Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 15:11:51 (2742)

1998-12-19 15:11:51# 123. lþ. 46.15 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[15:11]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég bar ekki brigður á þær tölur sem hv. þm. hafði tilgreint í ræðu sinni. Ég vakti hins vegar athygli á þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin stendur fyrir núna. Ég er alveg sammála þingmanninum um að þjóðfélagið þarf að búa þannig um hnúta að aðstæður þeirra sem lægstar tekjur hafa og þær aðstæður sem öryrkjar þurfa að búa við eiga að batna, við þurfum að sjálfsögðu að leitast við að gera allt sem hægt er til þess að bæta hag þeirra.

Ég tel að þær aðgerðir sem við stöndum fyrir og erum að ræða, hækkun upp á 400 millj., skipti miklu máli. En við getum ekki gert allt fyrir alla í einu. Það skiptir líka miklu máli fyrir þessa hópa að við lækkum útgjöldin, við lækkum verðbólguna og við reynum að koma því þannig fyrir að atvinnulífið virki vel, jafnt fyrir þá hópa sem aðra.