Fjáraukalög 1998

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 11:39:24 (2719)

1998-12-19 11:39:24# 123. lþ. 46.14 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv. 162/1998, Frsm. minni hluta SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[11:39]

Frsm. minni hluta fjárln. (Sigríður Jóhannesdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var sérkennileg ræða. Hv. þm. telur að vandi ungs fólks í húsnæðismálum og í peningamálum stafi af því að það hafi farið út í að kaupa sér húsnæði til að gera út á vaxtabæturnar. (PHB: Margir gera það.) Þvílíkt hugmyndaflug. Í þeim hópi ungs fólks sem ég þekki er enginn sem hefur keypt sér húsnæði til annars en að búa í því. Unga fólkið hefur þurft stað til að búa á með börnin sín. Það hefur farið í bankann sinn og látið meta tekjustöðu sína og því hefur verið sagt að það gæti keypt húsnæði sem kostaði svo og svo mikið. Reynslan hefur hins vegar orðið sú að þetta fólk hefur í mörgum tilfellum ekki getað staðið undir þessum skuldbindingum vegna þess að framfærslukostnaðurinn er meiri en reiknað er með. Þess vegna lendir það í endalausum vandræðum. Það fer að framlengja og framlengja og svo endar það með því að allt hrynur. Þá þarf fólk, eins og þessi ungu hjón sem ég var að segja frá áðan, að fara með börnin sín þrjú út úr íbúðinni, lítilli íbúð, eftir að hafa árum saman lagt nótt við dag og sett alla sína peninga í þetta. Þau hafa engan stað að búa á vegna þess að framfærslukostnaðurinn hefur verið miklu meiri heldur en nokkurn tíma var reiknað með í grunninum.

Hækkun skatta á fyrirtæki. Ég hef ekki áhyggjur af því þó að fyrirtæki borgi skatt af hagnaði á sama hátt og einstaklingar borga tekjuskatt. Ég tel að fyrirtæki eigi ekki að hafa sérstaka möguleika á að draga frá gamalt uppsafnað tap sem þau hafa kannski keypt einhvers staðar á uppboðum og komast þannig hjá því að borga tekjuskatt. Þessi fyrirtæki gera ekkert sérstakt við þessa peninga fyrir fólkið sem vinnur hjá fyrirtækjunum, um það þekki ég ekki dæmi.