Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 16:36:39 (2766)

1998-12-19 16:36:39# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[16:36]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka fram að ekki er samkomulag um þetta frv. Það er ekki samkomulag á milli ríkisstjórnar eða stjórnarmeirihluta og minni hlutans á Alþingi um þetta frv. Á þetta vil ég leggja ríka áherslu. Hins vegar hefur verið um það rætt að stjórnarandstaðan mundi ekki leggja stein í götu tiltekinnar málsmeðferðar enda hefur það verið krafa stjórnarandstöðunnar að það sem er ívilnandi fyrir öryrkja í þessu frv. og í þeim breytingum sem ríkisstjórnin hyggst beita sér fyrir nái fram að ganga. Það hefur verið krafa okkar og við höfum lagt til tiltekna aðferð í því efni og ég ætla ekki að endurtaka það hér. Það gerði hv. þm. Össur Skarphéðinsson í ræðu sinni.

Það fyrsta sem ég vildi gagnrýna varðandi þetta frv. lýtur að vinnubrögðum. Undir lok þinghaldsins kemur fram frv. sem reyndar var boðað snemma í haust, flókið frv. sem ríkisstjórnin gerir kröfu um að verði afgreitt í snarhasti. Þetta eru ólíðandi vinnubrögð, þau eru ólýðræðisleg og óvönduð.

Eins og fram kemur í athugasemdum með frv. snýst þetta lagafrv. um tvo meginþætti. Í fyrsta lagi kveður frv. á um breytingar á forsendum mats við ákvörðun á örorku og hvað þann þátt snertir er um flókið mál að ræða. Sérfræðingar hafa legið yfir þessu í langan tíma og ef Alþingi á að hafa vönduð vinnubrögð í lagasetningu þá hljóta alþingismenn að gera þá kröfu að þeim gefist tóm til að fara rækilega í saumana á máli á borð við þetta og það verður ekki gert á skömmum tíma. Ég vil því að þessu leyti gagnrýna vinnubrögðin.

Hitt atriðið sem frv. kveður á um varðar lífeyri til elli- og örorkulífeyrisþega að því er snertir skerðingu lífeyris, einkum vegna tekna maka. Hér erum við komin að þætti sem er vægast sagt mjög umdeilanlegur. Því hefur verið haldið fram að þetta atriði stangist á við stjórnarskrá Íslands. Eins og gefur að skilja munum við alþingismenn ekki geta samþykkt lög sem stangast á við stjórnarskrá Íslands og brjóta mannréttindi á fólki. Ég mun koma að þessu síðar í ræðu minni sem verður þó stutt.

Talað er um að með frv. eða þessum breytingum komi um 400 millj. kr. eða rúmlega það til öryrkja og mönnum finnst þetta vera dágóð summa mörgum. Síðan er um þetta rætt í prósentum og reglugerðum sem eru svo flóknar að fæstir botna upp eða niður í þessu. En um hvað snýst þetta mál? Það snýst um lífsviðurværi fólks. Öryrki getur fengið um 63 þús. kr. í sinn hlut. Þannig er það. Hann getur fengið um 63 þús. kr. í sinn hlut. Ef hann giftir sig eða fer í sambúð hrapar hann niður í 44 þús. kr. á mánuði. Ef makinn hins vegar hefur tekjur skerðist þessi lífeyrir öryrkjans enn meira. Eins og málin hafa verið fram til þessa þá er það svo að hafi makinn sem nemur um meðaltekjum einstaklings í BSRB eða ASÍ hrapar öryrkinn niður í 15 þús. kr. á mánuði. Frv. sem nú er til umræðu snýst um hve mikið eigi að skerða tekjur öryrkjans á bilinu 15--44 þús. kr. Um það snýst frv. Það snýst um hve hrikaleg kjör öryrkjum skal búin. Um það snýst þetta mál. Við erum að tala um tekjur og lífeyri sem er ekki sæmandi að bjóða nokkrum einstaklingi á Íslandi. Það sem mér finnst slæmt við þessa umræðu er hve langt frá einstaklingnum hún fer iðulega. Við erum að tala í hundruðum millj. en í reynd erum við að tala um fólk sem getur ekki séð sér farborða og þarf að leita á náðir hjálparstofnana, kirkjunnar eða Rauða krossins. Helmingur þeirra sem kemur til þessara stofnana eru öryrkjar. Það sem við erum að ræða um hér er hve mikið eigi að skerða tekjur öryrkja frá 44 þús. kr. á mánuði niður í 15 þús. Hvar eiga þessi viðmiðunarmörk að vera? Um það snýst þessi deila.

Hvað segir Öryrkjabandalagið? Hvers vegna talar Örykjabandalagið um mannréttindabrot, hvers vegna? Vegna þess að það segir að líta eigi á öryrkja á sama hátt og aðra þegna þjóðfélagsins, t.d. þá sem eru atvinnulausir. Ekki skerðast atvinnuleysisbætur hjá þeim einstaklingi sem giftir sig. Þær gera það ekki. Og máli sínu til stuðnings vísar Öryrkjabandalagið í stjórnarskrá Íslands. Í 76. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

,,Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.

Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.``

Síðan er vísað einnig í 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir:

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.``

Þar er vísað til hjúskaparstöðu. Öryrkjar eru teknir út úr, eru aðgreindir frá öðrum hópum í þjóðfélaginu og er mismunað með þessum hætti. Það var þess vegna sem stjórn Öryrkjabandalagsins ákvað einhuga, einróma á fundi sínum 6. október sl. að höfða mál á hendur íslensku ríkisstjórninni vegna mannréttindabrota. Það er þess vegna sem stjórnarandstaðan mun ekki geta samþykkt þessi lög. Við samþykkjum ekki lög sem byggja á mannréttindabrotum, það gerum við ekki. En það er okkar krafa að allt það sem er ívilnandi í þessum breytingum nái fram að ganga. Við erum að tala um einstaklinga, við erum að tala um fólk sem ekki getur séð sér farborða. Við skulum ekki gleyma okkur í prósentunum eða hundruðunum milljónanna. Við skulum horfa á kjör hvers og eins og þau eru ekki mönnum bjóðandi.