Fjárlög 1999

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 18:59:16 (2781)

1998-12-19 18:59:16# 123. lþ. 47.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[18:59]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka síðasta ræðumanni fyrir málefnalegu ræðu og alveg prýðilega umfjöllun um fjárlagafrv. eins og það er nú statt og hans hugleiðingar um efnahagsmálin í víðara samhengi. Þar kom mjög margt fram sem ég er alveg sammála. Við þurfum að hafa áhyggjur af viðskiptahallanum eins og ég hef margsagt úr þessum ræðustóli í haust. Við vitum öll að hinar ytri stærðir þjóðarbúsins geta breyst og að við höfum ekki fullt vald yfir þeim, eins og kunnugt er. Aðalatriðið er þó að mínum dómi að nota þær meðan þær eru svona hagstæðar til þess að búa í haginn og búa sig undir að þetta geti snúist til verri vegar. Ég held að við séum einmitt á fleygiferð að gera það í ríkisbúskapnum.

Það voru tvö, þrjú atriði önnur sem ég vildi drepa á. Í fyrsta lagi varðandi þjóðhagsspána þá er hún ekki unnin af ríkisstjórninni. Hún er unnin af Þjóðhagsstofnun. Við skiptum okkur ekkert af því. Hún er bara faglega unnin og reynt að leggja þar hið besta mat á þær stærðir sem menn þekkja og spá svo fyrir um framtíðina á þeim forsendum sem sagan gefur mönnum. Auðvitað er heilmikil óvissa í öllu er varðar sjávarafla, verð á erlendum mörkuðum o.s.frv. En Þjóðhagsstofnun mat það þannig, og við höfðum ekkert með það að gera í ríkisstjórninni, að það yrði meiri hagvöxtur en áður var talið í haust. Það er fagnaðarefni. Maður vonar að það gangi eftir. Það er best fyrir hag almennings, ríkissjóðs og annarra að svo fari. En þó að annars staðar sé útlit fyrir að hagvöxtur verði minni þá held ég ekki að það þurfi endilega að spila neitt inn í þetta hjá okkur. En Þjóðhagsstofnun metur þetta og það er ekkert pólitískt inngrip inn í þá sálma.

Sama er að segja um tekjuspána sem er afleidd stærð í rauninni af þeim horfum sem Þjóðhagsstofnun metur vera fyrir næsta ár og við höfum í sjálfu sér sáralítið með það að gera.

Að því er varðar sölutekjurnar, herra forseti, sem spurt var um þá er rétt að það komi fram að við höfum endurmetið til að mynda verðmæti það sem fólgið er í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins á grundvelli þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir um markaðsvirði þar. Þar er heilmikil aukning. Hitt atriðið í sambandi við sölutekjurnar er það sem þingmaðurinn nefndi, að stærsti hlutinn af Íslenskum aðalverktökum, hlutur ríkisins í þeim, verður seldur á næsta ári en ekki þessu. Þetta eru stærstu liðirnir í auknum sölutekjum.