Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 17:06:37 (2769)

1998-12-19 17:06:37# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[17:06]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt andsvar. Hv. þm. spyr um sambúðarfólk. Sama gildir um sambúðarfólk og gifta aðila samkvæmt almannatryggingalöggjöfinni.

Mér finnst á umræðunni eins og verið sé að skerða kjör en ekki bæta kjör. En sem dæmi vil ég nefna að kjör öryrkja sem á maka, sem er úti á vinnumarkaðnum, batna a.m.k. um 140 þús. kr. á ári. Það eru kannski ekki háar tölur en það er þó skref.

Varðandi annað sem ég held að ég verði að segja hér vegna þess að hv. þm. minntist á frv. sem liggur fyrir þinginu frá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, ef það frv. yrði að lögum, mundu 272 aðilar tapa á því þannig að maki missti afnot af frítekjumarki. Þar að auki er ekkert fjallað um ellilífeyrisþega í því frv. þannig að hv. þm. er ekki alveg samkvæm sjálfri sér þegar hún talar hér.