Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 17:20:29 (2772)

1998-12-19 17:20:29# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, PHB
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[17:20]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hjá menningarþjóðum Vestur-Evrópu tíðkast það að taka þrjú, fjögur ár í viðamiklar breytingar á lífeyrissjóðalöggjöf, lífeyristryggingalöggjöf og skattalöggjöf, sérstaklega þegar sú löggjöf hefur víðtækar afleiðingar og mikil áhrif á fjölda manns og það þarf að skoða vandlega hvaða áhrif löggjöfin hefur á einstaklinga og hagkerfið í heild sinni. Ég held ég fari rétt með að fyrir þremur dögum hafi ég fyrst fengið að sjá þetta frv. sem hér liggur fyrir, herra forseti. Ég á sem sagt að hugsa jafnhratt á hverjum degi og menn í útlöndum hugsa á heilu ári. Mér er það gjörsamlega ómögulegt. Það getur vel verið að einhverjir hv. þm. hugsi svo hratt. Ég get það ekki og ég verð að segja eins og er sem tryggingafræðingur að ég fórnaði höndum þegar ég sá það verkefni sem fyrir mér lá. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að stjórnarandstaðan hafi gaman af þessu. Hún ætti ekki að hafa það. (Gripið fram í: Nei.) Þetta er ekkert spurning um stjórn eða stjórnarandstöðu.

Herra forseti. Vinnandi maður í hverju þjóðfélagi sér um framfærslu þeirra sem ekki geta unnið og aflað sér tekna sökum æsku, örorku, fötlunar eða elli. Þannig er það í grundvallaratriðum. Það er alveg sama hvernig menn snúa þessu og venda, þannig er þetta. Hinn vinnandi maður stendur undir framfærslu þeirra sem ekki vinna. Þetta er falið á ýmsan hátt með skattlagningu, virðisaukaskatt og annað slíkt, greiðsla í gegnum ríkissjóð, með niðurgreiðslu á vöxtum, húsnæði, með framlögum til barna á barnaheimilum og leikskólum o.s.frv., með framfærslu gamalmenna á elliheimilum. Gegnum lífeyrissjóðakerfið með iðgjöldum og með vöxtum. Fyrirtæki borga vexti af lífeyrissjóðalánum. Þannig er verið að borga til þeirra sem ekki eru vinnandi í þjóðfélaginu. Grundvallaratriðið er alltaf að hinn vinnandi maður greiðir framfærslu þeirra sem ekki vinna og þess vegna skiptir verulegu máli hversu mikið hinn vinnandi maður er lestaður. Hvað er hægt að lesta hinn vinnandi mann mikið. Þess vegna er grundvallaratriði í öllum slíkum kerfum að það sé ekki oftrygging, herra forseti. Ekki oftrygging, þannig að hinn vinnandi sé ekki með lakari lífskjör en sá sem hann er að styrkja.

Herra forseti. Lífeyriskerfi okkar er þannig samsett að almannatryggingar tryggja 55 til 60 þús. kr. á mánuði fyrir fólk sem aldrei hefur unnið. Það er lágmark, herra forseti. Enginn Íslendingur fær minna en 55 til 60 þús. kr. á mánuði. Lífeyrissjóðirnir hins vegar sem hafa starfað frá 1974 lofa 60--70% af launum fólks. Þegar bæði kerfin verða komin í fullan gang, sem verður eftir um það bil 20 ár, þá verðum við greinilega með oftryggingu, herra forseti. Þá munu menn fá 55--60 þús. kr. og til viðbótar góðan hluta af laununum sínum, 60--70%, sem er meira en menn þurfa, vegna þess að lífeyrisþeginn borgar ekki í lífeyrissjóð t.d. Hann sér ekki um uppeldi barna og ef hann skyldi gera það, lífeyrisþeginn, þá fær hann barnalífeyri. Hann þarf ekki að sjá um að koma sér upp húsnæði. Það er ekki ætlast til að ellilífeyrisþegar þurfi að koma sér upp húsnæði þannig að lífeyrisþeginn þarf miklu minna en hinn vinnandi maður sem borgar iðgjald og sér um uppeldi barna og er að koma sér upp húsnæði. Það er því talið eðlilegt í flestum þjóðfélögum að ellilífeyrir sé 50--60% af launum.

Ég spurðist fyrir um það á 121 þingi hvað 25 ára gamall maður með 80 þús. kr. á mánuði fengi í lífeyri ef hann yrði öryrki eftir að vera búinn að starfa í fimm ár, fengi í örorkulífeyri frá lífeyrissjóðnum sínum og frá almannatryggingum. Hann fær 85 þús. kr. og þá er tekið tillit til þess að á meðan hann var með 80 þús. kr. þá borgaði hann í lífeyrissjóð 4% og í félagsgjald 1%. Hann bætir stöðu sína um 5 þús. kr. á mánuði við það að verða öryrki. Þannig er það. (ÁRJ: Er hann ekki verr settur?) Og ef hann skyldi falla undir skaðabótalögin líka, þá er hann kominn upp í 143 þús. kr. á mánuði. (BH: Það eru bara heilmikil uppgrip í því að vera öryrki.) Já, það eru heilmikil uppgrip í því að vera öryrki. Það er staðreyndin. Maður með 80 þús. kr. sem fellur undir skaðabótalögin er með 143 þús. kr. á mánuði. Hann bætir stöðu sína um 68 þús. kr. Þetta má ekki tala um. Menn tala alltaf eins og lífeyrissjóðirnir séu ekki til. En þeir eru til og þeir eiga langt yfir 300 milljarða til þess að borga lífeyri. Þetta er alveg ótrúleg umræða.

Umræðan er furðuleg. Það eru margar skúffur. Það eru fyrirbæri eins og vaxtabætur, það eru fyrirbæri eins og húsaleigubætur, fyrirbæri eins og almannatryggingar, fyrirbæri eins og lífeyrissjóðir. Við erum með sjúkrasjóði. Við erum með félagslega hjálp sveitarfélaganna og í hverri skúffu er alltaf horft á vandamálið í þeirri skúffu eins og hinar skúffurnar séu ekki til og umræðan er þannig vegna þess að enginn hefur yfirsýn. En allt er þetta greitt af hinum vinnandi manni.

Herra forseti. Hver er stefnan? Menn tala um, og hæstv. ráðherra gerir það, þriggja stoða stefnuna. Gott og vel. Almannatryggingar: Þar er grunnurinn, tekjuóháður. Það er fyrir fólk sem er utan vinnumarkaðar. Það er til að tryggja okkar minnstu bræður sem aldrei fara á vinnumarkað. Um það bil 2--3% af mannfjöldanum fer aldrei á vinnumarkað. Það þarf virkilega að tryggja þann hóp manna verulega vel, það fólk sem aldrei er fullgilt á vinnumarkaði. Aðrir sem fara á vinnumarkaðinn eru tryggðir með lífeyrissjóðunum, meira og minna. Svo koma lífeyrissjóðirnir. Lífeyrissjóðunum vex ásmegin á hverju ári. Þeir eru með viðbót. Þeir eru með tekjuháðan lífeyri sem er mjög þokkalegur, sérstaklega fyrir öryrkja því þar er framreikningur til sjötugs eins og maðurinn hefði unnið til sjötugs. Maður sem fer á örorku núna og er búinn að vinna í þrjú ár fær lífeyri eins og hann hefði unnið til sjötugs, eða 67 ára. Hann er því fulltryggður.

Hvers vegna er mikilvægt að hafa ekki oftryggingu? Hvers vegna er mikilvægt að hafa ekki, eins og sagt er, uppgrip? Fínt, gott mál. Einhver verður öryrki og það er bara gott mál. Það er gott fyrir hann að hafa það svona gott. Það er vegna þess að einhver greiðir þetta. Og ef við lestum of mikið þann sem vinnur þá nennir hann ekki að vinna lengur og þjóðfélagið allt líður fyrir það, líka bótaþegarnir. Þeir líða líka fyrir það ef fólk hættir að nenna að vinna, heldur betur. Þessu má aldrei gleyma og í þessu frv. erum við að lesta hinn vinnandi mann. (Gripið fram í: Lasta hinn vinnandi mann?) Lesta hann, já. (Gripið fram í: Lesta hann.) Það er verið að lesta hann. Ég er ekki að lasta hann, alls ekki. Það dytti mér ekki í hug af því ég lifi á honum og þið gerið það líka, hv. þm.

Herra forseti. Ef við lítum á fyrirliggjandi frv. sem ég hef reynt að lesa milli atkvæðagreiðslna og umræðna og þátttöku í nefndarstarfi sem hefur verið mjög þungt á undanförnum dögum --- það er eiginlega blánóttin sem dugar til þess --- þá sýnist mér eftirfarandi: Í fyrsta lagi er þetta skilgreining á örorku og svo hækkun frítekna. (Gripið fram í.) Já. Þegar maður liggur yfir skilgreiningu á örorku, þá liggur maður yfir henni í marga mánuði og maður liggur yfir hverju orði, hverju einasta orði. Ég hef ekki getað legið yfir hverju orði. Ég átta mig ekkert á því hvaða þýðingu þetta hefur, ekkert, hvað það þýðir að breyta þeirri skilgreiningu sem er í dag, yfir í þá skilgreiningu sem hér er lögð til. Hjá lífeyrissjóðunum er skilgreiningin yfirleitt sú að öryrki er sá sem ekki er fær um að gegna því starfi sem veitti honum aðild að viðkomandi lífeyrissjóði. Það er miklu víðari skilgreining en sú skilgreining sem hefur verið í almannatryggingakerfinu þannig að t.d. ef verkfræðingur í Lífeyrissjóði verkfræðinga missir allt í einu minnið og man ekki formúlurnar sínar og getur ekki unnið sem verkfræðingur, þá verður hann 100% öryrki hjá Lífeyrissjóði verkfræðinga. En hann getur grafið skurði eða eitthvað slíkt og hann er ekki öryrki hjá almannatryggingum af því að hægt er að vísa honum í annað starf. Þetta er bara dæmi um það hve örorkuskilgreiningarnar geta verið mismunandi. Hér er verið að tala um breytingu á örorkuskilgreiningu. Ég átta mig ekki á því og ég vil gjarnan spyrja að því: Hvaða hópur manna er öryrkjar samkvæmt gömlu skilgreiningunni en ekki þeirri nýju? Og hvaða hópur manna er öryrkjar samkvæmt nýju skilgreiningunni en ekki þeirri gömlu? Þetta er mjög mikilvægt.

[17:30]

Örorkulífeyririnn er alltaf viðkvæmasti lífeyririnn í öllum tryggingarkerfum vegna þess að það er á hreinu að ef einhver maður verður sjötugur og á rétt á ellilífeyri þá er það nokkurn veginn á hreinu hvenær hann er sjötugur. Það er líka nokkurn veginn á hreinu hvenær einhver er dauður. Ef einhver deyr þá er það alveg á hreinu, hann er annaðhvort dauður eða lifandi, og þá kemur til makalífeyrir og barnalífeyrir. En örorkulífeyrir er þannig að einhver segir: Ég er með verk í bakinu, og þá er hann með verk í bakinu og það er ekki nokkur lífsins leið að afsanna það að maðurinn sé með verk í bakinu, herra forseti. (ÖS: Ert þú með verk í höfðinu?) Það getur verið að ég fái hann, já.

Örorkulífeyririnn er því mjög opinn fyrir misnotkun í öllum kerfum og þess vegna, því miður, er ekki hægt að hafa örorkulífeyrinn eins góðan og hann þyrfti að vera. Vegna þess að örorkulífeyririnn þarf að vera hærri en ellilífeyririnn í grundvallaratriðum, vegna þess að öryrkinn er í blóma lífsins, hann er að byggja sér hús, fyrirtæki, koma upp börnum o.s.frv. Ellilífeyrisþeginn á að vera búinn að þessu, yfirleitt. Örorkulífeyririnn þyrfti því að vera hærri, örorkulífeyririnn þyrfti að vera hærri en ellilífeyririnn en það er ekki hægt vegna hættu á misnotkun. Þetta er þekkt um allan heim varðandi örorkulífeyri.

Ég ætla ekki að ræða meira um þessa örorkuskilgreiningu, en kem að hækkun frítekjumarka. Hvað þýðir það? Vissulega hafa þær reglur hingað til verið hjónabandsfjandsamlegar og ég er á móti þeim af þeirri ástæðu vegna þess að ég tel að hjónabandið sé grundvöllur þjóðfélagsins og styðja eigi það og styrkja. Það er líka annað að gerast, það er vaxandi einstaklingshyggja. Þetta frv. og þær kröfur sem hafa komið fram bera vott um einstaklingshyggju. Nú á að segja: Ég á ekki að vera háður tekjum maka míns. Ég á að standa á eigin fótum. (Gripið fram í: Þú styður okkur í þessu.) Þetta er einstaklingshyggja, já, þannig að það er gott mál. En þetta er um leið brotthvarf frá þeirri stefnu sem við erum með með tvö lífeyriskerfi, almannatryggingar og lífeyrissjóði, vegna þess að þessi kerfi rekast á í sívaxandi mæli. Ellilífeyrisþegi sem fer á lífeyri núna í dag er með 1,5% hærri lífeyri af tekjum en sá sem fór á lífeyri á síðasta ári. Svona vex ellilífeyririnn frá lífeyrissjóðunum stöðugt. Og þrátt fyrir 45% skerðingu á milli kerfanna þá bætir hann stöðu sína um 0,8% á ári. Einhvern tíma kemur að því að það er komin oftrygging, og hún er eflaust komin í mörgum tilfellum. (Gripið fram í: Hjá bankastjórunum.) Já, svo maður tali nú ekki um þau ósköp.

Sú þróun sem hér á sér stað, að auka þær tekjur sem menn geta haft annars staðar frá, úr lífeyrissjóðum og annars staðar, er skref aftur á bak í því að taka á samspili almannatrygginga og lífeyrissjóða. Ég vil reyndar benda á eitt, að í 3. mgr. 17. gr. núgildandi laga um almannatryggingar stendur:

,,Nú sinnir maður ekki lagaskyldu um greiðslu iðgjalda til lífeyrissjóðs samkvæmt lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum. Er þá heimilt að áætla honum tekjur sem koma til frádráttar greiðslu tekjutryggingar. (ÖS: Er þetta málþóf?) Setja skal reglugerð með nánari ákvæðum um framkvæmd þessa frádráttar.``

Þessi reglugerð hefur ekki komið fram og ég skil ekki af hverju. Vegna þess að þarna, ef þessu ákvæði hefði verið beitt og sagt við menn: ,,Þú átt að hafa verið í lífeyrissjóði frá 1980`` --- þá þyrfti ekki allar þessar skerðingar. Þá þyrfti ekki 45% skerðinguna vegna þess að þá tækju almannatryggingar á þessu eðlilega. Þá mundu menn hreinlega draga frá bótum almannatrygginga bætur frá lífeyrissjóðum og það er ósköp eðlilegur hlutur, vegna þess að almannatryggingar eiga að veita lágmarkslífeyri, grunnlífeyri.

Herra forseti. Það er ýmislegt í þessu sem er ágætt. Það er verið að einfalda tekjuhugtökin o.s.frv. Ég mundi gjarnan vilja skoða þætti eins og húsaleigubætur og vaxtabætur og annað slíkt, hvernig það kemur inn í þetta, en mér hefur ekki unnist tími til þess. Ég get ekki tekið neina ábyrgð á því hvernig þetta frv. kemur út í samspili við heilan tug bóta sem þyrfti að skoða, vaxtabætur, barnabætur o.s.frv., eins og ég gat um áðan, allar þær skúffur. Ég hef ekki getað kannað það. Ég verð því miður að segja að sem tryggingafræðingur get ég ekki borið neina vitræna ábyrgð á þessu frv. og ég sit hugsanlega þá hjá nema hv. nefnd takist að laga frv. svo mikið að ég geti nokkurn veginn sóma míns vegna staðið að því.