ársins 1998 á greiðslugrunni, þá værum við hins vegar með verulegan afgang á ríkissjóði. Ég vildi vekja athygli á því, ekki vegna þess að hv. þm. hafi farið með rangt mál heldur vakti hún athygli á því sem hér stendur. Ég bendi á að munurinn er verulega mikill á rekstrargrunni og greiðslugrunni.

Hitt atriðið sem ég vildi gera að umtalsefni er að hv. þm. ræddi um vanda ungs fólks sem er að byggja eða kaupa húsnæði. Þetta hefur náttúrlega verið erfitt viðfangsefni alla tíð. Vandinn í húsnæðiskerfinu hefur verið töluverður og ekki síst það sem snýr að sveitarfélögunum. Vegna þess vil ég vekja athygli á því að í undirbúningi eru samningar við sveitarfélögin til að auðvelda þeim að komast út úr þeirri krísu sem þau hafa verið í vegna félagslega íbúðakerfisins. Gert er ráð fyrir því að á næsta ári verði gengið til samninga við sveitarfélögin til að taka á þeim vanda. Ég geri ráð fyrir að þær lausnir muni auðvelda sveitarfélögum og um leið unga fólkinu og þeim sem þurfa að kaupa eða leigja húsnæði að komast í gegnum þær þrengingar sem margir hafa lent í.