Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 18:31:18 (2776)

1998-12-19 18:31:18# 123. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[18:31]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það voru tvö atriði í ræðu þingmannsins sem ég vildi víkja að í stuttu andsvari. Hið fyrra var spurning hans að því er varðar fyrirgreiðslu við kvikmyndafyrirtæki og þá heimild sem ráðgert er að taka inn í fjárlögin hvað varðar stuðning við kvikmyndaframleiðslu hér á landi.

Eins og kunnugt er hafa ýmsir, eða fleiri en einn erlendur aðili, sýnt því áhuga að koma hér upp kvikmyndastarfsemi. Til þess að greiða fyrir því þarf e.t.v. að setja í lög ákveðin ákvæði sem gera Ísland að samkeppnishæfu umhverfi fyrir slíka starfsemi, miðað við það sem gerist annars staðar, eins og t.d. á Írlandi. Þess vegna er þetta heimildarákvæði sett þarna inn. Það er það sem hangir á spýtunni. Þetta er hins vegar ekki beintengt þeim samningi sem gerður var í dag við íslenska aðila í kvikmyndaheiminum, kvikmyndagerðarmennina, leikstjórana og handritshöfundana og þann ágæta hóp frumkvöðla á þessu sviði hér á Íslandi, þó að auðvitað sé málið skylt og auðvitað muni þessir aðilar væntanlega hafa mikinn stuðning hver af öðrum.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna er spurning hv. þm. um kostnað af einkavæðingu á næsta ári. Ég verð því miður að svara því þannig að ég hef engar tölur handbærar um það efni eins og sakir standa. Við vitum auðvitað að það kostar sitt að sýsla með þessa hluti. Ákveðin sölulaun eru greidd þeim aðilum sem þarna fara höndum um, eins og eðlilegt er. Alveg eins og í fasteignaviðskiptum og öðru þarf að greiða fyrir þá þjónustu sem innt er af hendi í þessu efni. Ég vil hins vegar taka fram hvað varðar til að mynda Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, þá varð sölukostnaðurinn á endanum þar mun lægri en upphaflega leit út fyrir vegna þess að af hálfu ríkisins var gengið eftir því að hafa þennan kostnað sem lægstan. Það er hins vegar ekki hægt að ætlast til þess þegar um er að ræða mjög stórar upphæðir og mikil verðmæti að aðilar sem koma að því máli sinni þeirri þjónustu án þess að fá greitt fyrir hana. Hins vegar er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að reyna að semja í hvert skipti um að hafa þá þóknun sem lægsta. En venjan er auðvitað sú að miðað er við ákveðnar prósentur af verðmætinu sem er verið að fjalla um.