Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 15:48:15 (2752)

1998-12-19 15:48:15# 123. lþ. 46.15 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[15:48]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þess hefur verið farið á leit við þingmenn að við reynum að stytta mál okkar til að greiða fyrir þingstörfum. Ég mun reyna að verða við því en vil gjarnan koma nokkrum atriðum að við umræðuna.

Í dag hefur verið minnst á að menn hafi orðið mjög greiðviknir á síðustu dögum fjárlagavinnunnar. Það á bæði við um ríkisstjórn og fjárln. Hækkun útgjalda við þessa umræðu er um 3,5 milljarðar kr. og töldu ýmsir að nú væru góð ráð dýr vegna þess að frést hefði að tekjuhlið frv. yrði ekki endurskoðuð við þessa umræðu. Það var gert og hinir miklu meistrar hnoðuðu tekjuáætlunina að sjálfsögðu upp úr smjöri og teygðu síðan yfir eldi þar til tókst að hækka hana um 3 milljarða og 708 millj. kr. Geri aðrir betur. Þar af nemur aukning skatttekna um 1.828 millj. kr. en sala eigna er talin skila 1.300 millj. kr. Ég hef kannski mestar áhyggjur af hinu síðarnefnda. Mér hefur eins og hv. 17. þm. Reykv., Ögmundi Jónassyni sem talaði á undan mér hefur mér, ofboðið þessi sala á eignum sem við landsmenn eigum öll sameiginlega. Nú eru þær seldar á ýmsum útsölum og virðist ekki eiga að draga úr því á næstunni ef marka má þessar forsendur fyrir tekjuhlið frv. á næsta ári.

Minni hlutinn telur að í þjóðhagsáætlun sem fyrir liggur liggi vanmat á innflutningi og fjárfestingu. Í því sambandi má minnast á að talið er að innflutningur muni aðeins aukast um 0,9% á árinu. Á þessu ári hefur hann vaxið um 23,3%. Að hluta til er það útskýranlegt með miklum framkvæmdum og uppbyggingu, t.d. álvers, en ég tel samt að 0,9% sé mjög varlega áætlað. Ég hef ástæðu til að óttast að sú spá muni ekki rætast. Það virðast hafa verið nokkuð erfitt að spá á undanförnum árum. Í minnihlutaáliti við 2. umr. var t.d. bent á að gríðarlegur munur er milli þess sem spáð hefur verið og þess sem orðið hefur. Okkur í minni hluta fjárln. hefur fundist að setja þyrfti á sérstaka ráðstefnu til að kanna hvernig bæta megi þessar spár. Mismunurinn er gríðarlegur og þegar maður ber þetta saman við það sem gerist hjá öðrum þjóðum virðist allt annar taktur í þessu hjá okkur.

Mikilvægt er að áætlanir um kaupmátt og þróun einkaneyslu séu byggðar á traustum forsendum. Því var t.d. spáð að einkaneyslan á árinu 1998 mundi aukast um 5% en reyndin er að síðustu tölur segja hana hafa aukist um 12%. Það er miklu meira en helmingsaukning. Það verður líka að segja að í allri þeirri þenslu sem virðist vera er ég orðin svolítið langeygð eftir þeim sparnaðarkostum sem hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin boðuðu. Að vísu er þar eitthvað gert í sambandi við séreignarsjóði en ég hafði ímyndað mér að þetta yrði í miklu ríkara mæli en í ljós hefur komið. Ég auglýsi eftir því að meira hvetjandi kostir komi fram til sparnaðar fyrir almenning.

Við óskum eftir því að tekjugrundvöllur ríkissjóðs verði styrktur m.a. með virkara skatteftirliti og sérstökum aðgerðum gegn skattsvikum. Lítið hefur farið fyrir þeim aðgerðum upp á síðkastið. Það er á allra manna vitorði að mjög mikið er um svarta atvinnustarfsemi í landinu og hefur gengið erfiðlega að fá áætlað hve mikið væri þar á ferðinni. Nú er almennt talað um að 15 milljarðar séu á sveimi í einhverju neðanjarðarhagkerfi sem aldrei koma upp á yfirborðið. Náttúrlega er mjög erfitt til þess að vita þegar sárlega vantar peninga í ríkissjóð. Auðvitað þyrfti að herða mjög eftirlitsaðgerðir frá skattyfirvöldum til að reyna að sporna við þessu. Að auki hefur þetta þær hliðarafleiðingar að fólk sem starfar hjá þessum fyrirtækjum og gengst inn á að starfa svart tapar þar með öllum réttindum. Það á ekki svo gott með að leita þess að það fá laun sín greidd, sumir hverjir eru ekki vandari að virðingu sinni en að ætla jafnframt að svíkja þetta fólk um laun sem stundum kemur fyrir.

Í sambandi við fjáraukalög hef ég áður í dag gagnrýnt það og best að ég komi enn að því hér, þ.e. leiðum sem fyrirtæki hafa til að draga uppsafnað tap frá ágóða áður en kemur til tekjuskatts. Ég verð að segja að ég held að þetta hafi hér á landi farið út yfir öll mörk. Þau uppboð verið hafa á fyrirtækjum þegar þau eru að leggja upp laupana, þau hækka fyrst í verði því að þá er farið að rífast um að kaupa uppsafnaða tapið, hafa náttúrlega verið alveg fáránleg. Ég þekki dæmi um fyrirtæki sem hafði verið rekið á horriminni um allmörg ár en átti að loka, þá birtust allt í einu fjöldamargir kaupendur. Þeir voru á höttunum eftir uppsöfnuðu tapi í þessu fyrirtæki. Mörg dæmi munu vera um slíkt.

Minni hlutinn leggur til að tryggingagjald verði hækkað um 0,5 prósentustig og þannig aflað um 1,5 milljarða kr. viðbótartekna. Þessar viðbótartekjur mætti nota til margra góðra hluta, til málefna fatlaðra og til að styrkja heilbrigðisþjónustuna í landinu enn frekar. Ég tel enga ástæðu til að gera þetta ekki. Nú í góðærinu er einmitt færi á að taka inn þessi 0,5 prósentustig af virðisaukaskatti til góðra mála.

Við viljum einnig ítreka þá skoðun okkar að skattleggja eigi söluhagnað af aflaheimildum sem lítið skilað sér inn til skatts. Þar mundu koma peningar í ríkissjóð sem við höfum mjög mikil not fyrir. Það er mjög mikilvægt að nota tækifærið til að byggja upp þegar vel gengur svo við getum búið að því þegar halla tekur undan fæti sem alltaf gerist í þjóðfélögum eins og okkar. Við erum fiskveiðiþjóð sem er mjög háð bæði verðsveiflum erlendis, eins gæftum. Hér á landi verða alltaf tiltölulega miklar sveiflur og þess vegna þurfum við að búa vel í haginn núna þegar vel gengur svo við séum viðbúin slíku. Ég tek undir með hæstv. fjmrh. um nauðsyn þess að borga niður erlendar skuldir núna í góðærinu og styð það mjög eindregið.

Inn á borð þingmanna hefur verið lögð, rædd einu sinni og send í nefnd, þáltill. um byggðamál. Það er að mörgu leyti merkilegt skjal þó þar vantaði inn ýmislegt sem mestu máli skiptir eins og t.d. fiskveiðistjórnunina. Um hana var ekki mikið talað en samt voru í henni hinar merkustu tillögur um jöfnun á aðstöðu fólks eftir búsetu í landinu. Flestar þeirra styð ég mjög eindregið og við önnur sem sitjum í minni hlutanum á Alþingi. Það sér aðeins örla á því nú að meiningin sé að framkvæma þessar tillögur og það er gleðiefni.

Ég ætla aðeins að fara nokkrum orðum um nokkrar tillögur sem sagðar eru frá meiri hluta fjárln. Ég vil taka undir með hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og tel okkur í minni hluta fjárln. eiga töluvert í þeim tillögum mörgum hverjum, þ.e. þeim sem koma beint frá fjárln. Mig langar að fara orðum um nokkrar þeirra.

Á lið 319 Framhaldsskólar almennt, er lagt til að almenn framlög til framhaldsskóla hækki um 40 millj. kr. Menntmrn. hefur gert svonefnda skólasamninga við einstaka skóla. Með þessari fjárhæð er gert kleift að endurmeta samninga við skólana, einkum fámennari skóla á landsbyggðinni. Ég tek undir tillöguna og vona að þessar 40 millj. verði notaðar til þess sem kemur þarna fram í seinni hluta skýringargreinarinnar, að bæta stöðu fámennari skóla á landsbyggðinni. Varðandi reiknilíkön sem komið hefur verið á vegna útreikninga á framlögum til framhaldsskóla hef ég talið að fámennu skólarnir á landsbyggðinni hafi komið illa út úr því. Í líkönin vantaði meiri byggðasjónarmið og mér finnst þarna vera komið til móts við þau. Ég vil líka taka sérstaklega undir þörf þess að leggja fram 40 millj. kr. til viðbótar til jöfnunar á námskostnaði.

[16:00]

Þá um tillöguna við landbúnaðarráðuneyti 891 Sérstakar greiðslur í landbúnaði, 7,5 millj. til að kosta slátrun 1.600 hrossa og sporna þannig við ofbeit. Þegar þessi tillaga kom fram á síðasta degi starfs nefndarinnar varð mikið fjaðrafok. Nokkrir nefndarmenn áttu hross í haga í nágrenni Reykjavíkur og óttuðust nú að þeim hestum væri hætta búin svo það gekk hálfilla að halda þeim inni á fundi. En þegar farið var að ræða málið var ýmislegt á huldu um hvar þessi hross væru sem ætti að slátra, hvort þau væru sunnan heiða eða norðan og hvernig ætti í rauninni að standa að þessu dæmi. Þá varð til inni í nefndinni mjög skemmtileg vísa sem lýsir mjög þeirri angist sem hrossaeigendur voru gripnir þarna undir umræðunni. Vísan er svona:

  • Í hálfa stöng hengi ég fána,
  • hesta sé fyrir mér dána.
  • Skjóni er dauður
  • og skorinn er Rauður.
  • Það næðir um Njarðvíkur-Grána.
  • Að lokum vil ég þakka það sérstaklega að fjárln. sá sér fært að hækka styrk til Landssambands aldraðra um 700 þús. kr. frá því sem áður hafði verið ákveðið. Ég tel að þetta ágæta samband sé mjög vel að þessum styrk komið.