Vernd barna og ungmenna

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 13:53:04 (2729)

1998-12-19 13:53:04# 123. lþ. 46.12 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv. 160/1998, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[13:53]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég hef borið fram fyrirspurn um það hversu oft hafi verið skipaðir talsmenn í málefnum barna samkvæmt lögunum um börn og unglinga og samkvæmt barnalögum og það er afar sjaldgæft, og ég talaði um það við 1. umr. þessa máls að það ætti e.t.v. að setja það sem skyldu að skipa börnum talsmann.

Við kölluðum á fund nefndarinnar fulltrúa frá barnaverndarnefndum og um þetta var umræða. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé tímabært miðað við þetta frv. sem er takmarkað breytingafrv. að fara í jafnítarlega breytingu og felst í því að gera að skyldu að skipa börnum talsmenn. Hins vegar er ljóst að það á að gera það þegar um forræðisdeilur er að ræða en það er breyting á barnalögum. Sú tillaga sem hér liggur fyrir, að það sé umboðsmaður barna sem skipar talsmann í þeim tilfellum sem það er gert samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna brýtur fullkomlega í bága við lög og ég er því andvíg.