Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 14:36:47 (2735)

1998-12-19 14:36:47# 123. lþ. 46.15 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. minni hluta GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[14:36]

Frsm. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég andmæli því ekki að fjármunir voru lagðir til margra góðra verka og ekki set ég mig á móti því. Ég hef hins vegar varað við og gerði einnig við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1998, þegar gert var ráð fyrir tekjuafgangi upp á 133 millj., að tekjurnar væru vanáætlaðar. Það kom í ljós. Tekjurnar voru vanáætlaðar um fleiri milljarða.

En hvað kemur síðan á daginn? Í ljós kemur að það er halli á árinu 1998 upp á 9 milljarða. Það eru komnar fram tölur upp á 5 milljarða. Það er þetta sem ég óttast, hv. formaður.

Ég leyfi mér hins vegar, af því að tækifæri gefst til þess, að fara með þriðja erindið og það er svona:

  • Í dag er ég glaður --- í dag vil ég syngja,
  • og dansa til morguns við hverja sem er.
  • Við flakkarann allt eins og kóng vil ég klingja ---
  • ég kæri mig ekkert um nafnið á þér.
  • Þú ert vinur minn víst
  • eins og veröldin snýst ---
  • á víxla ég skrifa nú eins og þér líst.