Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 15:18:13 (2747)

1998-12-19 15:18:13# 123. lþ. 46.15 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[15:18]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nokkuð skondið að menn skuli nota andsvarið til að koma að fréttatilkynningum eins eins og hæstv. menntmrh. gerði en það er svo sem ekkert við því að segja.

Ég fagna vitaskuld samningnum sem slíkum en minni hins vegar á að það sem verja á til Kvikmyndasjóðs, 40 millj. kr. á næsta ári samkvæmt tillögum meiri hluta fjárln., er nákvæmlega sama tillagan og var felld frá mér við 2. umr. fjárlaga. Það gefst tækifæri til að ræða þetta betur en ég fagna því að menn taki höndum saman að efla kvikmyndagerð. Ég fagnaði því líka að hv. varaformaður fjárln. setti ofan í við hæstv. menntmrh. og minnti hann á að það er Alþingi sem fer með fjárveitingavaldið en ekki ríkisstjórnin með samningum. Því verður að fylgja eftir í næstu ríkisstjórn og enginn veit enn hver þar situr.