Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 12:52:26 (2725)

1998-12-19 12:52:26# 123. lþ. 46.15 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[12:52]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég byrji á byggingaráformum Alþingis á þetta við um þjónustuskála sem ætlunin er að byggja við hliðina á þinghúsinu. Áætlaður kostnaður við byggingu hans er 400 millj. kr. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um frekari nýbyggingar fyrir Alþingishúsið. Á okkar borði er ekkert frekar um það.

Varðandi hrossin er um beiðni frá Landssambandi hrossabænda að ræða. Ofbeit hrossa hefur verið vandamál að undanförnu og samkvæmt þeirri umsókn sem fyrir liggur er ætlunin að flytja þetta kjöt út til þróunarhjálpar eða hjálparstofnana og greiða fyrir því að hrossum verði fargað. Eins og ég sagði í framsöguræðu minni er þetta til að sporna við ofbeit hrossa.