Almannatryggingar

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 17:39:06 (2774)

1998-12-19 17:39:06# 123. lþ. 46.13 fundur 365. mál: #A almannatryggingar# frv. 149/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 123. lþ.

[17:39]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Það er alveg með eindæmum hvers konar vinnubrögð tíðkast á Alþingi nú á síðasta starfsdegi þingsins, vonandi. Og þó að við stjórnarandstæðingar höfum reynt að semja um ákveðinn tíma þá eru það stjórnarsinnar sem halda hér lengstar ræður. (Gripið fram í.) Eða stjórnarsinni.

En inn er komið frv. frá hæstv. heilbrrh. þar sem okkur er uppálagt að lögfesta þá mismunun sem stunduð hefur verið á ólögmætan hátt, lögfesta mannréttindabrot sem umboðsmaður Alþingis hefur bent á að hafi tíðkast án lagastoðar í skjóli reglugerðar. Nú á sem sagt að bjóða þinginu upp á það á síðasta starfsdegi fyrir jól að lögfesta þetta mannréttindabrot. Þetta minnir mig, herra forseti, óþyrmilega á viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar við nýföllnum dómi Hæstaréttar um veiðileyfi, nema hvað þar voru lög sem stönguðust á við stjórnarskrána, við stjórnarskrárvarin mannréttindi, en nú er það reglugerð. Og þá eru viðbrögðin bara þau: Við skulum reyna að laga þetta með því að lögfesta ósómann, breyta stjórnarskránni eða breyta lögum.

Herra forseti. Með þessu umdeilda ákvæði, sem er í 8. málslið 2. gr. þessa frv., fylgir hins vegar annað ákvæði sem er skref í rétta átt til að milda þá skerðingu bóta er varðar lífeyri til elli- og örorkulífeyrisþega vegna tekna maka. Þessi breyting er að sjálfsögðu til bóta frá því sem nú er og eykur fjármuni til tekjutryggingar öryrkja og ellilífeyrisþega, þó að enn sé langt frá því að litið sé á hjón sem sjálfstæða einstaklinga, sem hlýtur að vera sjálfsögð krafa á jafnréttistímum og stefna okkar kvennalistakvenna til langs tíma.

Ég mótmæli þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð en styð að sjálfsögðu alla aukningu á tekjutryggingu örorku- og ellilífeyrisþega. Vonandi finnur hv. heilbr.- og trn. ásættanlega leið til að tryggja að afnám tekjutengingar milli hjóna minnki sem mest án þess að lögfesta réttmæti þess að samtengja tekjur hjóna almennt, hvort sem viðkomandi eru öryrkjar, ellilífeyrisþegar eða hvorugt. Hvort sem lendingin að sinni verður flýtimeðferð, eins og hæstv. heilbrrh. óskar eftir, eða reglugerðarbreyting skal ósagt látið á þessari stundu. En reglugerðarbreyting tekur styttri tíma og kemur í veg fyrir lögbindingu á stjórnarskrárbroti sem ég tel að hér sé verið að leggja til. Það má ekki lögfesta misrétti, þó að rétt sé að draga úr því misrétti sem nú hefur tíðkast án lagastoðar.

Ég endurtek, herra forseti, að þessi vinnubrögð eru ekki boðleg. Það verður að gefast ráðrúm til að fara vandlega ofan í þetta mikilvæga, viðkvæma og flókna mál. Það verður að komast upp úr þeim sporum að festa lífeyrisþega í fátæktargildru og löngu er tímabært að líta á hjón sem sjálfstæða einstaklinga tekjulega séð bæði varðandi bætur og skatta. Það síðastnefnda er reyndar önnur umræða sem ekki er tími fyrir nú en væri æskilegt að taka við tækifæri eftir jól.