Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 14:38:20 (2736)

1998-12-19 14:38:20# 123. lþ. 46.15 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, StB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[14:38]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um fjárlög ársins 1999 sem hér eru á dagskrá. Ég mun reyndar ekki gera það í bundnu máli eins og fyrri ræðumenn og því síður vísa til þess að skrifað sé upp á víxla framtíðarinnar með afgreiðslu fjárlaga 1999.

Við þessar umræður, herra forseti, hefur enginn borið brigður á að fjárlög og afgreiðsla fjárlaga fyrir árið 1999 mörkuðu tímamót varðandi stöðu efnahags og ríkisfjármála. Þegar við lítum hins vegar til baka og gerum okkur grein fyrir því hvað er fram undan í efnahags- og ríkisfjármálum, þá sjáum við hv. alþm. að ekki gerast þessar umbætur á einni nóttu.

Það hefur átt sér nokkurn aðdraganda að hagur okkar Íslendinga í efnahagslegu tilliti hefur batnað með markvissum aðgerðum sem koma síðan fram í bættum hag ríkissjóðs. Bættur hagur ríkissjóðs skiptir alla þegna landsins máli. En hvers vegna hefur efnahagslífið tekið kipp og hvers vegna hefur staða ríkissjóðs batnað?

Við höfum staðið fyrir lækkun skatta á atvinnulífið. Það hefur skilað sér í fleiri störfum og komið fram í bættum hag fyrirtækjanna sem hafa getað fjárfest og styrkt stöðu sína til frambúðar. Lækkun skatta á einstaklinga hefur að ég tel einnig virkað hvetjandi í atvinnulífinu og er vafalaust aðgerð sem skiptir miklu máli þegar við lítum á þetta í heild sinni.

Breytingar í ríkisrekstrinum, margs konar úrbætur og endurskipulagning á ríkiskerfinu, hafa orðið til þess að styrkja stöðu ríkisrekstrarins. Tilfinningin gagnvart starfsemi ríkisins hefur breyst og mikill vilji hjá starfsmönnum stofnana í ríkisgeiranum til að bæta reksturinn. Til lengri tíma litið merkir það að staða stofnana á vegum ríkisins styrkist, þegar vel er á málum haldið í þeim geira. (GÁS: 2.500 ný störf hjá ríkinu.)

Ytri aðstæður hafa auðvitað haft verulega mikla þýðingu til þess að bæta stöðu efnahagsmála og ríkisfjármála. Afli hefur aukist og verð á honum hækkað, nokkuð hátt verð á afurðum á ýmsum mörkuðum. Verð á aðföngum eins og olíu er lágt svo öllu sé til skila haldið og nýjar fjárfestingar í stóriðju hafa auðvitað virkað hvetjandi á hið íslenska efnahags- og atvinnulíf.

Í ljósi þess að afleiðingar þessa alls eru jákvæðar þá má líta til þess að hagvöxtur er um 5% á þessu ári og svipuðu er spáð á næsta ári. Verðbólgan er lág eins og fram kemur fram í öllum skýrslum. Talið er að okkur eigi að takast að halda lágri verðbólgu sem skiptir geysilega miklu máli, bæði gagnvart stöðunni innan lands og ekki síður vegna viðskipta við útlönd. Síðast en ekki síst má skoða stöðuna í ljósi þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna er talinn aukast á þessu ári um 10%. Því er spáð að hann aukist á næsta ári um 5%. Ánægjulegt er að atvinnuleysi hefur farið minnkandi og stefnir í 2,5% á næsta ári og það er talið að atvinnuþátttaka hafi aldrei verið meiri en nú. Kraftar þjóðfélagsins vinna þannig vel saman og það styrkir okkur bæði í bráð og í lengd.

Þær breytingar sem við ræðum hér við 3. umr. um fjárlög ársins 1999 eru margvíslegar og ég vil nefna nokkrar en allar byggjast brtt. okkar á því að efnahagsumhverfið hefur skapað þær aðstæður, með auknum tekjum upp á nærri 3,5 milljarða, að við getum tekist á við það viðfangsefni að bæta inn í ríkisútgjöldin þeim málum sem mikilvægast var að taka á. Ég vil nefna fimm meginþætti sem tekist er á við í afgreiðslu þessara fjárlaga.

Í fyrsta lagi ber að nefna að launaþróunin hjá ríkisstarfsmönnum hefur verið með þannig að auka þarf launaútgjöldin. Aðlögunarsamningar og breytingar á samningum við opinbera starfsmenn hafa leitt til þess að launaútgjöldin aukast. Það sést mjög rækilega í frv.

Í öðru lagi er tekið mjög á byggðamálum. Litið er til þeirrar áætlunar sem verið hefur til umfjöllunar í þinginu um stefnumótun og stefnumörkun í byggðamálum og mun ég koma nánar að því á eftir.

[14:45]

Í þriðja lagi er bæði í fjárlögum og fjáraukalögum fyrir þetta ár tekið á vanda stóru sjúkrahúsanna sem hefur mikla þýðingu.

Í fjórða lagi eru auknar bætur elli- og örorkulífeyrisþega.

Í fimmta lagi vil ég nefna aukin framlög til málefna fatlaðra.

Í umfjöllun hv. fjárln. komu fram óskir um aukinn rekstur á sviði þjónustu við fatlaða. Á vegum félmrn. starfaði nefnd sem vann að úttekt á þeim málaflokki og hafa tillögur um aðgerðir verið kynntar. Þær tillögur voru til skoðunar og meiri hluti fjárln. gerir þær að sínum og leggur fram brtt. sem gera ráð fyrir 77 millj. kr. auknum framlögum frá því sem er í frv. til málefna fatlaðra. Reyndar er það ekki allt saman á grundvelli tillagna þeirrar nefndar. Það skiptir mjög miklu máli í þessum málaflokki að vinna skipulega og það skiptir miklu máli að taka föstum tökum tillögur sem komu frá þeirri nefnd sem skoðaði stöðu biðlista gagnvart stofnunum fatlaðra og þess vegna vildi meiri hluti fjárln. gera þær tillögur að sínum. Þess er að vænta að mikilvægur áfangi náist á næsta ári í því að stytta biðlista fyrir fatlaða og má með sanni segja að árangur verði af starfi þeirrar nefndar sem fyrr var getið með því að við aukum fjármuni til þessa málaflokks.

Ég nefndi byggðaáætlun, en í brtt. meiri hluta fjárln. er gert ráð fyrir 300 millj. kr. til Byggðastofnunar til þess að veita inn í atvinnuþróunarfélög sem hafa sýnt sig að skipta mjög miklu máli við það mikilsverða verkefni að byggja upp atvinnulífið úti á landi. Það er sannfæring mín að ein af mörgum leiðum sem æskilegt er að fara sé að styrkja atvinnuþróunarfélögin og það er á grundvelli byggðatillögunnar sem þessi tillaga um 300 millj. er gerð.

Í fjárln. voru málefni framhaldsskólanna til sérstakrar skoðunar en framhaldsskólarnir hafa verið að byggjast upp í landinu mjög skipulega og með öflugum hætti. Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið unnið að byggingu framhaldsskóla. Má þar nefna Borgarholtsskólann, Menntaskólann í Kópavogi, framhaldsskólana í Garðabæ og á Suðurnesjunum og sömuleiðis í öðrum landshlutum og svo merkar endurbætur á húsnæði Menntaskólans í Reykjavík. Þetta hefur mjög mikla þýðingu. En það þarf hins vegar að gera fleira en að byggja upp skólahúsnæði. Við verðum að tryggja að framhaldsskólarnir hafi fjármuni til starfsemi sinnar, til rekstrar, þannig að þeir geti sinnt því mikilsverða hlutverki sem þeim er ætlað.

Hæstv. menntmrh. hefur staðið fyrir því að koma á svokölluðum skólasamningum við framhaldsskólana og ég tel að það sé mjög mikilvæg aðgerð. Hún veitir skólunum aðhald, skapar þeim ákveðinn ramma og auðveldar ráðuneytinu að takast á við þetta verkefni sem er að hafa eftirlit með starfi skólanna, bæði varðandi fjármálahliðina og einnig hina faglegu hlið skólastarfsins.

Hins vegar hafa komið athugasemdir við þessa skólasamninga og þess vegna telur meiri hluti fjárln. nauðsynlegt að menntmrn. hafi nokkurt svigrúm, sérstaklega til þess að líta til samninganna sem snúa að litlu skólunum á landsbyggðinni, en fastur kostnaður hlýtur að vera annað hlutfall af heildarkostnaði í litlum einingum og það hlýtur að vera að hagkvæmni stærðarinnar í rekstri framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu komi fram í lægri framlögum á nemanda í stórum skólum en hinum smærri. Það þýðir þó ekki að gera eigi meiri kröfur til þeirra sem reka litlu skólana en þeirra sem reka hina stærri. En það varð niðurstaða meiri hluta fjárln. að þarna þyrfti að auka fjármuni og þess vegna eru settar 40 millj. til þess að takast á við þetta verkefni.

Þá vil ég nefna jöfnun námskostnaðar. Það er viðurkennt að aðstaða til náms skiptir mjög miklu máli. Það hefur verið niðurstaða Alþingis að draga bæri úr þessum mismun með því að veita fjármuni til framhaldsskólanemenda með beinum styrkjum og jafna þannig námsaðstöðuna því að fjölmargar fjölskyldur þurfa að senda nemendur um langan veg að heiman til náms. Frá árinu 1997 hafa þessi framlög hækkað mjög mikið og með þeirri tillögu sem hér er til umræðu frá meiri hluta fjárln. og með þeirri hækkun sem kom fram við 2. umr., samtals upp á 65 millj. kr., hefur þetta framlag til jöfnunar á námskostnaði hækkað úr 106 millj. í 253 millj. eða um nærri 140% frá árinu 1997. Ég tel að þetta sé meðal mikilvægari aðgerða til þess að auðvelda íbúum hinna dreifðu byggða að halda niðri framfærslukostnaði heimilanna og að þetta sé lóð á þá vogarskál að snúa byggðaþróuninni við.

Það er ekki mjög mikið um framlög til atvinnuveganna, sem betur fer, úr ríkissjóði. En ein er sú atvinnugrein sem er mjög vaxandi á Íslandi og það er kvikmyndagerð. Þess vegna hefur verið komið upp Kvikmyndasjóði sem veitir styrki til kvikmyndagerðar og það er talið af þeim sem best þekkja að það sé fjárfesting af hálfu ríkisins sem borgi sig. Í tillögum meiri hluta fjárln. er gert ráð fyrir að Kvikmyndasjóður fái 30 millj. til viðbótar við það sem er í frv. auk þess sem í heimildarákvæði 7. gr. er gert ráð fyrir heimild til þess að ganga til sérstakra samninga um þau efni. Ég vil draga þetta sérstaklega fram vegna þess að hér er um að ræða skýra pólitíska stefnumótun hvað varðar kvikmyndagerð á Íslandi. Hæstv. menntmrh. hefur kynnt samning sem hann hefur unnið að með samþykki ríkisstjórnarinnar og þessi tillaga um hækkun til Kvikmyndasjóðs er hluti af þeim samningi sem síðan verður að efna með sérstakri samþykkt á Alþingi um aukin framlög hverju sinni. Ég vænti þess að með þessu sé komið mjög verulega til móts við íslenska kvikmyndagerð og hún geti blómstrað og dafnað eins og öll efni eru til.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gegnir mikilvægu hlutverki. Gerð er tillaga um að framlagið til hans hækki í samræmi við það sem reglur gera ráð fyrir. En ég vil vekja sérstaka athygli á brtt. sem hér hefur komið fram og hv. þm. Jón Kristjánsson gerði grein fyrir í framsöguræðu sinni. Það er nauðsynlegt að semja við sveitarfélögin vegna þeirra erfiðleika sem þau mörg hafa lent í með hinar félagslegu íbúðir. Sveitarfélögin mörg hver hafa þurft að borga með félagslega íbúðakerfinu auk þess sem lagaskylda um innkaup á íbúðum í félagslega kerfinu og kaupskylda sveitarfélaganna hefur leitt til þess að mörg sveitarfélög hafa lent í miklum vandræðum. Þess vegna er gert ráð fyrir því að fjmrh. og félmrh. gangi til samninga við sveitarfélögin um uppgjör vegna innlausna íbúða í félagslega íbúðakerfinu. Ég vænti þess að með þessu heimildarákvæði verði hægt að ganga til viðræðna við sveitarféögin og koma þessum málum í betra horf en þau hafa verið í.

Lífeyristryggingarnar hækka samkvæmt brtt. frá meiri hluta fjárln. um 400 millj. Ég er gjörsamlega ósammála því sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl., Gísla S. Einarssyni, þegar hann lét að því liggja að ekki væri komið til móts við elli- og örorkulífeyrisþega. Ég tel að með þessum framlögum og þeim lagabreytingum, sem vonandi og væntanlega verða samþykktar í þinginu, sé stigið mjög mikilvægt spor í þá átt að bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega. Það er skylda okkar að ganga til þess verks og ég tel að þetta sé mjög mikilvægur áfangi á þeirri leið.

Ríkisspítalarnir og Sjúkrahús Reykjavíkur, þessi tvö stærstu sjúkrahús okkar Íslendinga, gegna geysilega mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustunni, mjög mikilvægu hlutverki. Við þekkjum það öll í þinginu að við höfum á einn eða annan hátt komið að því viðfangsefni að greiða úr vanda þessara sjúkrahúsa, þ.e. rekstrarvanda, fjárhagserfiðleikum. Á þrengingartíma varð að leita allra leiða til þess að nýta fjármunina sem best og ég tel að það hafi tekist. Gerðar hafa verið heilmiklar breytingar í rekstri stóru sjúkrahúsanna sem hafa borið árangur og ég kom sérstaklega inn á það við 2. umr. En það hefur verið mat þeirra sem best þekkja að enn megi bæta úr í rekstri stóru hátæknisjúkrahúsanna með meiri samvinnu, með meiri samræmingu og með því að reyna að koma í veg fyrir tvíverknað og tvöfalda fjárfestingu í tækjabúnaði og öðru sem lýtur að rekstrarútgjöldum.

Það hefur verið sagt að spítalarnir hafi búið við langvarandi þrengingar. Ég tel að með þeim 500 millj. sem bætt er inn í rekstur sjúkrahúsanna með fjáraukalögunum fyrir þetta ár og með þeim skipulagsbreytingum sem hafa verið boðaðar með því að ríkið yfirtaki Sjúkrahús Reykjavíkur frá Reykjavíkurborg og með þeim skipulagsbreytingum sem fylgja í kjölfarið, þá eigi að vera hægt að ná árangri, bæta reksturinn og spara. Þær hugmyndir hafa verið kynntar lítillega og ég þykist geta fullyrt að það eigi að vera hægt að ná árangri og ég vona að svo verði án þess að ég fari nánar út í þá sálma.

Útgjöld til orkumála eru meðal þeirra þátta sem fjölmargar fjölskyldur hafa mjög kvartað undan. Sem betur fer er það svo í okkar þjóðfélagi að í mesta fjölmenninu á höfuðborgarsvæðinu hefur tekist þannig til um uppbyggingu orkufyrirtækjanna að hægt er að fá keypta orku til húshitunar og til annarra nota á mjög hagstæðu verði ef orkuverðið er borið saman við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Hins vegar hefur það verið þannig að á landsbyggðinni hefur ekki alls staðar tekist jafn vel til. Að vísu hafa margar hitaveitur verið byggðar upp úti um land og það hefur tekist vel með rekstur þeirra þannig að orkuverðið er lágt þar. Þess vegna hefur í fjárlögum um nokkurn tíma verið gert ráð fyrir niðurgreiðslu á raforkuverði til húshitunar og í tillögum meiri hluta fjárln. er sú upphæð núna hækkuð um 100 millj.

Svo ég vitni aftur til þess sem segir í byggðaáætlun sem forsrh. hefur lagt fram og verður væntanlega afgreidd, þá er orkuverð meðal mjög mikilvægra þátta í útgjöldum heimila á landsbyggðinni sem skiptir miklu að lækka. Þær 100 millj. sem hér er gerð tillaga um að hækka þessi framlög um skipta því mjög miklu máli.

Annað sem kemur fram í brtt. fjárln. er að gert er ráð fyrir því að létta af Rafmagnsveitum ríkisins arðgreiðslukröfu í ríkissjóð. Sú aðgerð ein mun létta Rafmagnsveitum ríkisins mjög róðurinn í því verkefni sínu að dreifa raforku um landið til hinna dreifðu byggða sem er mjög kostnaðarsamt. Því er ástæða til þess að vekja sérstaka athygli á þessari tillögu. Hún felur í sér að Rafmagnsveiturnar fá meira svigrúm til rannsókna og til aðgerða til dreifingar í hinum dreifðu byggðum og vonandi og væntanlega til lækkunar á orkuverði á orkuveitusvæði Rariks.

Herra forseti. Ég hef farið yfir fjölmörg atriði sem mér finnst skipta miklu máli. En nú þegar komið er að lokum þessa kjörtímabils er ánægjulegt að geta gengið til þess verks að afgreiða fjárlög og gera það eins og hér er gert með verulegum afgangi. Fjárlög verða væntanlega afgreidd með afgangi upp á 2,5 milljarða. Tekjurnar aukast verulega, m.a. vegna sölu ríkiseigna. En það sem skiptir auðvitað miklu máli í því samhengi er að við erum að leggja á ráðin um aukna sölu ríkiseigna til þess að lækka skuldir. Við erum að lækka skuldir með því að selja eignir og búa þannig í haginn til framtíðar með því að greiða þar með lægri vexti. Vaxtakostnaðurinn minnkar og við getum þar með nýtt tekjurnar í framtíðinni til þess að byggja þjóðfélagið enn betur upp og standa þannig að málum að búsældarlegra verði á Íslandi.

Við skilum af okkur góðu búi í lok þessa kjörtímabils og það er vissulega fagnaðarefni. Það hefur náðst mikill árangur eins og ég hef lýst í ræðu minni og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í því starfi hér á Alþingi með hv. þingmönnum að brjótast í gegnum erfiðleikatímabilið á síðasta kjörtímabili og njóta þess að geta veitt vaxandi hagsæld út í þjóðfélagið til þess að bæta kjör almennings í landinu.